Suðurlandsskógar

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 15:26:41 (5165)

1997-04-15 15:26:41# 121. lþ. 102.3 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:26]

Árni Johnsen (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir flest það sem hv. þm. Jón Kristjánsson sagði í ræðu sinni um verkefni Suðurlandsskóga og þróun skógræktar á Íslandi. En ég vil undirstrika það að ég hef alla tíð fagnað framgangi Héraðsskógaverkefnisins og það hefur skilað miklum árangri og sýnt að við erum á réttri leið. Það breytir hins vegar ekki þeirri staðreynd að fyrrv. landbrh. tók á sínum tíma af skarið. Ég sagði ekki að það hefði verið tekið verkefni af Suðurlandi. Það var tekin ákvörðun um að verkefnið færi fram á Austurlandi.

Á svipuðum tíma voru uppi áform um verkefni sem kallað var skógrækt og bændaskógar í Laugardalnum og uppsveitum Árnessýslu. Það teygðist víða um Suðurlandskjördæmi og mikil áform voru um það hjá mörgum góðum skógræktarmönnum. Og á sama tíma var fjallað um annað verkefni austur á Héraði. Ég fylgdist grannt með þessu máli á sínum tíma. Ég fylgdist grannt með þeim væntingum sem voru uppi, m.a. um ræktun trjáa og um gróðrarstöðvar til þess að fylgja þessu verkefni eftir og það er einföld staðreynd að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tók af skarið. Menn verða að þora að taka af skarið. Hann gerði það. Ég var ekki sammála því en það þýðir ekkert að vera að setja einhverja engilmynd upp núna eins og þetta hafi aldrei komið til. (SJS: Ertu ekki í andsvari við mig?) Það þýðir ekkert. Og þó að hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason þakki Steingrími J. Sigfússyni sérstaklega fyrir velvilja hans í garð Suðurlandsskóganna, þá hefði hann kannski átt að ... (ÍGP: Það er í garð þessarar tillögu, þessa frv.) Ég vil minna á að það hefði verið hugsanlegt að þakka honum fyrr. (ÍGP: Ég var ekki á þingi þá.)