Suðurlandsskógar

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 15:30:18 (5167)

1997-04-15 15:30:18# 121. lþ. 102.3 fundur 524. mál: #A Suðurlandsskógar# frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:30]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil bara þakka fyrir þær ágætu umræður sem hafa orðið um þetta frv. sem hér liggur fyrir og hefur verið til 1. umr. og lýsa ánægju minni með að það hefur fengið hér almennt góðar undirtektir og væntanlega að það fái þá skjótan framgang á þinginu. Auðvitað fer þetta mál af stað eins og fjárveitingar gera ráð fyrir nú og er bundið við það átak sem ríkisstjórnin hefur lagt til að sett verði til landgræðslu og skógræktar. Það eru þeir fjármunir sem við höfum úr að spila.

Í frumvarpsgreinargerðinni er gert ráð fyrir mjög framsækinni áætlun til nokkurra áratuga með stórum upphæðum. Það er fyrst og fremst sett fram til þess að það liggi fyrir hvað átak af þessari stærðargráðu kostar, en það er að sjálfsögðu löggjafans hverju sinni að veita til þess fjármuni eftir því sem menn telja mögulegt, eftir því sem talið er bolmagn til og eftir því hvernig menn vilja forgangsraða verkefnum. Meira get ég ekki sagt um það mál en ég vona sannarlega að á komandi tímum sjái menn ástæðu til að leggja aukna áherslu á skógrækt og landgræðslu. Og vil ég í því sambandi ítreka það sem ég nefndi áðan og taka undir þau ummæli hv. 4. þm. Norðurl. e., að vonandi verði framkvæmdum haldið áfram og víðar eins og hann orðaði það. Ég gat þess einmitt í framsöguræðu minni, þar sem ég fór í stuttu máli yfir söguskoðun verkefnisins út af því að þar hafði verið rætt um hvernig skógrækt á Íslandi hefur farið af stað á undanförnum áratugum, að verkefni í nytjaskógrækt á bújörðum sem stundum hefur verið kölluð bændaskógar hófust formlega á árinu 1970 og þá þegar austur á Fljótsdalshéraði. En sú framkvæmd, bændaskógar eða nytjaskógrækt á bújörðum, hefur síðan breiðst út á fleiri landsvæðum, m.a. Suðurlandi, Skagafirði, Eyjafirði, Suður-Þingeyjarsýslum og Borgarfirði svo að þau héruð séu nefnd þar sem þetta átak hefur verið frekast í gangi. Það er mín skoðun og kannski mínar væntingar að við munum í framhaldi af þessari áætlun og að fenginni reynslu af Héraði búa til heildstæða framkvæmdaáætlun í skógrækt fyrir landið allt þar sem tekið verði mið af þeim breyttu áherslum sem fram koma í þessu frv. um Suðurlandsskógana. Ég undirstrika það sem fram kom um það efni í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. og ég var að öðru leyti sammála því sem hann setti hér fram um það efni og þakka hv. þm. fyrir undirtektir þeirra við frv. að öðru leyti.