Stefnumótun í menntunarmálum í landbúnaði

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 15:37:26 (5170)

1997-04-15 15:37:26# 121. lþ. 102.4 fundur 377. mál: #A stefnumótun í menntunarmálum í landbúnaði# þál., Flm. ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:37]

Flm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. á þskj. 662 ber ég fram þáltill. um stefnumótun í menntamálum í landbúnaði ásamt þeim hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni og Svanfríði Jónasdóttur. Tilefni þáltill. er að fjalla um afmarkaðan þátt í landbúnaði en vert er að hafa í huga að líklega hefur engin atvinnugrein hér á landi breyst jafnmikið á þessari öld og einmitt landbúnaður. Það sýnir e.t.v. best hve miklar breytingar hafa átt sér stað í landbúnaði ef sú staðreynd er skoðuð að nú eru um það bil 5% af vinnuafli landsmanna bundin að störfum í hefðbundnum landbúnaði. En fyrir tæpum 60 árum voru um 32% eða um 1/3 af vinnuafli landsmanna í landbúnaði. Þetta segir okkur að það hafi átt sér stað mjög verulegar breytingar í landbúnaði á síðustu áratugum, breytingar sem hafa haft í för með sér miklar afleiðingar fyrir þjóðfélagið allt og ekki hvað síst þennan atvinnuveg.

Þáltill. byggist á þeirri skoðun flutningsmanna að mikilvægt sé fyrir atvinnugreinina að huga vel að stefnumótun í menntamálum þannig að skipulagi þar sé sem best háttað til að árangur náist innan greinarinnar. Tillagan sjálf gerir ráð fyrir að landbrh. skipi nefnd til að vinna að stefnumótun í menntamálum landbúnaðarins og sérhæfðir aðilar skipi þessa nefnd, þar á meðal fulltrúar þingflokka, sérhæfðir aðilar úr menntmrn. og landbrn., fulltrúar frá sérskólum landbúnaðarins --- þar er átt við skólastjórnendur, kennara og nemendur --- fulltrúa hagsmunasamtaka í landbúnaði og frá öðrum samtökum á vinnumarkaði, fulltrúa framhaldsskólastigsins og háskólastigsins og aðilar frá rannsóknastofnunum tengdum landbúnaði. Það er augljóst af þessari upptalningu að hér er leitast við að búa til vandaða umgjörð um mikilvægt málefni.

Í tillögunni segir að þessi nefnd skuli sérstaklega kanna skipulag á sérhæfðri menntun í landbúnaði, þ.e. hvernig því sé best fyrir komið, skoða fyrirkomulag í öðrum löndum, líta til námsefnis í grunn- og framhaldsskólum og rannsaka menntunarstig í landbúnaði, skipulag endurmenntunar og gera tillögur um hvernig sérskólar landbúnaðarins eigi að tengjast öðru skólastarfi og gera ábendingar eða skoða tengsl rannsókna við skólastarf. Það er augljóst af tillögugreininni að hér er búin til verkáætlun með aðkomu fjölmargra aðila sem vel þekkja til málsins.

Skipulag landbúnaðarmenntunar hér á landi hefur einkum falist í menntun í sérskólum sem eru þrír hérlendis, þ.e. bændaskólarnir á Hólum og á Hvanneyri og í Garðyrkjuskóli ríkisins að Reykjum í Ölfusi. Í tengslum við Bændaskólann á Hvanneyri er rekin búvísindadeild bændaskólans sem er kennslustofnun á háskólastigi, eina kennslustofnun á háskólastigi sérstaklega í landbúnaðarfræðum.

Þessir sérskólar hafa eina sérstöðu sem er vert að vekja strax athygli á í umræðunni og það er að stjórnsýslulega heyra þessir skólar undir landbrn. Almenn regla í okkar þjóðfélagi er að skólakerfið heyri allt stjórnsýslulega, eða langflestir þættir þess, undir menntmrn. Þó er til undirtekning frá þessu. Í sjútvrn. var byggð upp sérstök starfsfræðsla í sjávarútvegi en það er reyndar hlutur sem hefur verið endurmetinn nú nýlega í tengslum við endurskoðun á Atvinnuleysistryggingasjóði. Meginreglan er samt sú að menntmrn. fer með heildarumsjón menntamála hér á landi. Það á ekki við þessa sérskóla og í greinargerð með tillögunni er í sjálfu sér ekki kveðið upp úr um hvort hér sé um að ræða rétt skipulag, heldur er nefndinni falið að skoða mjög vandlega þennan þátt. Hins vegar, herra forseti, er hægt að færa mjög sterk rök fyrir því að eðlilegt væri og landbúnaðinum og menntun og kennslu í landbúnaðinum til hagsbóta ef þessir sérskólar heyrðu eins og aðrir sérskólar undir menntmrn. Þetta hefur vitaskuld ekkert með ráðherra að gera í neinum mæli heldur einungis hvernig menn vilja hafa skipulag menntamála.

Það er líka hægt að hugsa sér aðra útfærslu af sérskólum fyrir landbúnaðinn, þ.e. samstarf sérskóla og almennra skóla. Við höfum mjög gott dæmi um það innan almenna menntakerfisins, þ.e. Hótel- og veitingaskóla Íslands sem er deild í Menntaskólanum í Kópavogi. Nú fyrir skömmu var einmitt verið að taka í notkun mjög myndarlega byggingu við skólann sem á að hýsa Hótel- og veitingaskólann. Þetta fyrirkomulag, að tengja sérmenntun við starfandi framhaldsskóla, tel ég að mörgu leyti vera mjög góða leið og reynslan af þessu fyrirkomulagi er góð. Þessir skólar hafa nokkuð sérhæft sig. Garðyrkjuskólinn er vitaskuld á sviði garðyrkju. Bændaskólinn á Hvanneyri er með almenna búfræðimenntun en Bændaskólinn á Hólum hefur einkum einbeitt sér að hrossarækt og fiskeldi og reyndar rannsóknum tengdum þeim efnum.

Það er mjög mikilvægt, herra forseti, þegar rætt er um menntamál í landbúnaði að svara þeirri spurningu hvort nemendur innan landbúnaðarkerfisins, innan sérskóla landbúnaðarins, lendi í blindgötu þegar þeir hafa lokið námi í sínum sérskólum. Það þekkjast dæmi þess að aðlögunin og brautin frá sérskólunum yfir í almennt framhaldsskólakerfi er ekki mjög skýr. Þetta er einn af þeim þáttum sem nefndin verður að skoða mjög vandlega vegna þess að þó svo menn kæmust að þeirri niðurstöðu að heppilegt væri að hafa sérskólana undir fagráðuneytinu, þá þarf vitaskuld að ganga þannig frá útfærslu að ekki komi niður á nemendunum sjálfum. Hins vegar er vert að benda á að endurmenntun er vaxandi þáttur í allri kennslu og menntun hér á landi og landbúnaðurinn hefur að mörgu leyti byggt upp mjög athyglisvert kerfi endurmenntunar. Þar á ég við starfsemi ráðunauta í leiðbeiningarþjónustu víðs vegar um landið.

[15:45]

Endurmenntun er orðin mjög ráðandi þáttur í menntakerfi okkar. Það er athyglisvert að nú sækja fleiri námskeið Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands heldur en eru í háskólanum sjálfum. Það eru 7.000 manns sem sækja þessi endurmenntunarnámskeið, styttri eða lengri námskeið, á sama tíma og það eru 6.000 nemendur í háskólanum sjálfum. Þetta er athyglisverð þróun sem þarf að hafa í huga við umræðu um þessi mál.

Gert er ráð fyrir að nefndin muni kanna framhaldsnám á háskólastigi hérlendis en það eru mjög margir þættir í menntamálum sem geta aukið tekjur landbúnaðarins verulega. Er þar nóg að nefna hluti sem tengjast bútækni, landnýtingu, líftækni, jarðnýtingu eða orkunýtingu, þannig að aukin menntun í matvælaiðnaði og í tengdum greinum mun vitaskuld leiða til framfara innan landbúnaðarins.

Það er líka mjög mikilvægt hvernig æðri menntun --- og þegar rætt er um æðri menntun er fyrst og fremst átt við menntun á háskólastigi --- er komið fyrir innan landbúnaðarins. Nú er það svo að það eru víða mjög vel menntaðir einstaklingar starfandi í íslenskum landbúnaði. Það er til að mynda vandamál í íslenskum sjávarútvegi hvað tiltölulega fáir háskólamenntaðir menn starfa innan þeirrar atvinnugreinar. Ég veit ekki til þess að gerð hafi verið könnun á því hvernig þessu er háttað í landbúnaði en þess þekkjast fjölmörg dæmi innan landbúnaðararkerfisins, bæði innan rannsóknastofnana, kennslustofnana og hagsmunasamtaka, um mjög vel menntaða einstaklinga. Það er ekki óalgengt að menn hafi lokið doktorsprófi í fræðum tengdum landbúnaði. Það er ótrúlega mikið um að Íslendingar hafi farið í framhaldsnám og lokið doktorsprófi eða doktorsgráðu í tengslum við landbúnað.

Það er gert ráð fyrir því í ályktuninni og velt fyrir sér hvort skipuleggja eigi háskólanám í landbúnaðarfræðum þannig að nemendur stundi nám í Háskóla Íslands og í búvísindadeildinni að Hvanneyri og búvísindanámið yrði þannig hluti af samræmdri háskólamenntun. Þetta er eitt af þeim álitaefnum sem nefndin verður að skoða en ekki er kveðið upp úr um hvaða útfærsla sé hentugust.

Sömuleiðis er mjög mikilvægt að skoða tengsl rannsókna og skólastarfs. Bent er á að það eru fjölmargir menntaðir starfsmenn starfandi innan landbúnaðarkerfisins. Við þekkjum margverðlaunaða ostagerðarmenn hér á landi. Það er hins vegar athyglisvert, ekki einungis að menn hafi fengið mjög oft verðlaun á erlendum markaði fyrir góða og vandaða framleiðslu, heldur að allir þessir menn eru menntaðir erlendis, langflestir í Danmörku, sem segir okkur mikið um hvernig Danir líta á þennan mikilvæga málaflokk.

Það er sömuleiðis nauðsynlegt fyrir endurmat á menntun í landbúnaði að gera sér grein fyrir því að hindranir í alþjóðlegum viðskiptum eru að minnka. Heimurinn er að smækka í þeim skilningi að samskipti, bæði viðskiptaleg, menntaleg og menningarleg, eru að aukast mjög mikið á næstu árum. Aukin menntun í landbúnaði hefur líka áhrif til að bæta tengsl milli dreifbýlis og þéttbýlis á þann hátt að það eru fjölmörg álitamál og áhugamál þéttbýlisins sem tengjast landbúnaði beint. Þannig er hægt að nefna þætti eins og gróðurvernd, jarðvegseyðingu, stóriðju, hreina náttúru, mengun og umgengni í óbyggðum. Allt eru þetta mál sem snerta upplýsingagjöf, menntun og menntastig, bæði í landbúnaði og þéttbýli, og hefur ekki hvað síst að segja við að skapa góð tengsl á milli fólks í landinu.

Hæstv. landbrh. skipaði nefnd sem gerði tillögur um framtíðarverkefni Bændaskólans á Hvanneyri. Sú nefnd hefur skilað góðu áliti sem kemur til með að gagnast fyrir þá þáltill. sem hér er lagt upp með, en umgjörð hennar og verksvið er mun breiðara heldur en nefnd landbrh. var falið á sínum tíma. En það voru athyglisverð sjónarmið og niðurstöður sem komu fram í vandaðri úttekt á vegum nefndar hæstv. ráðherra og ég er þess fullviss að það starf mun gagnast mjög þeirri nefnd sem þessi tillaga gerir ráð fyrir að verði skipuð.

Herra forseti. Það er mikilvægt að landbúnaðurinn --- það á bæði við menntamál og reyndar aðra þætti --- átti sig á því og taki þátt í því með opnum huga að láta almennar leikreglur gilda um atvinnugreinina. Aðrar atvinnugreinar hafa smátt og smátt verið að færa sig úr sérstöku umhverfi sínu, sjávarútvegurinn er nýjasta dæmið um þetta, yfir til almennra reglna, hvort sem það tengist atvinnurekstrinum sjálfum eða stjórnsýsluþáttum. Landbúnaðurinn hefur líka verið að breytast á undanförnum árum. Hann hefur opnað sig meira út í almennt umhverfi. Það er vel. Mér finnst að einmitt á sviði menntamála sé nauðsynlegt að fylgja eftir á þann hátt sem tillagan gerir ráð fyrir.

Hafa ber í huga, herra forseti, að það er með ráðnum huga talað um stefnumótun í landbúnaði. Stefnumótun er ákveðið hugtak innan fræðigreinar sem felur í sér að búin sé til umgjörð til langs tíma. Hér er ekki verið að hugsa um aðgerðir til næstu tveggja, þriggja eða fjögurra ára, heldur fyrst og fremst verið að búa til umgjörð, framtíðarsýn, sem getur komið að gagni og dugað vel fyrir næstu tíu til þrjátíu ár eða jafnvel í lengri tíma. Það er til mjög skipulögð aðferðafræði varðandi stefnumótun sem hér er lagt upp með. Flutningsmenn eru þess fullvissir að með henni og með aðkomu allra þeirra sérfræðinga sem taldir þau eru upp í þáltill. geti hin margvíslegu tækifæri sem eru á sviði landbúnaðar nýst mun betur ef staðið verður vel að skipulagi menntunar eins og þessi tillaga gerir ráð fyrir.