Stefnumótun í menntunarmálum í landbúnaði

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 15:52:18 (5171)

1997-04-15 15:52:18# 121. lþ. 102.4 fundur 377. mál: #A stefnumótun í menntunarmálum í landbúnaði# þál., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:52]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi segja að ég er um margt sammála ýmsum efnisatriðum sem fram koma hér í þessari tillögu til þál. um að huga beri vel að menntunarmálum í landbúnaði og að skipuleggja þau þannig að þau gagnist landbúnaðinum sem best sem atvinnugrein og að námið nýtist þeim einstaklingum sem sækja sér þessa menntun til þeirra hluta sem þeir hafa hugsað sér.

Ég vil hins vegar gera hv. flm. og hv. þm. nokkra grein fyrir því í stuttu máli hvað hefur verið að gerast í landbrn. á undanförnum mánuðum og má kannski segja missirum. Ég tel að margt af því sem lagt er upp með hér í grunni þessarar tillögu til þál. hafi verið í gangi af hálfu landbrh. og landbrn. og sé enn í vinnslu eða úrvinnslu á næstunni.

Þegar ég settist í stól landbrh. hafði nýlokið störfum nefnd sem fjallaði um verkaskiptingu skólanna þriggja sem kenna á sviði landbúnaðarins, þ.e. Hólaskóla, Bændaskólans á Hvanneyri og Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum. Það varð mitt verkefni að fylgja eftir þeim tillögum sem þar voru settar fram. Ég tel að við höfum nú þegar gert það á ýmsan hátt hvað varðar skólann á Hólum. Þar hefur skólastarfið verið styrkt með ýmsu móti. Framkvæmdir hafa verið í gangi við skólasetrið til að bæta alla aðstöðu þar. Við höfum gert sérstakan samning við skólann um verkefni hans, hverju honum beri að sinna og fjárveitingar skilgreindar til þeirra hluta.

Í öðru lagi var líka í framhaldi af þessu og einnig í tengslum við niðurstöður nefndar sem ég skipaði til þess að fjalla um málefni garðyrkjunnar sest yfir málefni Garðyrkjuskólans að Reykjum. Í þessari verkaskiptanefnd svo og í niðurstöðum hinnar nefndarinnar um málefni garðyrkjunnar var að finna ýmsar tillögur sem vörðuðu stöðu og verkefni Garðyrkjuskólans. Ég er nýlega búinn að setja reglugerð um starfsemi þess skóla. Það var gert í upphafi þessa árs. Fyrir nokkrum dögum, kannski tveim eða þrem vikum, var skólanum skipuð skólanefnd í fyrsta skipti til að fylgja eftir þeim ákvæðum og nýmælum sem er að finna í reglugerðinni og að sjálfsögðu öðrum verkefnum sem skólanum ber að sinna.

Í þriðja lagi vil ég líka minna á þá nefnd sem fjallaði nýlega um málefni Bændaskólans á Hvanneyri og hv. framsögumaður þessarar tillögu gerði grein fyrir áðan. Ég er honum sammála um að þar sé að finna marga góða hluti sem megi gagnast skólanum og samstarfi stofnana á sviði landbúnaðarmála og auðvitað ekki síst menntuninni og hlutverkinu sem slíku. Ég er nú að setja af stað frekari úrvinnslu úr þeim tillögum sem þar voru settar fram um hvernig styrkja megi starfsemi Bændaskólans á Hvanneyri.

Þetta vildi ég láta koma fram hv. þm. og hv. landbn., sem trúlega fær tillöguna til meðhöndlunar, til upplýsingar. Ýmislegt af því sem hér er rætt um hefur verið í gangi og við höldum áfram að vinna úr því þó að ég sé síður en svo að gera lítið úr þeirri hugsun sem í raun er á bak við þessa tillögu. Ég byrjaði reyndar að lýsa stuðningi við þann anda sem í henni felst þó að það sé alltaf spurning um hvað á að gera mikið í nefndarstarfi og skipan nýrra og nýrra nefnda, ekki síst ef menn hafa ástæðu til að áætla að þau verkefni sem rætt er um séu að einhverju leyti í gangi og úrvinnslu.

Síðan vil ég aðeins segja, hæstv. forseti, að ég hef nokkuð velt því fyrir mér hvort hafa beri skólana sem mennta fólk til starfa í landbúnaði eða tengdum greinum þannig hvað varðar stjórnskipulagið að þeir heyri undir landbrn. Þegar ég sat í stól heilbrrh. fyrir nokkrum árum voru gerðar breytingar á skólum sem undir það ráðuneyti höfðu heyrt og þeir fluttir til menntmrn. að mínu frumkvæði. Ég taldi það vera eðli þeirra skóla að málum þeirra væri betur skipað þannig. Ég hef velt þessu fyrir mér varðandi landbúnaðarskólana og átt viðræður við ýmsa aðila um þau mál. Niðurstaða mín er að að öðru óbreyttu sé þeim rétt komið fyrir undir landbrn. þar sem þeir eru mjög tengdir atvinnugreininni. Ég hef ekki verið með tillögur um að flytja þá frá þessu ráðuneyti til menntmrn. Ég verð þó að segja að ég tel mjög mikilvægt, og tek undir með hv. framsögumanni, að um landbúnaðinn gildi almennar leikreglur. Ég tel að ég hafi verið að sýna það viðhorf mitt í verki með ýmsum málum sem ég hef bæði flutt hér í þinginu og verið að vinna að í ráðuneytinu þó að við séum ekki alveg sammála um það, ég og framsögumaður, hv. þm. Ágúst Einarsson, hversu stór skref beri að stíga í þeim efnum, eða hversu hratt beri að fara á þeirri braut sem ég held þó að við séum nokkuð sammála um að sé eðlilegt að færa landbúnaðinn inn á.

Það þarf að tryggja að menntunin í landbúnaðarskólunum sé þannig að nemar þar lendi ekki í blindgötum. Ég er algjörlega sammála hv. þm. hvað það varðar. Í framkvæmd tillagna Hvanneyrarnefndarinnar og úrvinnslu sem nú er að hefjast hef ég einmitt undirstrikað og lagt áherslu á að sú menntastofnun, hvort heldur er hin almenna menntun eða menntun á háskólastigi, tengist vel öðru námi í landinu og reynt verði að tryggja sem allra best samstarf við þá menntun, þannig að menntun þeirra sem snúa sér að landbúnaði sérstaklega sé ekki einangruð eða að einhverju leyti úr takt við það sem gerist í háskólamenntun í landinu almennt eða í öðrum menntastofnunum. Um þessi atriði er ég sammála hv. flutningsmönnum eins og ég gat um í upphafi. Ég tel að unnið sé að fjölmörgum þeim þáttum sem hér er bent á og því sé þessi nefndarskipun ef til vill óþörf. Ég vildi alla vega koma þeim sjónarmiðum á framfæri við hv. þing hvað væri að gerast og hvað ég hefði í huga að gera til að fylgja þeim álitum sem þegar hafa verið lögð fyrir ráðherra.