Stefnumótun í menntunarmálum í landbúnaði

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 16:06:34 (5173)

1997-04-15 16:06:34# 121. lþ. 102.4 fundur 377. mál: #A stefnumótun í menntunarmálum í landbúnaði# þál., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[16:06]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég vil aðeins leggja orð í þennan belg. Hér er verið að fjalla um menntamál í landbúnaði og við höfum heyrt svör hæstv. landbrh. Hann tjáir okkur að það sé verið að vinna ýmislegt í ráðuneytinu og þó að hann fagni þeim anda sem er í tillögunni þá gat ég ekki heyrt á honum að hann væri ákafur í að taka til meðferðar öll þau atriði sem þar eru nefnd. Vegna forsögu hæstv. ráðherra sem hann rakti sjálfur hér áðan varðandi það að færa menntamál úr fagráðuneyti og yfir í menntmrn. eins og hann gerði á meðan hann var heilbrrh., vil ég gjarnan nefna hér að nú fer nám í sjávarútvegsfræðum, hvort sem um skipsstjórnarnám er að ræða, fiskvinnslunám, vélstjórn eða nám á háskólastigi, allt fram innan þess skólakerfis sem fellur undir menntmrn. Ég er handviss um að það er þessu námi til styrktar að það er innan skólakerfisins. Það er skipulagt í tengslum við annað nám sem þar fer fram, nýtur ákveðins styrks af því að vera innan veggja skóla þar sem annað nám fer fram og með því að svona háttar til er einnig hægt að tryggja að hvergi lokist leiðir. Þegar framhaldsskólalögin voru sett þá féllu úr gildi lög sem snerust um hið sérhæfða nám í sjávarútvegi. Eftir það lýtur það í rauninni sömu lögmálum og annað nám á framhalds- og háskólastigi.

Ég vil skora á ráðherrann að líta til þess sem verið er að gera í menntamálum þessarar atvinnugreinar áður en hann vísar alfarið frá því verkefni sem mér finnst að hljóti að bíða okkar, sem er að endurskoða nám í landbúnaði með tilliti til uppbyggingar skólakerfisins í landinu almennt. Ég er í hópi þeirra sem telja það landbúnaði alls ekki til framdráttar að hann sé hólfaður af með sérlögum bæði hvað varðar atvinnustarfsemina sjálfa og menntamálin. Ég held að það sé mjög gott fyrir landbúnaðinn rétt eins og fyrir aðrar atvinnugreinar, hvort sem það er sjávarútvegur eða iðnaður, að gagnvirk samskipti eigi sér stað við aðra þá sem eru að mennta sig til ýmissa annarra starfa í samfélaginu, hvort sem það er á framhaldsskóla- eða háskólastigi.

Ég vil endurtaka þessar áskoranir mínar til hæstv. ráðherra og inna hann eftir því hvort kannað verði sérstaklega hvernig menntun í landbúnaði sé best komið fyrir innan skólakerfisins, að það verði tekið fyrir, ekki hvað síst þá með tilliti til þess að mikilvægur og vaxandi þáttur í menntamálum er rannsóknir og tengsl skóla, atvinnulífs og rannsókna. Ég er viss um að landbúnaðurinn mundi njóta góðs af frekari samskiptum og þátttöku eða íblöndun í hið almenna skólakerfi með þeim kostum sem því kunna að fylgja bæði varðandi menntun, menntunarmöguleika og rannsóknir.