Stöðvun hraðfara jarðvegsrofs

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 16:18:08 (5180)

1997-04-15 16:18:08# 121. lþ. 102.5 fundur 490. mál: #A stöðvun hraðfara jarðvegsrofs# þál., Flm. EgJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[16:18]

Flm. (Egill Jónsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um stöðvun hraðfara jarðvegsrofs. Með leyfi forseta, er tillagan með þeim texta sem ég les nú hér:

,,Alþingi ályktar, með vísan til samþykktar frá Alþingi árið 1990 um stöðvun jarðvegs- og gróðureyðingar fyrir árið 2000, að verja fram til ársins 2005 samtals 1,5 milljörðum kr. til Landgræðslu ríkisins til stöðvunar hraðfara jarðvegsrofs á helstu uppblásturssvæðum landsins. Fjárveiting þessi rýri ekki árlegar fjárveitingar til Landgræðslu ríkisins frá því sem nú er.

Skipting þessarar fjárveitingar verði eftirfarandi: 50 millj. kr. árið 1997, 100 millj. kr. árið 1998, 150 millj. kr. árið 1999 og 200 millj. kr. árið 2000.

Árleg fjárveiting næstu fimm ára, 2001--2005, verði 200 millj. kr.

Áætlunin verði endurskoðuð innan fjögurra ára.

Árlegar fjárveitingar til áætlunar þessarar haldi verðgildi sínu.``

Til þess að rifja aðeins upp aðdraganda að þessum tillöguflutningi þá fylgja hér fylgiskjöl sem prentuð eru með þingskjalinu og skýra þau að sjálfsögðu málið betur heldur en löng ræða þar um.

Ég vil vísa á fylgiskjal I, sem er þingsályktun um landgræðslu- og gróðurverndaráætlun til minningar um 1100 ára búsetu þjóðarinnar í landinu, sem samþykkt var á Þingvöllum 28. júlí árið 1974.

Fylgiskjöl II og III eru þingsályktanir um landgræðslu- og landverndaráætlun, önnur fyrir árin 1982--1986 og hin fyrir árin 1987--1991. Þessar tillögur áttu það sameiginlegt að ákveðið var það fjármagn sem til þessa verkefnis skyldi varið. En aftur á móti voru þau verkefni sem sérstaklega skyldi tekist á við í sambandi við græðslu landsins ekki skilgreind sem slík. Því var það að árið 1990, eins og fskj. IV greinir frá, var lögð fram þáltill. á Alþingi af fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem síðan var samþykkt og þar var lagt til að þessum tiltekna árangri, að stöðva hraðfara jarðvegsrof á Íslandi, skyldi náð fyrir aldamót. Það kom hins vegar í ljós að það var annmörkum háð að taka slíka ákvörðun þar sem ekki lágu fyrir upplýsingar um hvað þetta viðfangsefni væri víðfeðmt. Því var það að á árinu 1991 var flutt og samþykkt tillaga á Alþingi sem kveður á um að gerð skuli úttekt á grundvelli nýrrar tækni á því hvernig háttar með gróðurfar í landinu. Er sú þingsályktun birt sem fskj. V með tillögu minni nú.

Niðurstöðurnar af þessari myndkortagerð komu ýmsum á óvart. Þar kom í ljós að tæp 40% af landinu okkar er með gróðurþekju að vísu misjafnlega mikilli en á þessu landi er hins vegar miklu minni jarðvegseyðing heldur en ætla hefði mátt. Þannig var landinu deilt upp í ákveðna rofflokka eins og tafla II sýnir einmitt fram á.

Í framhaldi af þessum niðurstöðum tóku Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landgræðsla ríkisins að sér að hafa með höndum nánari greiningu á þessum aðstæðum og í töflu II kemur einmitt fram hvernig landinu er deilt upp hvað þetta varðar. Þar er skilgreint hvernig ástandið er innan hvers jarðvegsflokks. Þar kemur í ljós eins og ég sagði áðan að um 38.000 km² eru í bærilegu eða góðu ástandi, 23.000 km² þurfa athugunar við og um 17.000 km² eru lönd sem eru í mesta rofflokknum.

Til að greina þetta nánar var landinu skipt eftir hæðarbeltum. Ég hygg að það sé í fyrsta skipti sem menn hafa leitast við að leggja mat á þessar aðstæður eftir hæðarlínum, a.m.k. er mér ekki kunnugt um að svo hafi verið gert fyrr. Það liggur fyrir að um 48.000 km² eru fyrir ofan 500 m hæðarlínu sem menn gætu þá kallað í þessu tilviki eins konar gróðurmörk. Aftur á móti eru rúmlega 53.000 km² undir þessari hæðarlínu. Þegar landið er síðan greint eftir því hvort um er að ræða land yfir 500 m hæðarmörkum eða undir þá kemur fram býsna ólík mynd af því í hvaða ástandi landið okkar er.

Ég hygg að það sé nokkuð samdóma álit að það sé tæpast gerlegt að rækta þann hluta landsins sem er ofan þessara marka að neinu verulegu marki. Til þess að þetta skýrist betur fyrir hv. alþingismönnum þá fylgja einmitt myndkort með þingskjalinu. Annars vegar eins og landið lítur út í heild sinni og hins vegar eins og það lítur út neðan 500 m hæðamarka. Þegar þetta liggur fyrir þá er býsna ljóst að það er vel gerlegt með ákveðnu tilteknu fjármagni að ná fram þeim árangri að stöðva hraðfara jarðvegsrof með fjárveitingu sem mundi nema eins og ég kynnti hér í upphafi um það bil 1,5 milljörðum kr. Það er sem sagt gerlegt að ná fram þeirri ákvörðun sem Alþingi setti sér árið 1990. En þar sem þessar niðurstöður hafa ekki legið fullkomlega fyrir fyrr en á þessu hausti þá hefur tapast að því leyti tími og þar af leiðandi er hér miðað við að þessu átaki verði ekki lokið fyrr en á fyrstu árum næstu aldar.

Það getur verið álitamál hvað menn treysta sér til að setja mikið fjármagn í þetta. Það sem skiptir hins vegar meginmáli er að verkefnið er skilgreint og Landgræðsla ríkisins tók að sér að stilla upp og gera áætlun um með hvaða hætti þessu verkefni yrði náð á þessum tiltekna tíma. Mönnum hefur ekki auðnast að vinna áður með þessum hætti þar sem ekki hefur legið fyrir fyrr en í þessari áætlun, og eins og Landgræðsla ríkisins hefur sett þetta dæmi upp, hversu stór þessi vandi er.

Mér þykir vert að geta þess sérstaklega að að baki þessarar tillögu liggur býsna mikið starf. Að þessu verkefni hefur verið unnið frá árinu 1991 og frá árinu 1993 hefur sérstök nefnd, fagráð í landgræðslu, haft þetta mál alveg sérstaklega með höndum og lagt hefur verið í þessi verkefni sérstakt fjármagn að tilhlutan hæstv. fyrrv. landbrh. sem hefur reynst notadrjúgt í þessum efnum. Sú tillaga sem hér liggur fyrir er einmitt uppskeran af þessu starfi og er samhljóða þeirri ályktun sem landbrh. var afhent á sl. vetri.

Tími minn er liðinn og ég skal ekki syndga upp á náðina að þessu leyti. Ég sé að á dagskránni eru margar góðar tillögur sem snerta landgræðslu og ræktunarstörf og vonandi verða afgreiddar nokkuð samtímis á Alþingi. En ég geri það að tillögu minni að málinu verði vísað til síðari umr. og landbn.