Takmörkun á hrossabeit

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 16:33:06 (5181)

1997-04-15 16:33:06# 121. lþ. 102.6 fundur 507. mál: #A takmörkun á hrossabeit# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[16:33]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég mæli hér í fjarveru hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar fyrir till. til þál. um takmörkun hrossabeit og fjölda hrossa. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra, að höfðu samráði við umhverfisráðherra, að móta tillögur um aðgerðir og nauðsynlegar lagabætur til að takmarka fjölda hrossa og hrossabeit í úthaga með tilliti til jarðvegsverndar og hóflegrar nýtingar gróðurlendis. Tillögurnar verði kynntar Alþingi fyrir þinglok vorið 1998.``

Eins og vænta má styður flm. þessa tillögu gildum rökum sem m.a. koma fram í ítarlegri greinargerð tillögunnar. Þar kemur það fram að hrossum hefur fjölgað á Íslandi frá 1970 til 1995 um 133%. Þar kemur líka fram að ef svo heldur fram sem horfir, þ.e. ef hrossum fjölgar jafnmikið til ársins 2010 og þeim hefur fjölgað síðustu ár, þá verða þau árið 2010 ekki 70 þúsund heldur 140 þúsund. Það sér það því hver maður að það er fjarstæða að láta þessa hluti þróast eins og þeir hafa gert. Þess vegna er tillagan flutt, herra forseti. Ég bendi á að hér áðan voru til meðferðar frv. um breytingu á lögum um búfjárhald og frv. um afréttarmálefni o.fl. en bæði þessi mál geta orðið til þess að hjálpa til við að veita aðhald í þeirri búgrein sem hrossaræktin er. Ég fullyrði reyndar að verulegur hluti af þessum hrossum gerir afar lítið gagn og í þeim eru fólgin lítil verðmæti fyrir eigendur og aðra eins og að þessum málum er staðið og hefur verið staðið í seinni tíð.

Ég tel ástæðulaust, herra forseti, að lengja þessa umræðu frekar og legg til að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til síðari umr. og hv. landbn. og fer jafnframt fram á það að hv. landbn. leiti umsagnar hv. umhvn. um málið. Mér sýnist að miðað við undirtektir, m.a. úti í þjóðlífinu, þá hljóti það að vera einboðið að þessi tillaga verði samþykkt á yfirstandandi þingi vegna þess að ég veit að það eru margir sem þekkja til hversu alvarlegt vandamál er hér á ferðinni.