Skógræktaráætlun

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 16:35:39 (5182)

1997-04-15 16:35:39# 121. lþ. 102.7 fundur 546. mál: #A skógræktaráætlun# þál., Flm. StG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[16:35]

Flm. (Stefán Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég tala hér fyrir tillögu á þskj. 900, um skógræktaráætlun. Sá sem hér talar er 1. flm. að þessari tillögu ásamt 15 öðrum þingmönnum. Tillgr. hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að hlutast til um að Skógrækt ríkisins geri markvissa skógræktaráætlun fyrir allt landið. Áhersla verði lögð á öflun upplýsinga, skýra markmiðssetningu og stefnumörkun til langs tíma. Áætlunin taki til allra þátta skógræktar og taki mið af þeim áformum sem sett eru með stofnun Héraðsskóga á Fljótsdalshéraði og Suðurlandsskóga.``

Í greinargerð með tillögunni segir svo:

Árið 1999 verður öld liðin frá upphafi skipulegrar skógræktar á Íslandi. Umfang skógræktar var til skamms tíma mjög lítið, hvort sem litið er til fjármagns eða flatarmáls landsins. Fram til 1950 var áhersla lögð á að friða birkiskóga. Til þess þurfti ríkið að eignast þá í flestum tilvikum og var Skógrækt ríkisins sú stofnun sem hafði umsjón með þeim. Frá 1899 til 1950 voru um 24.000 ha, eða 0,2% landsins, friðaðir innan skógræktargirðinga. Um 1950 jókst áherslan á ræktun nýmarka með gróðursetningu og fljótlega varð notkun erlendra trjátegunda ríkjandi. Gróðursetning var nánast eingöngu á vegum Skógræktar ríkisins og skógræktarfélaga til 1970, en það ár voru fyrstu plöntur gróðursettar til nytjaskógræktunar á bújörðum í svokallaðri Fljótsdalsáætlun, alls 8.100 plöntur.

Árið 1987 voru innan við milljón skógarplöntur gróðursettar á Íslandi, þar af um 350.000 af Skógrækt ríkisins, 80.000 í nytjaskógrækt á bújörðum og um 500.000 af skógræktarfélögum. Um 300.000 af plöntunum, sem skógræktarfélögin sáu um gróðursetningu á, voru á vegum Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar sem sýnir að sveitarfélögin voru þá farin að taka verulegan þátt í skógrækt. Þess skal getið að milljón skógarplöntur duga til að rækta skóg á u.þ.b. 350 ha lands sem er álíka og flatarmál túna á 12 meðalstórum bújörðum.

Um 1990 varð veruleg aukning á gróðursetningu með tilkomu ,,landgræðsluskóga`` þar sem áhersla er á að rækta skóg á rýru landi víða um land og nytjaskógræktarátaksins Héraðsskóga á Fljótsdalshéraði. Á sama tíma varð mikil aukning í skógrækt á vegum sveitarfélaga og einstaklinga en samdráttur á gróðursetningu í löndum Skógræktar ríkisins.

Heilsteyptar skógræktaráætlanir voru fyrst gerðar á níunda áratugnum og hefur gerð þeirra þróast ört síðan. Þær eru nú gerðar fyrir alla ríkisstyrkta skóg- og skjólbeltarækt á bújörðum, en auk þess hafa áætlanir verið gerðar fyrir mörg svæða Skógræktar ríkisins og á síðustu árum hafa nokkur sveitarfélög og skógræktarfélög látið skipuleggja sín skógræktarsvæði. Hér er í flestum tilvikum um áætlanir fyrir einstök skógræktarsvæði (t.d. einstaka jarðarparta) að ræða, en skógræktaráætlanir fyrir stærri svæði eru einungis til fyrir innanvert Fljótsdalshérað, umhverfi höfuðborgarsvæðisins og umhverfi Akureyrar.

Með tilkomu aukins fjármagns til skógræktar vegna átaks til aldamóta, sem miðar m.a. að aukinni bindingu koltvísýrings, mun umfang skógræktar aukast verulega í annað skipti á innan við áratug. Við þetta vakna ýmsar spurningar í þjóðfélaginu. Fólk vill t.d. fá að vita hversu mikil aukning í skógrækt er á landsvísu, hvernig hún dreifist um landið, hvort hún stangist á við aðra landnýtingu eða við náttúruverndarsjónarmið, hver séu markmiðin með henni, hvaða tegundir eigi að leggja áherslu á og margt fleira. Þessum spurningum þarf helst að vera hægt að svara með tilvísun í stefnumörkun fyrir skógrækt í landinu í heild og á myndrænu formi, þ.e. með kortum, til þess að fólk fái rétta mynd af fyrirhuguðum framkvæmdum. Slík gögn eru einnig forsenda þess að almenningur geti myndað sér rökstudda skoðun og haft þannig áhrif á stefnuna.

Landsáætlun í skógrækt mundi gera allt skógræktarstarfið markvissara. Hún yrði grundvöllur að gerð svæðisbundinna framkvæmda- og styrktaráætlana, en reynslan af gerð slíkra áætlana fyrir Héraðsskóga og Suðurlandsskóga er sú að mjög mikil upplýsingaöflun og grunnvinna, svo sem kortlagning skógræktarskilyrða, þurfti að fara fram til þess að hægt væri að gera þær áætlanir. Slík grunnvinna felst í gerð landsáætlunar og verður þá tiltæk þegar gera á svæðisáætlanir. Landsáætlunin mundi einnig ná til svæða sem ekki eru talin vænleg til nytjaskógræktar en hafa engu að síður þýðingu fyrir aðra þætti, svo sem verndun birkiskóga, ræktun landgræðsluskóga og margt fleira.

Ýmis grunngögn eru til hjá Skógrækt ríkisins, svo sem gróft kort af skógræktarskilyrðum og upplýsingar um framkvæmdir liðinna ára. Þá er úrvinnsla síðustu heildarkönnunar á birkiskógum Íslands langt komin og gögn frá Landgræðslu ríkisins, Rala og Náttúrufræðistofnun munu einnig nýtast. Margt vantar þó til þess að hægt verði að gera landsáætlun í skógrækt, t.d. eru ríkisskógarnir ekki allir kortlagðir og engin skrá er til yfir alla reiti skógræktarfélaga eða einstaklinga.

Landsáætlun í skógrækt fæli í sér eftirfarandi:

stefnumörkun í skógræktarmálum til langs tíma, t.d. 50 eða 100 ára, þar sem tekið er tillit til allra þátta skógræktar, þar með talið verndun og endurheimt birkiskóga, þátt skógræktar í uppgræðslu lands og jarðvegsvernd, ræktun nýmarka í ýmsum tilgangi og fjölþætta nýtingu skóga;

markmiðssetningu til skemmri tíma, t.d. 5 eða 10 ára, fyrir einstaka þætti skógræktar;

áætlanir um ýmsa þætti skógræktar sem miða að því að ná settum markmiðum; í þeim kæmu fram upplýsingar um áherslusvæði, kostnað og ágóða, verndun, nýtingu, þátttöku aðila, plöntuframleiðslu, áhrif á umhverfið, félagsleg áhrif og margt fleira.

Til að hægt verði að gera slíka landsáætlun þarf að:

vinna að stefnumörkun og markmiðssetningu í skógrækt; vinnan færi fram innan Skógræktar ríkisins í upphafi en drög að stefnumörkun færu til margra aðila til umsagnar og loks til landbúnaðarráðherra til samþykktar;

klára birkiskógakönnunina;

kortleggja ríkisskógana;

kortleggja svæði í umsjá annarra ríkisstofnana og sveitarfélaga þar sem æskilegt væri að friða eða endurheimta skóg;

skrá og kortleggja skóga og skógræktarsvæði í eigu skógræktarfélaga, sveitarfélaga og einstaklinga;

endurskoða mat á skógræktarskilyrðum;

[16:45]

kanna umfang skógræktar og áhuga bænda, sveitarfélaga og fleiri aðila á aukinni skógrækt;

meta áhrif skógræktar á aðra umhverfisþætti, svo sem náttúruvernd, landnýtingu, líffræðilega fjölbreytni, landslagsmótun, veðurfar og margt fleira;

gera tilraun til að verðleggja skóga og meta gildi þeirra fyrir sjálfbæra þróun samfélagsins.

Helstu þættir landsáætlunar í skógrækt verði:

áætlun um verndun og sjálfbæra nýtingu birkiskóga;

áætlun um endurheimt birkiskóga;

flokkun á ríkisskógunum eftir hlutverkum og áætlanir um meðferð þeirra í samræmi við það;

áætlanir um ríkisstyrkta ræktun nýmarka, þar með talið nytjaskógrækt á bújörðum, skjólbeltarækt og sérstök verkefni, svo sem ,,landgræðsluskóga``;

áætlanir um þörf á rannsóknum, fræðslu, gerð ræktunaráætlana, plöntum o.fl.;

tillögur um aðferðir við skógvernd, skógrækt og nýtingu skóga sem taka mið af sjálfbærri þróun, þar með talin náttúruvernd í víðasta samhengi, og þörfum samfélagsins;

spár um skógrækt á vegum skógræktarfélaga, sveitarfélaga og einstaklinga;

kostnaðaráætlanir;

spá um magn afurða skóga á hverjum tíma og mögulega hagnýtingu þeirra.

Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir að ég tala hér í knöppum tíma. Ég hef lofað að stytta mál mitt og skal því ekki eyða fleiri orðum að þessari tillögu nú. En í tillögunni er vissulega góður samhljómur við það frv. sem hæstv. landbrh. var að tala fyrir fyrr í dag, frv. um Suðurlandsskóga.

Ég óska að lokum eftir því, virðulegi forseti, að málinu verði vísað til síðari umr. og landbn.