Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 17:15:00 (5185)

1997-04-15 17:15:00# 121. lþ. 102.8 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[17:15]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er dálítið merkilegt að heyra málflutning hv. alþýðubandalagsmanna í þessari umræðu. Í staðinn fyrir að fagna því að náð er góðum áföngum fyrir námsmenn er gripið til þeirrar röksemdafærslu að hér séu einhver munnleg lög í gildi um lánasjóðinn varðandi endurgreiðsluna, einhver munnleg lög séu í gildi um að það verði aldrei tekin 7% af námsmönnum. Það vill nú svo til, eins og komið hefur fram, að alþýðubandalagsmenn hafa flutt tillögur í þessu máli í vetur, þó menn haldi að við séum ekki langminnugir. Þar kemur í ljós að þeir álíta að þessi 7% séu í fullu gildi í þeim lögum sem nú eru og ástæða sé til þess að breyta því. En þetta er bara vegna þess að þeir bjuggust ekki við að stjórnarliðið kæmist að niðurstöðu í þessu máli og vonbrigði þeirra yfir því eru svona mikil að þeir grípa til óskaplega hæpins málflutnings í málinu sem heyra má á ræðum hv. 4. þm. Norðurl. e. og fleiri sem talað hafa í þessari umræðu.