Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 17:18:55 (5187)

1997-04-15 17:18:55# 121. lþ. 102.8 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[17:18]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því auðvitað að hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur tröllatrú á sanngirni hv. stjórnarliða en hins vegar eru þessi 7% í gildandi lögum. Það er meira en lítill hringsnúningur að fyrir áramót var lögð áhersla á að breyta þessum lögum til hags fyrir námsmenn en þegar á að breyta þeim hringsnúast hv. þingmenn Alþb. eins og skopparakringla og tala um einhver munnleg lög. Er eitthvað fleira í þessum lögum sem er munnlegt? Þetta hafa kannski verið hin bestu lög þegar allt kemur til alls. Við framsóknarmenn álitum það ekki vera og börðumst fyrir því að þeim yrði breytt. En við áttum síst von á því að þegar áfangi næðist í þessum efnum, yrðum það við sem lægjum undir mestum árásum fyrir svik í þessu máli. Mér finnst þetta mál allt saman vera með hinum mestu ólíkindum í okkar garð. (Gripið fram í.)