Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 18:37:27 (5201)

1997-04-15 18:37:27# 121. lþ. 102.8 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[18:37]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel að sú umræða sem hér hefur farið fram hafi að mörgu leyti verið ágæt. Hún hefur skýrt ýmsa þætti málsins þótt nokkrir séu óskýrðir enn.

Það er greinilegt að mjög dregur af þeim framsóknarmönnum eftir því sem líður á umræðuna. Þeir eru farnir úr salnum. Þeim hefur snjóað héðan út hægt og bítandi. Og miðað við kokhreysti hæstv. félmrh. í upphafi umræðunnar þá er það nokkurt umhugsunarefni, þar sem hann hældist um yfir frv. eins og það lítur hér út. Hann fullyrti reyndar að um samtímagreiðslur væri að ræða. Allir aðrir telja að svo sé ekki heldur sé hér í raun og veru um að ræða allt annað fyrirkomulag eins og hér hefur verið rakið. Námsmenn eru áfram í lánasjóðnum númer eitt og verða að fara með lánsloforðin þaðan inn í bankakerfið þannig að það er beinlínis ósatt þegar þeir framsóknarmenn voru að gefa það í skyn í gær að námsmenn væru lausir við skýrslufarganið í lánasjóðnum og gætu farið með öll sín mál og allar sínar þjáningar inn í bankann. Það er ekki þannig. (Gripið fram í: Til þjónustufulltrúanna.) Til þjónustufulltrúanna í bönkunum eins og hv. þm., ég held Hjálmar Árnason, hafi beinlínis sagt og hafi verið útvarpað eftir honum í hádegisfréttum útvarpsins. Það er ekki þannig.

Ég ætla þessu næst að víkja að nokkrum efnisatriðum á þeim tíma sem ég hef til umræðu og tala fyrst um samtímagreiðslurnar. Ástæðan fyrir því sem hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir spurði um hér áðan, að talan er 400--500 millj. kr. hærri er auðvitað bara sú að fjármunirnir eru fluttir til á milli ára. Það er ekki um það að ræða að menn væru að hækka ríkisútgjöld til lengri tíma litið sem þessu nemur heldur væru menn bara að færa fjármuni á milli ára. Þess vegna var það þegar núv. hæstv. forseti Alþingis var með þessi mál að niðurstaðan var sú að í raun og veru varð sparnaður á ríkissjóði sem þessari upphæð nam í eitt skipti af því að greiðslan var flutt til. Það var ekkert annað sem gerðist. Ekki var um það að ræða að verið væri að breyta ríkisútgjöldunum í heild að öðru leyti en því að tekin var um það ákvörðun að láta lánasjóðinn lána að hluta til fyrir yfirdráttarlánunum sem hafa verið tekin í bönkunum á móti lánunum frá Lánasjóð ísl. námsmanna. Hér er því ekki um að ræða nettóaukningu á útgjöldum ríkissjóðs sem þessu nemur.

Þá ætla ég næst að víkja að nokkrum almennum atriðum sem fram hafa komið í umræðunum og fyrst segja að ég er hlynntur þeirri hugmynd og viðraði hana í fyrri ræðu minni að sett verði niður sérstök kærunefnd. Ég vil hafa það þannig og ég er sammála ráðherranum um það. Ég vil ekki að þessi mál séu í ráðuneytinu. Ég þekki hvað það getur verið vont fyrir ráðuneytið að hafa kærumál af þessu tagi og ég tel skynsamlegt að kærunefnd fjalli um þessi mál.

Í öðru lagi varðandi umræðurnar þá kem ég næst að 3. gr. sem er snúningspunkturinn í umræðunni. Ég ætla bara að segja að það kom í ljós í þremur atriðum að hæstv. félmrh. hafði ekki skilið málið þó hann styddi það. Kannski studdi hann það þess vegna. Hæstv. félmrh. sagði að í frv. stæði að það ætti að borga alla vexti eða allan þann viðbótarkostnað sem verður af milligöngu bankanna við námsmenn. Hann sagði þetta orðrétt. Hæstv. menntmrh. sagði síðan hér áðan: ,,... námsmenn fái vaxtastyrk fyrir öllu bankaláninu``, þó þann vaxtastyrk sem væri reiknaður út miðað við meðaltalsyfirdráttarlánakostnað eins og hann er á hverjum tíma, en auðvitað reikna menn ekki með því að Lánasjóður ísl. námsmanna eða ríkissjóður eigi að fara að styrkja okurlánastarfsemi, það dettur engum manni í hug. Ég tel út af fyrir sig að það sé fínt að þessi skilningur ráðherrans er kominn hér fram því hann kemur ekki fram í frv. og hann kemur enn síður fram í greinargerð fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Þess vegna vil ég fara fram á það við hv. menntmn. að það verði skoðað hvort orðalagið þarna þurfi ekki að vera skýrara. Ég er líka að hugsa um það, herra forseti, að menntmrn. eigi viðspyrnu þegar það þarf að semja um þennan þátt ríkisútgjaldanna við fjmrn. á komandi árum. Ég held að það skipti miklu máli að það sé alveg skýrt fyrir ráðuneytið að hafa þessa hluti á hreinu. Þeir eru það ekki í textanum eins og hann er nú.

Í þriðja lagi ætla ég að víkja að ábyrgðarmönnum af því að ég hafði ekki tíma til þess að ræða það í minni fyrri ræðu og segja: Það verður eiginlega að taka á því máli. Það er of strangt og of erfitt fyrir sjóðinn eins og það er. Ég nefni þar fimm atriði sem mér finnst að hv. menntmn. geti skoðað.

Í fyrsta lagi finnst mér sjálfsagt að það sé skýrt að ábyrgðin falli niður ef um dauðsföll er að ræða.

Í öðru lagi finnst mér að það þurfi að vera skýrt að ábyrgðin falli niður ef um alvarleg varanleg veikindi er að ræða. Það er ekki þannig í dag heldur er það þannig að afborgunin er flutt aftur fyrir og liggur á ábyrgðarmanninum alla tíð og getur vaknað upp aftur eins og staðan er í dag og starfsmenn lánasjóðsins eru í vandræðum með í mörgum tilvikum.

Í þriðja lagi finnst mér rétt að benda á, og það mætti skoða finnst mér í þessu sambandi, að stundum getur námsmaður ekki lokið við að greiða af láninu með þeirri tekjutengingu og afborgunarkerfi sem hér er gert ráð fyrir og þá er það augljóst mál að mismunurinn að loknum þessum tíma á að falla niður. En ekki að námsmaður sé enn að borga af námsláninu sínu með ellilífeyri sínum eins og það er í dag, eftir 40 ára greiðslur jafnvel. Ég spyr: Er ekki hægt að setja inn í reglurnar ákvæði um að ekki sé verið að rukka fólk umfram venjulegan starfstíma inn á ellilífeyristímann eins og þetta er í dag?

Í fjórða lagi spyr ég: Af hverju velta menn því ekki fyrir sér og ég endurtek, velta því fyrir sér, að ríkisábyrgðin verði að takmörkuðu leyti á þessu láni, þ.e. að ábyrgð ábyrgðarmannsins verði ekki nákvæmlega eins og gengur og gerist hjá öðrum lánasjóðum, heldur verði hún að einhverju leyti takmörkuð með því að ríkið komi á móti með hluta af þeim kostnaði sem fellur á lánið, t.d. verðbótum eða vaxtakostnaði? Ég er ekki að tala um að ríkið veiti ábyrgð fyrir kannski helmingnum af láninu eða einhverju því um líku. Ég er að tala um mjög takmarkaðan hluta og bið um að menn skoði það mjög alvarlega.

[18:45]

Í fimmta lagi tel ég, ég þekki dæmi um það, að námsmenn hafi ekki getað tekið lán af því þeir hafa ekki átt aðstandendur með eignir sem hafa geta skrifað upp á. Það þarf að mynda farveg fyrir þann sérstaka vanda þessara námsmanna þegar þeir geta ekki tekið lán af því að þeir eiga engan að sem er borgunarmaður fyrir einu eða neinu eða getur ekki uppfyllt þær kröfur sem lánasjóðurinn gerir til ábyrgðarmanna.

Þetta var um ábyrgðarkerfið. Ég endurtek, herra forseti, að ég bið um að það verði skoðað því ég held að það sé vont. Og það er alveg rétt að þetta var svona 1982 en þá var bara allt annar veruleiki uppi hér í þessum efnum. Þá voru lánin öðruvísi og verðbindingarnar ekki eins stífar og þær eru nú.

Í fjórða lagi varðandi það að fastagreiðslan sé óbreytt. Þá fannst mér nú koma greinilega fram hjá hæstv. félmrh. að hann vissi ekki hvað hann var að tala um vegna þess að hann talaði um fastagreiðsluna eins og það væri lánsupphæðin, framfærsluupphæðin. Það er ekki það sem við áttum við og stendur ekki í frv. því hér er fastagreiðslan tiltekin upphæð sem talin er lágmark í afborgun. Nú er gert ráð fyrir því að afborgunin verði 4,75% af tekjum. Það þýðir að þessi fastagreiðsluupphæð eins og hún stendur hér núna er 4,75% af u.þ.b. 92 þús. kr. á mánuði, sýnist mér þetta vera. Þess vegna er ljóst að þessi fastagreiðsluupphæð er meira en 4,75% af lægri tölu en þetta. Ef lántakinn er með lægri tekjur en 92 þús. kr. á mánuði þá er um það að ræða að hann er að borga meira en 4,75%. Hann er kannski að borga 4,9% eða 5,1% eða 5,2% eftir því hvað tekjurnar eru lágar. Mér finnst það satt að segja alveg útlátalaust fyrir meiri hlutann að skoða hvort ekki er beinlínis ósanngjarnt að koma ekki líka til móts við þá sem allra tekjulægstir eru í lántakendahópnum með því að breyta þessu.

Þá er það í fimmta lagi, herra forseti, það sem lýtur að þessum 7%. Það hefur mikið verið deilt um það og sagt að 7% hafi nú staðið í lögbókinni og það er alveg rétt þau standa í lögbókinni. En ég ætla bara að benda á að í þingskjölunum sem birtust bæði frá meiri hluta menntmn. og minni hluta menntmn. 1992 kemur fram að fólk ræður ekki við að borga af þessum lánum eins og þarna hefur verið gert ráð fyrir. Það er því augljóst mál að það varð að breyta þessu kerfi af því fólk réð ekki við að greiða öll þau ósköp af sem þarna hefur verið gert ráð fyrir. Ég segi það líka, herra forseti, að þó svo að þessi tala sé sett niður í 4,75% og þó hún væri sett niður í 4,5% þá er það samt sem áður þannig, miðað við þá útreikninga sem við létum Hagfræðistofnun háskólans gera árið 1995, að t.d. framhaldsskólakennarar munu eftir 42 ára starf úti á vinnumarkaði --- segjum að þeir hafi þá tekið að láni 2,5 millj. kr. á verðlagi ársins 1992 --- eiga enn þá hærri upphæð óborgaða í uppfærðum höfuðstól, eftir 42 ára starfstíma. Það er því alveg bersýnilegt að við erum í öngstræti með þessar tölur. Og ég hygg að ég muni það rétt að þáv. hæstv. menntmrh., þó að hann teldi út af fyrir sig lögin fullkomin sem hann flutti frv. um á sínum tíma, viðurkenndi að þetta væri knappasti þátturinn í lögunum, þ.e. endurgreiðsluþátturinn.

Í sjötta lagi ætla ég aftur að koma að 3. gr. og biðja hæstv. menntmrh. að segja mér það sem ég spurði hann um í gær en hann svaraði ekki áðan. Hver er stofntalan í 3. gr.? Við hvað er miðað þegar talað er um 36--60 milljónir? Hvaða tala er það í lán til námsmanna sem er grunnurinn að 36--60 milljónum? Þessu ætti ráðherrann auðvitað að geta svarað því þetta eru þær forsendur sem fjárlagaskrifstofa fjmrn. byggir sína útreikninga á og ég óska eftir því að þetta verði dregið fram. Mér þykir satt að segja öllu lakara að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa þetta hér við höndina.

Í sjöunda lagi ætlaði ég að fara nokkrum orðum um ræður hæstv. félmrh. Nú er hann runninn af hólmi og farinn úr salnum og ég ætla ekki að segja margt um hann enda er nú sjálfsagt best að ræða ekki mikið um þá frammistöðu frekar hér.

Í áttunda lagi ætlaði ég aðeins að víkja að greininni sem fjallar um veikindi og spyrja hæstv. menntmrh.: Lítur hann svo á --- það er 7. gr. frv., 12. gr. laganna --- að upptalningin sem þar er gert ráð fyrir sé tæmandi, þ.e. eins og hér stendur, með leyfi forseta:

,,Þá er stjórn sjóðsins heimilt að veita lán með sömu kjörum og almenn námslán vegna annarra áfalla en greinir í 1. mgr.,`` það eru tiltekin áföll í 1. mgr. 12. gr. laganna, ,,svo sem ef námsmanni stendur ekki tímabundið til boða fullt nám samkvæmt skipulagi skóla eða veikindi valda því að námsmanni tekst ekki að standast prófkröfur.``

Er þetta tæmandi upptalning eða þýða orðin ,,svo sem`` í frv. að það megi hugsa sér að í fleiri tilvikum njóti menn undantekningar frá reglunni? Þetta er hlutur sem ég hefði viljað að hæstv. ráðherra svaraði mér um vegna þess að hann skiptir miklu máli. Út af fyrir sig gæti ég látið mér nægja að hv. menntmn. skoðaði þetta atriði sérstaklega því mér finnst það skipta máli þegar verið er að setja svona reglur að þær séu skýrar, annars lenda starfsmenn sjóðsins í vandræðum, stjórn sjóðsins lendir í vandræðum og þess vegna finnst mér að aðeins betur þurfi að taka á því.

Ég vil líka segja það, herra forseti, um 2. gr. að mér finnst hún ekki alveg nógu góð eins og hún er hér, þ.e. 2. mgr. 2. gr. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Stjórn sjóðsins er heimilt að skipa undirnefndir úr hópi stjórnarmanna til að fjalla um einstök mál og gera tillögur fyrir stjórn sjóðsins.``

Það hefur verið praktíserað þannig í núverandi stjórn Lánasjóðs ísl. námsmanna að settar hafa verið niður undirnefndir og þær hafa fengið að afgreiða mál. Mér finnst það röng vinnubrögð. Og mér finnst að það þurfi þá að taka það skýrt fram að slíkt sé annaðhvort ekki heimilt eða heimilt. Ég tel að orðalagið á þessari seinni málsgrein 2. gr. sé ekki nægilega skýrt.

Varðandi síðan, í síðasta lagi, samtímagreiðslur og mánaðargreiðslur þá er það auðvitað alveg ljóst eins og hæstv. menntmrh. hefur bent hér á og hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir að auðvitað er ekki verið að taka hér upp neinar samtímagreiðslur, það er ekki þannig. Og eins og hv. þm. Þóra Sverrisdóttir sagði áðan: ,,Ég hefði heldur viljað samtímagreiðslur``, sagði hún, og svo bætti hún við: ,,því svona aukast ríkisútgjöldin.`` Ég held að það sé dálítið til í þessu vegna þess að þessi aðferð þýðir að verið er að auka ríkisútgjöldin með því að láta ríkissjóð borga vaxtastyrki til bankanna. Það má því segja að þetta sé einkavæðing á námsmönnum í gegnum bankakerfið. Ég tel að þetta sé vitlaust kerfi og er þess vegna sammála hv. varaþm. Þóru Sverrisdóttur sem talaði hér áðan, að þegar upp er staðið þá er þetta dýrara fyrir lánasjóðinn og fyrir ríkissjóð en gamla kerfið hefði verið.

Þegar við fjölluðum um þessi mál á sínum tíma árið 1992 var gert ráð fyrir því að Lánasjóður ísl. námsmanna yrði byggður upp og lagðir yrðu í sjóðinn verulegir fjármunir á hverju einasta ári á komandi árum. Um það var talað í ræðum hæstv. menntmrh. og í áliti meiri hluta menntmn. og í forsendum öllum í málinu að framlögin til sjóðsins þyrftu að hækka mjög verulega. Menn greindi ekki á um það. Staðan var sú að menn sögðu að t.d. á árunum 1997 og 1998 þyrftu framlögin til sjóðsins að vera 2,5--2,8 milljarðar kr. Menntamálaráðherrar og fjármálaráðherrar Sjálfstfl. hafa skorið þessa tölu niður mjög verulega þannig að framlögin til sjóðsins hafa lækkað og verið mikið lægri en þarna var gert ráð fyrir. Ég held þess vegna að óhjákvæmilegt sé að um leið og hv. menntmn. fer yfir þetta mál þá skoði hún rækilega eiginfjárstöðu sjóðsins. Ég held að hún hafi ekki batnað á þessum tíma, reyndar veit ég að svo er. Hún hefur ekki verið að batna frá 1992 alveg gagnstætt því sem okkur var sagt. Fullyrt var að aðaltilgangur leiðangursins frá 1992 væri að bæta eiginfjárstöðu Lánasjóðs ísl. námsmanna. Staðan er þannig að hægt er að sýna nokkuð skýrt fram á að, og kemur fram m.a. í mörgum álitum Ríkisendurskoðunar, eiginfjárstaða Lánasjóðs ísl. námsmanna hefur ekki verið að batna. Þegar breytingarnar voru gerðar lýsti Ríkisendurskoðun því yfir að ef sjóðnum hefði verið lokað í lok ársins 1990 gæti hann staðið við allar sínar skuldbindingar án þess að þurfa á frekari ríkisframlögum að halda. Þar að auki gæti sjóðurinn endurgreitt, sagði Ríkisendurskoðun, ríkissjóði á nafnvirði rúma 9 milljarða af eigin fé sem var rúmlega 13 milljarðar kr. um áramótin 1990--1991. Ef þessir 9 milljarðar eru færðir til núvirðis miðað við 6% ávöxtunarkröfu væri útkoman 3 milljarðar kr. sagði í svari Ríkisendurskoðunar við spurningum okkar á árinu 1992. Í raun og veru stóð því sjóðurinn allvel og staða hans hefur því miður versnað. Og þess vegna held ég að tvennt hafi gerst, annars vegar hefur námsmönnum fækkað stórkostlega, lánþegum fækkað stórkostlega, eins og rakið hefur verið vegna laganna, þau voru að því leytinu til ólög, en auk þess hefur staða lánasjóðsins versnað.