Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 19:02:58 (5203)

1997-04-15 19:02:58# 121. lþ. 102.8 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[19:02]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er náttúrlega hrapallegt til þess að vitað hvaða afleiðingar þessi verk frá árinu 1992 höfðu á íslenskt þjóðfélag. Það væri fróðlegt að reikna út hvaða áhrif hún mun hafa á hagvöxt og lífskjör á Íslandi, sú gríðarlega fækkun námsmanna sem þetta frv. og þessi lög höfðu í för með sér á sínum tíma. Það er um að ræða fleiri fleiri hundruð eða þúsund þegar upp er staðið. Veruleikinn er sá að þó að fleiri námsmenn séu í skóla heldur en var --- fyrr mætti nú vera --- en þeir eru lengur og þeir ljúka námi síður en áður. Þannig að það er augsýnilegt að þjóðfélagið hefur orðið fyrir verulegu tjóni af þeim pólitísku ákvörðunum sem þarna voru teknar.

Í annan stað er líka ljóst að sjóðurinn hefur ekki fengið það sem lofað var. Það hefur ekki verið staðið við það. Því var lýst yfir að sjóðurinn ætti að fá 2,5 til 3 milljarða kr. á ári næstu áratugi. Það hefur ekki verið staðið við það. Það er þegar búið að hafa af sjóðnum í raun og veru verulega fjármuni, fleiri, fleiri hundruð milljónir kr. á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að lögunum var breytt. Ég verð því að segja að mér finnst alveg ótrúleg kokhreysti af ráðherranum að halda öðru fram í þessu dæmi vegna þess að þar hefur hann afar vondan málstað, þó að út af fyrir sig sé hægt að halda því fram að hann hafi unnið mikil afrek í því að snúa Framsfl. niður að því er þetta mál varðar, þá er það nú því miður svo.

Ég þakka hæstv. ráðherra síðan fyrir svör hans varðandi 7. gr. frv. sem mér finnst skipta miklu máli að hafa fengið.