Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 19:08:03 (5206)

1997-04-15 19:08:03# 121. lþ. 102.8 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[19:08]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hæstv. forseti veit manna best þá stóðum við frammi fyrir því árið 1991 og 1992 að Lánasjóður ísl. námsmanna var að komast í greiðsluþrot. Það var vegna þess að hv. þm. Svavar Gestsson var að yfirgefa stól menntmrh. Við tókum á málinu, við björguðum sjóðnum og við höfum nú siglt málefnum sjóðsins þannig að um það mál er að nást víðtæk sátt á Alþingi. Þrír stjórnmálaflokkar hafa komið að þessu máli. Á síðasta kjörtímabili Sjálfstfl. og Alþfl. sem tóku á málinu og nú Sjálfstfl. og Framsfl., sem hafa siglt málinu þannig að það er að myndast víðtæk samstaða um þau úrræði sem við erum að grípa til og lánasjóðurinn stendur eftir án þess að hann stefni í greiðsluþrot eða þau vandræði sem hann var í þegar hv. þm. skildi við hann. Þetta tel ég mikinn árangur. Og á sama tíma hafa menntun og vísindi á háskólastigi stórvaxið í landinu. Nemendum hefur fjölgað þótt lánþegum hafi fækkað. Þetta er árangur sem ég tel að ekki beri að vanmeta og er mikils virði og er allt önnur mynd heldur en sú sem hv. þm. er að leitast við að draga hér upp á síðustu mínútum umræðna um þetta mikla mál.