Þjóðminjalög

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 20:33:24 (5208)

1997-04-15 20:33:24# 121. lþ. 102.9 fundur 502. mál: #A þjóðminjalög# (stjórnskipulag o.fl.) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[20:33]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Hér er á ferðinni frv. sem lætur ekki mikið yfir sér. Eins og ráðherra gat um þá er þetta frv. sem lýtur annars vegar að stjórnskipulagi Þjóðminjasafns Íslands og hins vegar að húsafriðunarákvæðum þjóðminjalaga. Sá hluti frv., þær tvær greinar sem lúta að stjórnskipulagi Þjóðminjasafns Íslands, eru fram bornar til þess að gera það kleift að komið verði á nýju skipulagi varðandi Þjóðminjasafnið sem samkvæmt þessari greinargerð er ekki unnt að gera án þess að breyta gildandi þjóðminjalögum. Það er alveg ljóst að stuðningur þingflokka og einstakra þingmanna við frv., þannig að það geti orðið að lögum, hlýtur að mótast nokkuð af því hvernig það stjórnskipulag er sem fyrirhugað er að koma á.

Það hafa spunnist umræður hér í þinginu í vetur um minjavernd og fornminjarannsóknir, hafa m.a. sprottið af fyrirspurn hv. þm. Svavars Gestssonar. Í þeim umræðum sem urðu í kjölfar þeirrar fyrirspurnar kom mjög glöggt fram að menn eru í rauninni ekki á einu máli um ágæti þess fyrirkomulags sem er í dag, en ég veit líka að menn eru heldur ekki á einu máli um ágæti þess fyrirkomulag sem vilji er fyrir að koma á.

Mér sýnist, herra forseti, að hv. menntmn. bíði allnokkurt starf við athugun þessa frv. og það hefði betur verið fyrr fram komið því eins og ég sagði, þó að það láti lítið yfir sér þá er verið að taka á býsna stóru máli og máli sem er, hefur verið og getur orðið allumdeilt. Þetta vildi ég að kæmi fram hér strax við 1. umr. en að öðru leyti hef ég tækifæri til að fjalla um málið í hv. nefnd.