Háskólar

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 21:27:19 (5215)

1997-04-15 21:27:19# 121. lþ. 102.10 fundur 533. mál: #A háskólar# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[21:27]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er erfið spurning því að spurningin er ekki endilega sú hve margar stofnanir við getum rekið heldur er spurningin sú hvaða tök við höfum á því að veita háskólamenntun án þess að við séum endilega að koma á laggirnar stórum stofnunum. Það er sá vandi sem við stöndum frammi fyrir. Nemendur í mörgum skólastofnunum standa frammi fyrir því núna að þeir eru með stúdentspróf, eru í skólum sem eru skilgreindir sem framhaldsskólar en ætti með réttu að skilgreina námið sem háskólanám. Við erum með frv. á eftir um Kennara- og uppeldisháskóla þar sem við sameinum fjóra skóla í einn. Við erum einnig með hugmyndir um að sameina þrjá listaskóla í einn listaháskóla. Eftir að þetta frv. er orðið að lögum er miklu auðveldara fyrir ráðuneytið að taka á einstökum námsgreinum og skilgreina þær hugsanlega sem háskólanám án þess að settar séu á laggirnar sérstakar stofnanir umhverfis þær. Við vitum að fjarnám og annað slíkt sem er hægt að stunda án þess að menn fari inn í stofnun eða setjist á skólabekk í hefðbundnum skilningi er að aukast og háskólar hér ætla í auknum mæli að fara að bjóða upp á slíkt. Spurningin er sú að fá þá rétt til að skilgreina slíkt nám á faglegum forsendum og frv. veitir rétt til þess. Ég get því ekki svarað hve mörgum stofnunum við stöndum undir en ég get svarað því að áhuginn á því að fá nám sitt metið sem háskólanám er mjög mikill. Þörfin fyrir að svara þeim spurningum er mjög mikil og þetta frv. auðveldar okkur að gera það og taka af skarið með því að skilgreina það nám sem í raun og veru er háskólanám en við höfum ekki getað skilgreint sem slíkt.