Kennara- og uppeldisháskóli Íslands

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 21:40:42 (5221)

1997-04-15 21:40:42# 121. lþ. 102.11 fundur 532. mál: #A Kennara- og uppeldisháskóli Íslands# frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[21:40]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Á þskj. 886 flyt ég frv. til laga um Kennara- og uppeldisháskóla Íslands. Ég vil hafa sama formála að þessu frv. og hinu fyrra um háskólann að þetta mál hefur verið mjög lengi á döfinni og mikið um það rætt hvernig unnt væri að standa að því að styrkja menntun uppeldisstétta á háskólastigi. Tillögur hafa legið fyrir um það frá því í mars 1995 í nefndaráliti um eflingu uppeldis- og kennaramenntunar að Íþróttakennaraskóli Íslands, Fósturskóli Íslands og Þroskaþjálfaskóli Íslands verði sameinaðir með Kennaraháskóla Íslands í einum kennaraháskóla. Þetta frv. um Kennara- og uppeldisháskóla er um það að sameina þessar fjórar stofnanir í einni stofnun, Kennara- og uppeldisháskólanum.

Frv. hefur verið unnið á grundvelli þessa nefndarálits. Einnig fól ég í nóvember 1995 embættismönnum menntamálaráðuneytisins ásamt Ólafi H. Jóhannssyni, endurmenntunarstjóra Kennaraháskóla Íslands, að undirbúa drög að frv. Fyrstu hugmyndir ráðuneytisins um frv. til laga um Kennara- og uppeldisháskóla voru kynntar forsvarsmönnum áðurgreindra stofnana á fundi í mars 1996. Síðan kom það í ljós að ég taldi ekki unnt að klára þetta mál fyrr en ég hefði gengið frá frv. að lögum um háskóla og það frv. höfum við þegar rætt á þessum fundi. Þetta frv. um Kennara- og uppeldisháskóla tekur mið af frv. um háskóla og er fyrsta frv. sem flutt er á grundvelli þeirra heildarlaga. Þar sjá menn hvernig unnt er að útfæra þau lög um einstaka stofnun. Um starfsemi Kennara- og uppeldisháskóla Íslands munu því gilda lög um háskóla ásamt sérreglum þeim um stofnunina sem kveðið er á um í frv. þessu.

Færa má margvísleg rök fyrir því að sameina áðurnefndar stofnanir í einn háskóla. Rökin eru einkum af tvennum toga, annars vegar menntapólitísk rök og hins vegar hagkvæmnisrök og að mínu mati vega þau fyrrgreindu þyngra. Ég ætla að tilgreina hér nokkur höfuðatriði.

Menntun kennara og annarra uppeldis- og umönnunarstétta á margt sameiginlegt sem auðveldara er að efla og samhæfa undir einni yfirstjórn. Gildir það bæði um grunnmenntun þeirra, endurmenntun og framhaldsnám.

Með sameiningunni færist menntun allra þessara stétta ótvírætt á háskólastig og verður því í auknum mæli tengd rannsóknum sem leiða á til betri og markvissari starfsmenntunar en ella.

Gera má ráð fyrir að rannsóknum á sviði uppeldis og skólastarfs vaxi fiskur um hrygg við þessa breytingu og á því er full þörf.

Þær stofnanir, sem ekki eru á háskólastigi, eru allt of smáar til að raunsætt sé að ætla að þær geti öðlast fullgildan sess sem háskólastofnanir af eigin rammleik.

Betri nýting fæst á fjármunum, húsnæði og hvers kyns búnaði.

Í frv. er eftirfarandi lagt til grundvallar:

1. Með lögum þessum verður sameinuð starfsemi fjögurra ríkisstofnana: Kennaraháskóla Íslands, Fósturskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands í eina háskólastofnun sem hefur skýra lagalega stöðu. Af þessum stofnunum hefur Kennaraháskóli Íslands verið eina háskólastofnunin, hinir skólarnir þrír hafa verið á ,,gráu svæði`` milli framhaldsskóla og háskóla þar sem stúdentspróf hefur í reynd verið inntökuskilyrði.

2. Lög þessi ásamt háskólalögunum eiga að mynda ramma um starfsemi stofnunarinnar sem gerir henni kleift að þróast og móta starfsemi sína og starfshætti án þess að til þurfi að koma lagasetningar í hvert sinn. Stofnuninni og stjórn hennar verður fengið sjálfdæmi um flest innan þeirra marka sem lög þessi og háskólalögin munu setja verði frumvörpin að lögum. Þetta felur m.a. í sér að 1. gr. frv. er almennt orðuð, skólinn ákvarðar sjálfur deildaskiptingu og aðrar stjórnunareiningar, rektor ræður alla kennara, þar með talda prófessora, ekki eru í lögunum tilgreind einstök störf og starfsheiti innan stjórnsýslu háskólans, svo sem kennslustjóri, endurmenntunarstjóri og fjármálastjóri, heldur er gert ráð fyrir að ráðið verði í þau störf sem talin er þörf á og falla innan þess fjárhagsramma er stofnunin starfar eftir. Í tengslum við aukið sjálfstæði um innri málefni kemur ákvæði um utanaðkomandi fulltrúa í háskólaráð og er það í samræmi við háskólafrumvarpið.

[21:45]

3. Ekki er í frumvarpinu nákvæmlega skilgreint hvaða nám skuli vera í boði innan Kennara- og uppeldisháskólans (kennaranám fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla, þroskaþjálfanám, íþróttafræði o.s.frv.) heldur er gert ráð fyrir að nánari fyrirmæli um námið sem í boði er verði sett í reglugerð. Í því sambandi er þó rétt að benda á að ljóst er að verði frumvarpið að lögum tekur Kennara- og uppeldisháskóli Íslands við lögboðnum skyldum þeirra skóla sem sameinaðir verða. Ekki er í frv. tiltekið hvar háskólinn verður til húsa. Ljóst er þó að höfuðstöðvarnar verða í húsnæði Kennaraháskóla Íslands á Rauðarárholti, en einnig er til ráðstöfunar húsnæði Íþróttakennaraskóla Íslands að Laugarvatni, húsnæði Fósturskóla Íslands við Laugalæk, húsnæði Þroskaþjálfaskóla Íslands við Skipholt og menntasetur Kennaraháskóla Íslands að Varmalandi í Borgarfirði. Þá er einnig rétt að vekja á því athygli að líklegt er að nemendur muni í auknum mæli fyrir tilstilli upplýsingatækninnar geta stundað nám þar sem þeir búa.

4. Ekki er tilgreint í lögunum hvernig deildaskipan skólans skuli vera. Lengd náms verður ákvörðuð í námskrá og mun það taka mið af skilgreindum þörfum með hliðsjón af því námi sem er í boði.

5. Í frv. að lögum um háskóla er skýrt afmarkað hverjir fara með formleg völd og ábyrgð í háskólum.

6. Í frv. að lögum um háskóla er nákvæmlega tilgreint hvernig fjárveitingar til háskóla skulu ákvarðaðar.

Enda þótt Kennara- og uppeldisháskóli Íslands verði miðstöð fyrir menntun kennara og annarra uppeldis- og umönnunarstétta er með frv. þessu ekki verið að setja alla slíka menntunarkosti undir einn hatt. Áfram verður í boði menntun leik-, og grunnskólakennara við Háskólann á Akureyri og kennaramenntun fyrir framhaldsskóla við Háskóla Íslands. Þá er gert ráð fyrir að menntun listgreinakennara verði í boði að einhverju eða öllu leyti við fyrirhugaðan listaháskóla. Tíminn verður að leiða í ljós hvort ástæða þykir til að skipa þessum málum með öðrum hætti, en frv. þetta, sem og háskólafrumvarpið, gerir það tiltölulega auðvelt í framkvæmd.

Herra forseti. Þetta eru meginatriði í frv. Ég vil láta þess getið að þeir sem fróðir eru um hagsýslu ríkisins telja að með sameiningu þessara fjögurra stofnana sé verið að ráðast í eitthvert mesta sameiningarverkefni sem unnið hefur verið á vegum ríkisins og hef ég falið sérstakri verkefnisstjórn undir formennsku Hauks Ingibergssonar við Hagsýslu ríkisins að sinna þeim hluta þessa verks. Ég hélt fund með öllum starfsmönnum skólanna fjögurra á miðvikudaginn í síðustu viku þar sem farið var yfir frv. og menn höfðu tækifæri til þess að leggja fram spurningar er snerta starfsmannamál og þau mál sem hljóta að koma til álita þegar að slíku verki er gengið. Sá fundur var mjög gagnlegur og að honum loknum og undanfarna daga hefur verið unnið að því að safna upplýsingum í öllum skólunum um þau atriði sem þarf að taka afstöðu til vegna þessarar sameiningar.

Í ákvæði til bráðabirgða er fjallað um hvernig staðið skuli að sameiningunni og þar er mælt fyrir um undantekningarákvæði varðandi skólastjórnina og háskólaráðið og einnig hvernig staðið skuli að gæslu réttinda starfsmanna við skólana. Eða eins og segir í lokamálsgrein ákvæðis til bráðabirgða:

,,Strax við gildistöku þessara laga skal menntamálaráðherra skipa níu manna háskólaráð til tveggja ára eða þar til lög þessi eru að fullu komin til framkvæmda. Meginverkefni þess verður að móta stjórnkerfi skólans og tryggja að lög þessi komist til framkvæmda. Stjórnir þeirra skóla, sem með lögum þessum sameinast, skulu hver um sig tilnefna einn fulltrúa til setu í því ráði og menntamálaráðherra tvo fulltrúa.``

Þarna er verið að koma til móts við þau sjónarmið að skólarnir komi að mótun innra starfs skólans á fyrstu starfsárum hans og þá mundi hver skóli, Fósturskólinn, Þroskaþjálfaskólinn, Íþróttakennaraskólinn og Kennaraháskólinn, eiga fulltrúa í þessu fyrsta háskólaráði en síðan yrði kjörið til þess samkvæmt þeim reglum sem þarna er mælt fyrir um.

Ég tel ákaflega mikilvægt að undirstrika að verið er að búa til nýja háskólastofnun með því að sameina fjóra skóla og ber ekki að líta á þessa stofnun sem regnhlífarsamtök yfir hina fjóra skólana, heldur nýja stofnun með starfsemi í Reykjavík og á Laugarvatni og einnig í Borgarfirði eins og fram hefur komið.

Vaknað hafa spurningar um stöðu skólans á Laugarvatni. Það er alls ekki ætlunin að draga neitt úr starfsemi þar. Íþróttakennaranámið verður áfram á Laugarvatni og einnig held ég að þróunin verði sú að meira af starfsemi Kennara- og uppeldisháskólans muni flytjast til Laugarvatns eftir að þessi ákvörðun hefur verið tekin og menn muni sjá sér mikinn hag í því að hafa aðstöðu á Laugarvatni og skólastarfið þar muni frekar eflast en úr því draga miðað við þau áform sem uppi eru. Það verður mjög spennandi viðfangsefni að þróa þessa nýju háskólastofnun á þessum forsendum með starfsemi bæði í Reykjavík og á Laugarvatni og takast á við þau mikilvægu verkefni sem stofnuninni er falin.

Ég vil vekja máls á því að menn hafa velt því fyrir sér hvað kennaranámið eigi að vera langt. Það var, eins og við vitum, sett í lög að fjögurra ára nám skyldi vera í Kennaraháskólanum en áður en það lagaákvæði kom til framkvæmda var því breytt og gildistökunni frestað og kennaranámið er núna þrjú ár. Í 9. gr. þessa frv. er fjallað um það að fyrir hverja deild skólans eða skilgreinda námsbraut skuli setja námskrá sem kveði á um markmið, inntak og meginviðfangsefni námsins, þar með talin starfsþjálfun á vettvangi þar sem það á við. Þarna er almennt ákvæði um námið en það er ekkert sagt um hvort það eru þrjú, fjögur, fimm eða sex ár, enda er það ákvörðun skólans sjálfs sem síðan þarf að fá fjárveitingar til starfsemi sinnar og starfsumfangs á grundvelli þess samnings sem gerður verður um skólann. Ég held að við blasi að það verður þannig með þennan skóla að það verður mismunandi eftir námsbrautum hve námið á að vera langt, hvort það á að vera þrjú, fjögur, fimm ár eða jafnvel lengra ef til þess er horfið að efla meistaranám og annað slíkt á þessu sviði. Ég lít þannig á að 9. gr. veiti skólanum sjálfum heimild til þess að ákveða árafjölda eða anna og einingafjölda í námi innan sinna veggja.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri um þetta frv. Ákvæði þess eru skýr og óvíræð. Ég ítreka að sama á við um þetta frv. og hið fyrra sem við ræddum um háskóla að þess er vænst að Alþingi taki sem fyrst ákvarðanir í þessum málum því að mikið er í húfi fyrir þróun háskólastarfsins í landinu.