Kennara- og uppeldisháskóli Íslands

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 21:53:47 (5222)

1997-04-15 21:53:47# 121. lþ. 102.11 fundur 532. mál: #A Kennara- og uppeldisháskóli Íslands# frv., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[21:53]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég vil í upphafi fagna framkomu þessa frv. Frv. hefur verið nokkuð lengi í burðarliðnum, en er að mínu mati mjög til bóta hvað varðar uppeldismenntun hér á landi.

Í frv. er gert ráð fyrir sameiginlegri miðstöð kennara- og uppeldismenntunar á Íslandi á sviði kennslu, uppeldis og umönnunar og einnig hvað varðar sjálfstætt starfandi rannsóknastofnun. Ég hjó eftir því í að fréttum í kvöld í umræðum um rektorskjör í Háskóla Íslands var verið að tala um aukna áherslu á rannsóknir og það yrði jafnvel meginverkefni háskólanemenda á 21. öldinni að vinna að slíkum rannsóknum. Þess vegna fagna ég sérstaklega tilkomu þessa frv. og því að það verði ein sameiginleg rannsóknastofnun og -stöð hvað varðar uppeldismenntun hér á landi.

Í frv. er gert ráð fyrir að sameina Fósturskóla Íslands, Íþróttakennaraskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Þroskaþjálfaskóla Íslands. Kennaraskóla Íslands var fyrir löngu breytt í háskóla og í frv. er gert ráð fyrir að aðrar uppeldiskennslustofnanir hér á landi verði fluttar á háskólasvið, en eins og fram kemur í frv. hafa þessir skólar verið á gráum svæðum, þ.e. Fósturskólinn, Íþróttakennaraskólinn og Þroskaþjálfaskólinn. Stúdentsprófs er krafist í þessa skóla en þeir hafa ekki verið viðurkenndir sem háskólar fyrr en þetta frv. hefur náð fram að ganga.

Sameiningin hefur í för með sér samnýtingu hvað varðar kennslu og rannsóknir, hvað varðar störf prófessora, dósenta, lektora og stundakennara. Þetta leiðir til þess að sameiginleg nýting verður á fjármálastjórn og almennu skrifstofuhaldi þessara skóla og það verður væntanlega auðveldara að fá sérhæft fagfólk til að starfa í þessum menntastofnunum. Ef ég skil frv. rétt er gert ráð fyrir því að allir nemendur þessa uppeldisháskóla ljúki svokallaðri B.Ed.-prófgráðu en þeirra prófgráðu hafa nemendur Kennaraháskóla Íslands lokið. Það vakna reyndar spurningar hjá mér um hvort ekki sé ástæða til þess að á Laugarvatni verði sérstakur íþróttaháskóli til viðbótar kennaranáminu þar sem útskrifaðir yrðu sennilega íþróttafræðingar fyrir íþróttafólk og fyrir almenning. Á líkamsræktarstöðvum vítt og breitt um landið er full ástæða til að þess sé krafist að fólk hafi full réttindi sem er að kenna eða leiðbeina á slíkum stöðum.

Það má líka velta fyrir sér hvort ekki er ástæða til þess að t.d. innan þessa íþróttaháskóla verði jafnvel nám í æskulýðs- og íþróttafulltrúastörfum.

Í 5. gr. frv. er fjallað sérstaklega um stjórnskipulag þessarar stofnunar og það gladdi mig að heyra hæstv. menntmrh. tala um að í þessu háskólaráði yrðu alla vega til að byrja með fulltrúar úr þessum stofnunum, þ.e. Íþróttakennaraskóla Íslands, Þroskaþjálfaskólanum og Fósturskólanum. (Gripið fram í: Þeir eru fimm.) Það skiptir auðvitað miklu máli. Þeir eru þrír. Já, það er rétt, en í frv., ef hv. þm. hefur lesið það sem ég veit að hann hefur gert og kynnt sér rækilega, þá kemur fram að rektor verður væntanlega í Kennaraháskólanum og verður forseti þess ráðs en hæstv. menntmrh. tók það skýrt fram, þó að það standi ekki í frv., að í háskólaráðinu verði fulltrúar frá þeim skólum sem ég taldi áðan.

Ég fagna sérstaklega ummælum hæstv. ráðherra hvað Laugarvatn varðar. Hann talaði um að þetta væri einn stærsti samruni menntastofnana á Íslandi fyrr og síðar og þeir sem þekkja vel til staðhátta á Laugarvatni vita að þar hefur verið byggð upp mjög myndarleg starfsemi í kringum Íþróttakennaraskóla Íslands. Það má minna á mjög stórt og nýlegt íþróttahús. Einnig er þar gamalt íþróttahús sem var byggt við héraðsskólann. Þar eru bústaðir skólastjóra og kennara. Þar er heimavistarhúsnæði, bæði þar sem ÍSÍ hefur haft sumaraðstöðu og einnig hefur Íþróttakennaraskóli Íslands aðstöðu þar sem Hússtjórnarskólinn á Laugarvatni var. Einnig eru á Laugarvatni mjög glæsileg íþróttamannvirki, svo sem frjálsíþróttavöllur með Tartan-brautum, knattspyrnuvöllum og fleira mætti nefna. Mér er einnig sagt að íþróttaskólinn hafi til umráða 22 hektara og þó ekki væri nema vegna þessara miklu mannvirkja sem á Laugarvatni eru, þá skiptir mjög miklu máli að þaðan komi fulltrúi í þetta háskólaráð.

Það má líka benda á að það eru margir sem telja að góður árangur íþróttamanna á Íslandi stafi m.a. af því að í gegnum tíðina hafa verið sérmenntaðir íþróttakennarar í grunnskólum landsins og áhugi almennings á íþróttum stafi m.a. vegna þessa. Það er ósk mín og von að frv. nái fram að ganga á þessu þingi og leiði til þess að við eignumst enn öflugri uppeldisstétt hér á landi sem yrði enn betur menntuð.