Bæjanöfn

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 22:53:44 (5234)

1997-04-15 22:53:44# 121. lþ. 102.13 fundur 535. mál: #A bæjanöfn# (örnefnanefnd) frv., 536. mál: #A Örnefnastofnun Íslands# frv., GBeck
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[22:53]

Guðmundur Beck:

Herra forseti. Örfá orð um þetta frv. til laga um bæjanöfn sem hæstv. menntmrh. kemur með hér inn í þingið. Ég vil í byrjun spyrja hann einlæglega: Eru engin takmörk fyrir því hvað embættismannavaldið lætur ráðherra bera hingað inn í þingið? Ég verð nú bara að segja það. Manni verður nánast orðfall. Hér á að fara að skipa þriggja manna nefnd til þess að ráðskast með örnefni í landinu og menntmrh. lætur að því liggja að þetta eigi að vera til að varðveita örnefni. Ég sé nú ekki annað eftir orðanna hljóðan en að hún eigi að búa til örnefni fyrir sveitarfélög og fyrir einstaklinga sem vilja setja nöfn á jarðir sínar. Ja, sér er nú hver stjórnviskan. Hvernig á slíkt að halda ef nöfnin ná ekki að festa rætur í því samfélagi sem þau eru sett? Ég held að örnefni hljóti að endurspegla málvitund þjóðarinnar á hverjum tíma og stjórnskipuð nefnd fær þar engu um breytt. Ég leyfi mér bara að fullyrða það.

Þetta rifjar upp fyrir mér það sem gerst hefur hér áður á öðrum vettvangi og samræmingarpúkinn hefur leitt yfir okkur og þar vil ég nefna markaheiti. Ég hef nú kallað það málþjófnað þegar stolið var af okkur markaheitum í stórum stíl þegar verið var að samræma þessa svokölluðu landsmarkaskrá og markalestri var umbylt. Og nú á að fara að ráðskast með örnefni og taka af mönnum örnefni. Ég bið hæstv. menntmrh. að hugsa sig vel um áður en hann heldur þessu máli til streitu. Ég vil nefna sem dæmi að ég hef grun um að mörg merkustu örnefni í höfuðborg Íslendinga hafi fólk tekið með sér úr sveitum landsins án þess að þurft hafi stjórnskipaða nefnd til þess að fjalla um þau mál. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri í bili.