Bæjanöfn

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 22:57:10 (5235)

1997-04-15 22:57:10# 121. lþ. 102.13 fundur 535. mál: #A bæjanöfn# (örnefnanefnd) frv., 536. mál: #A Örnefnastofnun Íslands# frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[22:57]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að í máli hv. síðasta ræðumanns hafi komið fram ákveðinn misskilningur. Örnefnanefnd á í sjálfu sér ekki að hafa neitt frumkvæði að því að ákvarða örnefni heldur á örnefnanefnd að fara með ákvörðunarvald sé uppi ágreiningur eða álitamál um þessi mál. Um það snýst málið en ekki hitt að örnefnanefnd eigi að fara að endurnefna fjöll eða grípa fram fyrir hendurnar á heimamönnum um örnefni, heldur ef það eru álitamál þá er þessu fyrirkomulagi komið þarna upp til þess að komast að lokaniðurstöðu. Síðan er mælt fyrir um það eins og hér kemur fram ef menn lesa umsögn um 1. gr. frv.:

,,Um meginatriði ákvæðisins vísast til hinna almennu athugasemda hér að framan. Sérstök ástæða er til þess að vekja athygli á síðustu málsgrein 2. gr. laganna eins og henni er ætlað að hljóða hljóti frumvarpið lögfestingu. Þar segir að í reglugerð skuli kveðið nánar á um starfsemi örnefnanefndar, m.a. um undirbúningsferli ákvarðana nefndarinnar um nafnsetningar á landabréf, en um það efni hafa engin ákvæði gilt til þessa. Hér er gert ráð fyrir að örnefni, sem ágreiningur er um, verði auglýst fyrir almenningi með hæfilegum fyrirvara fyrir ákvarðanatöku þannig að unnt sé að koma við ábendingum sem að gagni kunna að koma í því sambandi. Þetta fyrirkomulag á sér m.a. nokkra fyrirmynd í bandarískri stjórnsýslu á sambærilegu sviði og hefur þótt gefast vel þar.``

Þetta mál er um það að séu menn ekki sammála þá þarf að komast að niðurstöðu til þess að það verði þá eitthvert örnefni sett inn á landakort og það standi ekki í vegi fyrir því að menn geti gengið frá kortum og um það fjallar frv., en ekki hitt að verið sé að grípa fram fyrir hendurnar á sveitarstjórnum eða þeim sem að eðlilegu máli eiga að ákveða örnefnin, heldur bara ef til ágreinings kemur. Það er sá vandi sem m.a. kortagerðarmenn hafa staðið frammi fyrir og fleiri, að þetta ferli hefur vantað og við erum að mæla fyrir um það í þessu frv.