Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 23:06:17 (5240)

1997-04-15 23:06:17# 121. lþ. 102.15 fundur 542. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[23:06]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég flyt hér frv. til laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Ég vil taka fram í upphafi að ég hefði kosið að í þessu frv. væru einnig ákvæði um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum leikskólakennara. Stefndi ég að því þegar ég vann að þessari frumvarpssmíð að það næði einnig til leikskólakennara. En ég setti það jafnframt sem skilyrði að samkomulag næðist milli sveitarfélaganna og leikskólakennara um ýmis grundvallaratriði eins og náðst hefur varðandi grunnskólakennarana, en því miður hefur ekki tekist að ná því markmiði. Með þessu fororði legg ég þetta frv. fram en ef tekst að ná samkomulagi og leysa málefni leikskólakennaranna meðan málið er í meðförum þingsins þá mun ég leggja til við hv. menntmn. að þau ákvæði verði tekin inn í þetta frv. því ég tel að þau lög eigi að ná til þessara þriggja kennarastétta, þ.e. leikskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, þannig að það verði ein heildarlöggjöf um þessi starfsheiti og starfsréttindi.

Það hefur staðið til um langt árabil að endurskoða þessi lög því samkvæmt lögum nr. 48/1986 átti að endurskoða lögin innan fjögurra ára frá gildistöku þeirra. Lögin voru fyrst endurskoðuð árið 1990 og var þá lagt fram frumvarp á 113. löggjafarþingi sem hlaut ekki afgreiðslu.

Við gerð frumvarpsins hefur verið tekið mið af því að kennaranám er unnt að stunda við Háskólann á Akureyri og höfð er hliðsjón af ákvæðum laga varðandi flutning grunnskóla til sveitarfélaga. Raunar var það eitt af samkomulagsatriðunum sem lágu til grundvallar flutningnum í góðri sátt við kennara að menntmrh. mundi beita sér fyrir endurskoðun á lögunum og leggja þau fyrir þingið eins og hér er gert.

Undirbúningur að gerð frumvarps þessa fór fram í menntamálaráðuneytinu og síðan var efnt til viðræðna við fulltrúa kennarasamtakanna, þ.e. Hins íslenska kennarafélags og Kennarasambands Íslands.

Komið hefur fram í fréttum vegna þessa máls og látið að því liggja að ég hafi farið á svig við kennarasamtökin við endanlegan frágang málsins en rétt er að það komi fram í þessum umræðum að allt frá því að fulltrúar ráðuneytisins og kennarasamtakanna hófu viðræður um málið þá lá fyrir að ég hafði fullan hug á að gera breytingar á ákvæðum gildandi laga sem ekki féllu að markmiðum og óskum kennara. Það kemur mér því í opna skjöldu að ég skuli nú vera sakaður um að hafa gengið á bak orða minna. Það hef ég ekki gert í þessu máli. Ég hef gert mína tillögu, við erum sammála um sumt í þessu, ráðuneytið og kennarasamtökin, um annað er ágreiningur eins og verða vill en samstarfið hefur verið gott um málið þó leiðir hafi skilið að lokum. Enda var aldrei til þess stofnað af minni hálfu að knýja fram endanlegt samkomulag við kennarafélögin eða kennarasamtökin vegna þess að ég tel að þeirra hagsmunir felist ekki endilega í því að binda hendur sínar gagnvart menntmrn., hvorki um þessi mál né önnur þó að aðilar ræði saman og standi saman um þau mál sem þeir eru sammála um en fjalli líka um það ef ágreiningur er án þess að um sé að ræða svikabrigsl eða að menn gangi á bak orða sinna því það hef ég ekki gert í þessu máli.

Ef ég vík að höfuðatriðum frv. er í fyrsta lagi rétt að geta þess að frv. er þannig uppbyggt, og það er breyting frá núgildandi lögum, að því er skipt í tvo hluta. Fyrri hlutinn fjallar um grunnskóla og sá síðari um framhaldsskóla. Með þessu verða lögin aðgengilegri og auðveldara að átta sig á einstökum ákvæðum þeirra.

Með frumvarpinu er m.a. leitast við að leggja áherslu á þýðingu aukinnar fagmenntunar kennara. Þetta kemur fram í 5. gr. þar sem tekið er fram að kennari, sem hefur sérhæft sig til kennslu í tiltekinni grein, skuli hafa forgang til kennslu í sinni grein í 8.--10. bekk grunnskóla og í 15. gr. er miðað við að framhaldsskólakennari kenni þær greinar sem hann er menntaður til.

Einnig er tekið fram í 11. gr. að í leyfisbréfi framhaldsskólakennara skuli tilgreina kennslugrein eða sérsvið þeirra samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

Þá kemur fram í 12. gr. frumvarpsins að framhaldsskólakennari, sem hefur aflað sér fagmenntunar sem er verulega umfram það lágmark sem frumvarpið gerir ráð fyrir sem almennri reglu, þurfi aðeins að taka 15 einingar í kennslufræði í stað 30 eininga núna. Lagt er til að sama gildi um kennara í iðngreinum, að uppfylltum vissum skilyrðum, en margir þeirra koma beint úr atvinnulífinu og búa yfir dýrmætri reynslu sem skólakerfinu er nauðsynleg.

Það er um þetta sem ágreiningur er milli mín og kennarasamtakanna. Fulltrúar þeirra telja að varhugavert sé að fækka einingum úr 30 í 15 þegar um þessi atriði er að ræða.

Kveðið er á um að próf frá Kennaraskóla Íslands sé fullnægjandi undirbúningur í kennslufræði fyrir framhaldsskólakennara. Til þessa hefur þetta próf aðeins gefið 15 einingar af 30 sem krafist hefur verið til kennsluréttinda við framhaldsskóla. Allmargir kennarar munu fá réttindi til kennslu við framhaldsskóla samkvæmt þessu ákvæði.

Í 2. og 12. gr. frumvarpsins er kveðið á um að heimilt sé að meta kennslureynslu sem hluta af kennslufræði til kennsluréttinda samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð og er þetta nýmæli.

Í frumvarpinu eru ákvæði þess efnis að menntamálaráðherra skuli staðfesta leyfi til að nota starfsheitið grunnskólakennari eða framhaldsskólakennari samkvæmt umsókn ríkisborgara frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins. Er þetta í samræmi við tilskipun 89/48/EBE sem felld var inn í íslenskt lagakerfi með lögum nr. 83/1993, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, með áorðnum breytingum.

Í 7. gr. gildandi laga er kveðið á um menntun kennara við tiltekna sérskóla og í tilteknu sérnámi. Þessi upptalning er felld brott og í staðinn er lagt til að kveðið verði á um þessi atriði í reglugerð. Þessi breyting er nauðsynleg vegna örrar þróunar á vinnumarkaði og þar af leiðandi breytilegra krafna til skólakerfisins hvað varðar námsframboð.

Ákvæði laganna um matsnefndir, sbr. 4. og 14. gr., eru einfölduð. Ákvæði um starfshætti nefndanna eru felld brott og er lagt til að kveðið verði á um þessi atriði í reglugerð.

Í 15. gr. frumvarpsins er kveðið á um að skólameistara sé heimilt að ráða sérfræðing tímabundið til að kenna sína sérgrein án þess að viðkomandi hafi öðlast heimild til að nota starfsheitið framhaldsskólakennari. Þessi heimild miðast við að um sé að ræða kennslu sem nemur sex kennslustundum á viku eða minna. Hér er um nýmæli að ræða sem gerir skólameisturum kleift að ráða til starfa sérfræðinga sem ekki hafa kennslu sem aðalstarf en þetta getur skipt miklu máli varðandi tengsl atvinnulífs og framhaldsskóla.

Í 21. gr. frumvarpsins er kveðið á um að lögin taki ekki til kennslu í listgreinum. Þetta er gert til þess að auðvelda skólunum að fá til starfa viðurkennda listamenn en það er vandkvæðum bundið samkvæmt gildandi lögum.

Ákvæði um undanþágunefndir hafa verið endurskoðuð í ljósi stjórnsýslulaga og staða nefndanna sem lægra settra stjórnvalda gerð skýrari. Hlutverk nefndar er eftir sem áður að fjalla um heimild til ráðningar þegar enginn umsækjandi uppfyllir skilyrði laganna um menntun.

Þetta eru höfuðatriði frv., herra forseti. Ég vil aðeins víkja að 12. gr. sem eins og ég sagði hefur helst vakið umræður og hefur verið lagt út sem ágreiningur milli mín og kennarasamtakanna. Eins og menn sjá er þar mælt fyrir um hvaða skilyrði menn verða að uppfylla til þess að geta notað starfsheitið framhaldsskólakennari. Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

[23:15]

,,Leitast er við að kveða skýrar á um þá menntum sem krafist er til kennsluréttinda en gert er í gildandi lögum, auk þess sem lögð er áhersla á aukna fagmenntun kennara og kennslureynslu. Helstu áherslur og breytingar eru þessar:

Kveðið er á um að nám kennara skuli veita undirbúning til kennslu í faggrein eða á sérsviði á framhaldsskólastigi.

Í b-lið er kveðið á um að þeir sem lokið hafa a.m.k. 120 eininga háskólanámi og þar af 60--90 einingum í aðalgrein og 30--60 einingum í aukagrein þurfi að ljúka 15 eininga námi í kennslufræði til kennsluréttinda í stað 30 áður.

Í c-lið er kveðið á um að þeir sem lokið hafa námi í tæknifræði eða meistaranámi í iðngrein skuli auk þess ljúka 15 eininga námi í kennslufræði til kennsluréttinda í stað 30 eininga áður. Þessi breyting er gerð til þess að auðvelda samskipti milli atvinnulífs og skóla og tekur til þeirra sem búa yfir mikilli sérþekkingu á tilteknu sviði, hafa auk þessa verulega starfsreynslu og/eða hafa haft nema í samningsbundnu námi. Að teknu tilliti til þessara þátta er talið raunhæfast að þessum kennurum verði gert að taka fyrst og fremst þá þætti kennslufræðinnar sem lúta beint að kennslustarfinu samkvæmt nánari skilgreiningu. Þeir sem ekki uppfylla þessi skilyrði verða að taka 30 einingar í kennslufræði.

Bætt er inn ákvæði um að þeir sem luku námi frá Kennaraskóla Íslands fullnægi skilyrðum um nám í kennslufræði.`` --- Um þetta er ekki ágreiningur við kennarasamtökin.

,,Þá er kveðið á um að heimilt sé að meta kennslureynslu sem hluta af kennslufræði samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Einnig er gert ráð fyrir að með reglugerð verði sett ítarlegri ákvæði um menntunarkröfur í sérhæfðu námi, svo sem vélstjórnarnámi og skipstjórnarnámi.``

Herra forseti. Ég tel að allt það sem hér er sagt og þær breytingar sem hér eru lagðar til séu í samræmi við umræður sem farið hafa fram á þessum vetri og undanfarna mánuði um nauðsyn þess að auka fagþekkingu í einstökum námsgreinum hjá kennurum. Ég hef vakið máls á því að ég teldi að í ýmsu tilliti hefði verið of mikil áhersla lögð á uppeldis- og kennslufræði á undanförnum árum. Nokkrar umræður hafa orðið um það í vetur og margir hafa tekið undir þá skoðun. Það hefur m.a. komið fram í þeim umræðum að fyrir utan þessa áherslu sé ljóst að námið í uppeldis- og kennslufræðum sé ekki nægilega fagbundið eða fagskilgreint og það þurfi einnig að huga að inntaki þess náms þegar um þessi mál er fjallað. En ég tel, herra forseti, að þær breytingar sem hér eru lagðar til, eigi að auðvelda skólunum að fá vel fagmenntaða starfsmenn til að kenna, vel menntað fólk með reynslu út atvinnulífinu til starfa í skólunum, án þess að kröfur um nám í kennslufræði verði til þess að aftra fólki frá því að leitast eftir að koma inn í skólakerfið. Þar tel ég að við séum á réttri braut.

Ég legg til að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.