Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 23:18:48 (5241)

1997-04-15 23:18:48# 121. lþ. 102.15 fundur 542. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[23:18]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra sýnist mér að meginupplagi vera til einföldunar á gildandi lögum. Á móti kemur að ýmsum þeim atriðum sem ítarlega er fjallað um í gildandi lögum er nú vísað inn í reglugerð. Ég veit svo sem ekki hversu háar einkunnir menn gefa slíkri löggjöf. Fyrr í dag hefur verið rætt á hinu háa Alþingi um réttmæti þess að haga lagasetningu þannig. En hér er sem sé heldur tilhneiging í þá áttina að taka út úr lögum tiltekin ákvæði og setja þau frekar í reglugerð.

En mér fannst áhugavert það sem fram kom í máli hæstv. ráðherrans þar sem hann vék að leikskólakennurunum. Í rauninni vildi ég gjarnan sjá það gerast sem hann nefndi hér að málefni leikskólakennara fengju meðferð í þessu frv. þannig að staða þeirra yrði lögvernduð með svipuðum hætti og annarra kennara í þeim lögum sem héðan verða afgreidd. Leikskólakennarar eru auðvitað ein af þeim kennarastéttum sem heyra undir menntmrn. Mjög víða í sveitarfélögunum hafa skólanefndum verið falin þau verkefni sem lúta að leikskólum og þar með umfjöllun um leikskólakennara. Einnig er það svo að einhver sveitarfélög, ég veit ekki hversu mörg, en einhver þeirra hafa mótað sér þá vinnureglu, sem er sambærileg í sjálfu sér við það sem gerist með grunnskólakennara, að ef ekki er unnt að ráða fagmenntaðan kennara þá er ófaglært fólk einungis ráðið tímabundið þannig að staðan opnist reglulega til auglýsingar og umsóknar fyrir fagmenntaða leikskólakennara ef þeirra er kostur. Það er því mjög eðlilegt og tímabært að málefni leikskólakennaranna verði skoðuð með sambærilegum hætti og gert hefur verið varðandi grunnskólakennara og framhaldsskólakennara.

Eins og ég sagði áðan þá sýnist við fyrsta yfirlestur að hér sé í grófum dráttum verið að einfalda gildandi lög. Ég tek eftir því að hæstv. menntmrh. leggur áherslu á að með þessu frv. sé verið að efla fagmennsku á kostnað uppeldisfræðinnar væntanlega. Um það hefur nú nokkrum sinnum verið rætt í þessum sal í vetur, um mikilvægi uppeldisfræði í kennaramenntuninni og kennslufræðinnar á kostnað fagmennskunnar. En ég met það svo að í rauninni verði ekki hróflað við grunnskólanum við þessa nýju lagasetningu. Hvergi er slakað á kröfum varðandi grunnskólann, varðandi þær kröfur sem gerðar eru um uppeldismenntun eða kennslufræðimenntun. En á einum stað í 5. gr. er talað um forgang þeirra sem hafa tiltekna sérmenntun til kennslu á unglingastiginu. Mér finnst í sjálfu sér ekki nema allt gott um það að segja.

Það vakti líka athygli mína þegar farið var yfir 12. gr. þar sem einmitt er í tveim liðum fjallað sérstaklega um þá hópa sem eiga miðað við gildandi lög að fá ákveðinn afslátt varðandi þær kröfur sem gerðar eru um uppeldisfræðimenntun og kennarasamtökin gera athugasemdir við, að þeir gera ekki athugasemdir við að gamla kennaraprófið verði nú metið úr 15 einingum upp í 30 einingar. Þarna gætir örlítils ósamræmis að mínu mati sem eðlilegt er að hv. menntmn. fari betur ofan í. Ég hef ákveðinn skilning á þeirri viðleitni sem er í þessu frv. til að reyna að láta atvinnulíf og skóla mætast með þeim hætti sem þarna er verið að gera tillögur um, þ.e. að slá ögn af uppeldisfræðimenntunarkröfum eða kennslufræðimenntunarkröfum þegar um er að ræða að ná sérmenntuðum starfsmönnum inn í skólana. En þetta þarf auðvitað allt að skoða.

Það eru hér atriði inni sem ég á erfitt með að skilja hvernig koma til með að virka. Það eru atriðin sem snúa að því að heimilt verði að meta kennslureynslu sem hluta af kennslufræði til kennsluréttinda. Þetta er eitt af því sem á að skipa í reglugerð og er ekki skýrt nánar í frv. eða greinargerð þess og kom heldur ekki fram í máli hæstv. ráðherra hvernig fyrirhugað er að nýta. Það getur auðvitað í ákveðnum tilfellum verið eðlilegt að kennslureynsla sé metin sem hluti af kennslufræði en ég átta mig ekki á því hvort það á að gerast við inntöku nema í skóla eða hvort það á að gerast í hefðbundnu námi, fjarnámi eða hver hugsunin er í raun og veru. Það væri ágætt ef það er fullmótuð hugsun sem liggur þarna að baki, og ég geri ráð fyrir að svo sé, að fram komi skýring á þessu því eins og ég segi þá truflar þetta mig aðeins við lestur frv.

Síðan er annað hér sem ég rek augun í og er fyrirhugað að skipað verði nú með reglugerð, en það eru þau ákvæði sem voru í 4. gr. gildandi laga þar sem kveðið var á um menntun kennara við tiltekna sérskóla og í tilteknu sérnámi. Mig minnir að þarna sé um að ræða kennara sem hafa stundað eða fengist við það sem einu sinni var kölluð sérkennsla í grunnskólalögum en er nú ekki til lengur. Það er alveg ljóst að þau lög sem í gildi hafa verið um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara og framhaldsskólakennara hafa ekki gert ráð fyrir í rauninni öðrum uppeldis- og faghópum sem hafa verið að koma inn í skólana vegna þeirrar stefnu sem hefur verið tekin varðandi blöndun. Það er hverjum manni ljóst sem vinnur við skóla að ef skólar eiga að geta tekið alla nemendur og sinnt þeim og kennt á þeirra forsendum þá getur þurft að leita til og hafa sem hluta af starfsliði skóla ýmsa sérmenntaða hópa sem ekki hafa fengið lögverndun sem grunnskóla- eða framhaldsskólakennarar. Það er alveg ljóst að þetta hefur valdið ákveðnum vandræðum. Ég velti því fyrir mér hvort sú fyrirætlan að skipa þessum málum nú með reglugerð sé þá sú að þessir faghópar fái full réttindi til að taka þátt í kennslu í grunnskólunum. Ég er hlynnt því að ákvæði gagnvart þessum hópum verði opnuð vegna þess að ég met það svo að það hafi beinlínis tafið þróun skólanna í átt til blöndunar hversu þröng ákvæðin hafa verið gagnvart ýmsum þeim uppeldismenntuðu hópum, og jafnvel er um að ræða fólk sem hefur sótt sér langt framhaldsnám til útlanda. Ákvæðin hafa verið það þröng að þetta fólk hefur í sumum tilfellum ekki þrifist innan skólanna og þurft að hasla sér völl annars staðar. Ég mundi gjarnan vilja fá að vita hver hugsunin er með því að fella þetta út og að þessu verði skipað í reglugerð, hvort hún er þessi sem ég hef hér verið að lýsa þörf fyrir. Að öðru leyti ætla ég ekki að tjá mig meira um þetta að sinni nema tilefni gefist til síðar í umræðunni.