Lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 23:31:19 (5243)

1997-04-15 23:31:19# 121. lþ. 102.15 fundur 542. mál: #A lögverndun á starfsheiti grunnskólakennara# (heildarlög) frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[23:31]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Hér er hreyft afskaplega mikilvægu og viðkvæmu máli svo sem fram hefur komið. Ég lít svo á að með þessu frv. sé verið að stíga skref í þá átt að einfalda framkvæmdina frá því sem nú er og jafnframt að auka sveigjanleika sem sannarlega er nauðsynlegt að gera og tel ég mig tala af nokkurri reynslu þar.

Uppeldis- og kennslufræði eru umdeild meðal skólafólks, ekki síst hvað átt er við með uppeldis- og kennslufræðum, hversu ríkt þau eiga að gilda við ráðningu kennara og þar fram eftir götunum. Þá má líka nefna hér að meðal kennaranema hefur oft verið gagnrýnt að áherslan á faglega þáttinn er oft of lítil. Þeir telja að uppeldis- og kennslufræðin sé oft of mikil á kostnað hins faglega. Um þetta eru sem sagt skiptar skoðanir í röðum kennara. En ég vildi þó sérstaklega nefna hér mikla kosti sem ég sé við þetta frv., þ.e. að auka þann sveigjanleika sem ég nefndi áður. Þessi sveigjanleiki eða skortur á sveigjanleika öllu frekar vegna stífrar túlkunar á gildi uppeldis- og kennslufræða, og vil ég þó taka fram að ég geri ekki lítið úr þeim fræðum, hefur m.a. leitt til þess að áhrifa atvinnulífsins hefur ekki gætt sem skyldi, einkum í starfsmenntaskólum framhaldsskóla. Nefni ég þar að oft hefur gengið erfiðlega að fá til stundakennslu aðila úr atvinnulífinu til að kenna sérhæfð námskeið þar sem þeir hafa ekki uppeldis- og kennslufræði og hafa engan áhuga á að afla sér slíkra réttinda. Þegar þeim er kynnt að sú krafa sé gerð að þeir hafi slík réttindi þá hafa margir einstaklingar horfið frá því að koma til starfa sem stundakennarar í framhaldsskólum. Á þessu er tekið í frv. og því hlýt ég að fagna. Þá hlýt ég einnig að fagna því að tekið er tillit til þeirra sem hafa verið kallaðir réttindalausir kennarar og hafa margir hverjir starfað um árabil í skólunum, margir hverjir við góðan orðstír, og hafa í rauninni staðist það strangasta próf sem nokkur einstaklingur getur staðist, þ.e. kennsluna sjálfa og fengið góð ummæli. Með þessu frv. er viðurkennd sú starfsreynsla sem þeir einstaklingar afla sér meðan þeir eru réttindalausir.

Þá er einnig vert að fagna því að fagbindingin skuli sérstaklega tekin til skoðunar og áherslan á sérhæfinguna. Vert er að minna á þá umræðu sem varð bæði hér á hinu háa Alþingi sem og í þjóðfélaginu almennt í kjölfar birtingar svonefndrar TIMSS-skýrslu. Ég get sjálfur nefnt dæmi af því úr mínu fyrra starfi þar sem ungur maður, nýkominn frá námi, doktor í eðlisfræði, hafði einhverra hluta vegna áhuga á --- hafði fengið þá köllun, að kenna nemendum í framhaldsskóla. En þar sem hann hafði ekki uppeldis- og kennslufræði var ekki hægt að ráða hann til starfa hjá skólanum og einstaklingur með mun minni sérmenntun gekk fyrir. Í þessu samhengi má einnig benda á að einstaklingur sem lýkur námi í íþróttakennaraskóla, með fullri virðingu fyrir því námi, öðlast þannig kennsluréttindi í framhaldsskóla og getur strangt til tekið gripið inn í hvaða grein sem er. Á þessu er tekið með þessu frv.

Ég vildi beina fyrirspurn til hæstv. menntmrh. varðandi ráðningarskilyrði skólastjóra í grunnskóla og framhaldsskóla. Eins og fram kemur í 7. og 17. gr. frv. þá eru í rauninni ekki gerðar aðrar kröfur til skólastjóra eða skólameistara en að þeir hafi kennsluréttindi. Ég tel það ekki vera nógu langt gengið því að skólastjórnun er sérstakt fag, viðurkennd fræðigrein sem er kennd í háskóla. Hérlendis er þegar byrjað að kenna þetta sem sjálfstæða grein fyrir skólastjórnendur. Ég teldi því æskilegt og eðlilegt að kveðið væri á um einhverjar menntunarkröfur í stjórnun til skólastjóra í grunnskóla og skólameistara í framhaldsskóla því kennsla og stjórnun er sitthvað. Hefði ég viljað heyra viðbrögð hæstv. menntmrh. við því en í heildina fagna ég frv. og býst við að það fái málefnalega og skemmtilega umræðu í hv. menntmn.