Íþróttalög

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 23:42:34 (5245)

1997-04-15 23:42:34# 121. lþ. 102.16 fundur 543. mál: #A íþróttalög# (heildarlög) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[23:42]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Á þskj. 897 flyt ég frv. til íþróttalaga. Íþróttalög eru upphaflega samin og sett árið 1940. Á þeim voru síðan gerðar breytingar árið 1956 en að grunni til eru lögin frá 1940.

Ég vil láta þess getið að ástæða þess að ég flyt þetta frv. núna er m.a. og ekki síst sú að fyrir þinginu liggur tillaga til þál. um úttekt á íþróttastarfsemi og hlutverk íþróttanna sem samfélagsþáttar í þjóðlífi okkar. Ég taldi eðlilegt að ég legði fram þetta frv. Það hefur lengi verið í smíðum, margar nefndir komið að því og menn lengi velt því fyrir sér hvernig best væri að koma fyrir nýjum ákvæðum um íþróttastarfsemi í lagabálki. Ég taldi eðlilegt að hafa það sem markmið að leggja frv. fram þannig að það yrði til skoðunar og kynningar á þeim tíma sem fjallað er um tillöguna til þál. um íþróttastarfsemina og hlut hennar í þjóðfélaginu. Ég mæli eindregið með því að sú tillaga verði samþykkt hér á þessu þingi og teldi eðlilegt nú, þegar frv. þetta er komið fram, að það yrði meðal þess sem nefndin, sem ætlunin er að setja á laggirnar samkvæmt þeirri þál., skoðaði. Þá væri ekki verið að setja nýja nefnd um frv. til íþróttalaga heldur yrðu ákvæði íþróttalaganna til skoðunar samtímis. Menn gætu þá á einum vettvangi fjallað um þær tillögur sem hér liggja fyrir og það sem nefndinni er ætlað og komið vonandi sem fyrst á næsta vetri fram með hugmyndir sem uppfylltu ákvæði þáltill. og stuðluðu að því að góð sátt næðist um frv. til íþróttalaga hér á hinu háa Alþingi.

[23:45]

Ég ætla þess vegna ekki, herra forseti, að rekja í einstökum atriðum ákvæðin í þessu frv. Ég legg það fyrst og fremst fram til kynningar. En í frv. er tekið á ýmsum málum. Meðal annars er fellt brott ákvæði um íþróttafulltrúa í menntmrn. en gert ráð fyrir að ráðuneytið fari sem fyrr með yfirumsjón íþróttamála af hálfu ríkisins. Þetta er í samræmi við tillögur mínar í öðrum málum. Ég tel að ekki beri að lögbinda einstök störf með lögum innan menntmrn. heldur eigi starfsmenn þar að sinna ákveðnum verkefnum án þess að þau séu lögbundin eins og gert er í núgildandi íþróttalögum.

Hlutverk íþróttanefndar er nokkuð breytt. Verksvið Íþróttasjóðs er rýmkað og gert ráð fyrir að úthlutun fjár úr honum sé í höndum menntmrh. að fengnum tillögum íþróttanefndar. Ákvæði er varða tilhögun og aðstöðu til íþróttakennslu í skólum eru felld brott en skírskotað til skólalöggjafar. Gert er ráð fyrir lögfestingu heimildar fyrir aðild ríkisins að samningum um stofnun og starfsemi íþróttamiðstöðva í samvinnu við sveitarfélög og íþróttasamtök, enda miðist þjónusta stöðvanna við landið allt. Menntmrh. er ætluð forganga um setningu reglna um öryggisráðstafanir í íþróttamannvirkjum. Felld eru brott ýmis sérstök ákvæði er tengjast styrkveitingum, m.a. til íþróttamannvirkja, en gert ráð fyrir heimild til að setja ákvæði um skilyrði fyrir styrkveitingum úr Íþróttasjóði í reglugerð.

Einnig er í 5. gr. laganna lagt til að Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Íslands komi fram fyrir hönd frjálsrar íþróttastarfsemi í landinu gagnvart stjórnvöldum. Ég tel að þetta ákvæði endurspegli þá staðreynd og þá þróun sem orðið hefur frá því að lögin voru sett 1940, þ.e. ef við lítum á fjárlög, ef við lítum á lottó og getraunir og annað slíkt og íþróttastarfsemina þá eru það þessi tvö sambönd, Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Ísland, sem koma fram gagnvart stjórnvöldum í landinu, koma fram gagnvart Alþingi, sækja um fé á fjárlögum og annað slíkt.

Á hinn bóginn vil ég taka fram að ég lít ekki svo á að í þessu ákvæði felist að Íþróttasamband Íslands verði ekki áfram æðsti fulltrúi íþróttahreyfingarinnar. Það legg ég eindregið til og vil ekki að þessi grein verði skilin á annan veg en þann að Íþróttasamband Íslands verði áfram sá aðili sem komi fram fyrir hönd Íslands út á við á erlendum vettvangi. Það er nauðsynlegt að hafa einn aðila sem er sameiningartákn íþróttahreyfingarinnar í landinu út á við og þar á Íþróttasamband Íslands áfram að gegna því hlutverki, sem það hefur gegnt til þessa, enda eiga öll ungmennafélög aðild aðild að Íþróttasambandi Íslands. Þetta er ekki tekið fram í grg. frv. en lá alltaf fyrir þegar menn ræddu um 2. mgr. 5. gr. að þannig yrði frá málum gengið. Ef hv. menntmn. telur að árétta þurfi þessa skipan mála sérstaklega í lagatextanum þá vil ég vekja máls á því nú að hún velti því fyrir sér hvernig það verði best gert.

Ég vek einnig athygli á ákvæðum í 6. gr. frv. þar sem segir: Landið skiptist í íþróttahéruð. Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Íslands annast skiptingu og breytingu á íþróttahéruðum. Þetta er mikilvægt ákvæði. Ég lít þannig á að það sé betur komið í höndum Íþróttasambands Íslands og Ungmennafélags Íslands að annast skiptingu og breytingu á íþróttahéruðum en að það sé á verksviði ríkisvaldsins og þannig sé frá málum gengið að þessir tveir aðilar ákveði hvernig landið skiptist í íþróttahéruð frekar en að opinberar ákvarðanir liggi fyrir um það efni. Það er í sama anda og frv. allt, þ.e. að færa sem mest af ákvörðunum frá ríkisvaldinu yfir til hinna frjálsu félagasamtaka þannig að ríkisvaldið sé ekki að skipta sér af meiru en góðu hófi gegnir. Hvað sem líður umræðum, sem áttu sér stað hér áðan um bæjarnöfn, þá er það ekki stefna mín og hefur aldrei verið að ríkið sé að skipta sér af hlutum sem því koma í raun ekki við og eru betur komin í höndum einstaklinga. En stundum kunna deilur að vera þannig að nauðsynlegt sé að slá opinberan varnagla til að skera úr viðkvæmum málum.

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að hér er verið að fjalla um mál sem snertir einnig ráðstöfun mikilla fjármuna. Fyrir utan þá fjármuni sem veitt er til íþróttahreyfingarinnar á fjárlögum þá kemur fram í athugasemdum við 10. gr. frv. að tekjur Íþróttasambands Íslands og Ungmennafélags Íslands af ,,lottó``-getraunum hafa á tíu ára tímabili frá því að sú starfsemi hófst numið samtals 1,9 milljörðum kr. Á sama tímabili námu tekjur íþróttahreyfingarinnar af starfsemi Íslenskra getrauna rúmlega 400 millj. kr. Þarna er verið að tala um fjárhæðir á tíu árum sem eru um 2,4 milljarðar sem runnið hafa til íþróttahreyfingarinnar í gegnum þessa liði sem íþróttahreyfingin hefur tekjur af samkvæmt ákvörðunum Alþingis. Þannig að við erum að líka að fjalla um starfsemi sem nýtur mikilla opinberra tekna, ef ég má orða það svo, því það er ekki hægt að líta á leyfisveitingar um hagnað af þessari leyfðu starfsemi sem ráðstafað er á Alþingi, a.m.k. óbeinar opinberar tekjur, þannig að hér er einnig mikið í húfi fyrir okkur hv. alþingismenn að velta fyrir okkur hvernig staðið er að því að skipta þessum fjármunum og mér finnst eðlilegt að menn velti því fyrir sér einnig í meðferð þessa frv.

Herra forseti. Ég legg til að málið fari til 2. umr. og hv. menntmn. en ítreka að af minni hálfu er þetta frv. lagt fram til kynningar á þessu vorþingi og til meðferðar. Verði þáltill. um íþróttir samþykkt þá fari þetta mál m.a. til athugunar í þeirri nefnd sem ætlunin er að koma á laggirnar í samræmi við þá þáltill.