Íþróttalög

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 23:54:57 (5249)

1997-04-15 23:54:57# 121. lþ. 102.16 fundur 543. mál: #A íþróttalög# (heildarlög) frv., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[23:54]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til íþróttalaga. Ég vil sérstaklega fagna því að þetta frv. skuli vera lagt fram og ekki síður því hvernig hæstv. menntmrh. tengir það við þá þáltill. sem liggur fyrir þinginu og er flutt af þingmönnum úr öllum þingflokkum. Ég fagna því alveg sérstaklega.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna enda langt liðið á kvöld. Ég vil þó benda á að íþróttahreyfingin er fjölmennustu félagasamtök á landinu. Íþróttahreyfingin og starf hennar snýst ekki einungis um keppni heldur megi halda því fram með fullgildum rökum að fá félagasamtök haldi uppi jafnmiklum forvörnum og íþróttahreyfingin. Hún sinnir ekki einungis keppni heldur forvörnum á ýmsum sviðum og ekki síður félagslegum þáttum. Varðandi þá miklu fjármuni sem hæstv. ráðherra nefndi þá er það rétt að miklir fjármunir fara í gegnum íþróttahreyfinguna en það er líka vert að hafa í huga að flest íþróttafélög standa á brauðfótum hvað fjármagn snertir enda umfang starfsemi þeirra afskaplega mikið. Þá er líka vert að benda á að ríkissjóður hefur verulegar tekjur af starfsemi íþróttafélaga í formi virðisaukaskatts sem kemur vegna ýmissa íþróttakappleikja og ýmissar starfsemi sem íþróttahreyfingin heldur uppi.

Hvað varðar það sem hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason nefndi þá er það rétt að Ungmennafélag Íslands er ekki sérsamband innan Íþróttasambandsins. Þetta eru tvö sjálfstæð sambönd og á milli þeirra ríkir ágætt jafnvægi þannig að ég tel að 5. gr. eins og hún er nái eiginlega utan um það vandamál ef um vandamál er að ræða.

Ég vildi beina einni fyrirspurn til hæstv. ráðherra. Það segir í athugasemdum að íþróttakennsla í skólum falli undir eðlilega skólalöggjöf eins og önnur skólastarfsemi og er það ekki nema eðlileg athugasemd. Hins vegar hefði ég viljað spyrja hæstv. menntmrh. hvaða augum hann líti það að íþróttafélög taki að sér þátt fræðslunnar og kennslunnar í íþróttum innan skólanna eftir þeim reglum sem skólalöggjöf segir til um. Þar má leysa ýmsan vanda því að flest sveitarfélög og íþróttafélög kvarta undan því að aðstöðu vanti t.d. aðgang að íþróttasölum, sem ekki er endalaust hægt að byggja, en með því að íþróttafélög tækju að sér þessa kennslu í grunnskólum m.a. þá mætti leysa þar ýmsan vanda og slá tvær flugur í einu höggi. Fróðlegt væri að heyra hvaða afstöðu hæstv. menntmrh. hefði til þess. Ég ítreka svo ánægju mína með að þetta frv. skuli komið fram og hvernig það er tengt þeirri þáltill. sem fyrir liggur.