Steinbítsveiðar

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 13:36:18 (5264)

1997-04-16 13:36:18# 121. lþ. 103.8 fundur 471. mál: #A steinbítsveiðar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[13:36]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Sem svar við fyrri lið fyrirspurnarinnar er það að segja að í skýrslu Hafrannsóknastofnunar fyrir fiskveiðiárið 1996--1997 sagði m.a. varðandi steinbítsstofninn, með leyfi forseta:

,,Álykta verður að aflinn síðustu þrjú ár hafi verið meiri en sem nemur varanlegum afrakstri stofnsins. Meðalaflinn tímabilið 1988--1992 var rúmar 15 þús. lestir. Hafrannsóknastofnun leggur því til að aflinn á fiskveiðiárinu 1996--1997 fari ekki umfram 13 þús. lestir.

Með hliðsjón af þessari niðurstöðu Hafrannsóknastofnunar og með tilliti til þess að vænta mátti aukinnar sóknar í þennan stofn var sú ákvörðun tekin að ákveða leyfðan heildarafla úr þessum stofni og fella veiðar á steinbít undir aflamarkskerfið og var ákveðið að leyfilegur heildarafli yrði 13 þús. lestir í samræmi við tillögur Hafrannsóknastofnunar. Afli krókabáta var áætlaður 2.500 lestir og komu því 10.500 lestir til skipta á milli aflamarksskipanna.

Varðandi síðari lið fyrirspurnarinnar er það að segja að allmargir bátar eru undanþegnir takmörkunum á veiði á steinbít. Í því sambandi skal á það bent að veiðar krókabáta hafa fram til þessa ekki verið takmarkaðar með einstaklingsbundnu aflamarki í einstökum tegundum. Það var fyrst með lagabreytingum sem tóku gildi í upphafi fiskveiðiársins 1996--1997 að útgerðum krókabáta var gefinn kostur á að velja á milli þess að stunda veiðar með þorskaflahámarki eða stunda veiðar á sóknardögum með handfærum eingöngu eða með línu og handfærum. Þeim bátum sem leyfi hafa með þorskaflahámarki er heimilt að veiða ótakmarkað aðrar tegur en þorsk, þar með talinn steinbít. Þegar þeir hafa aftur á móti náð þorskaflahámarki sínu eru þeim allar veiðar óheimilar.

Krókabátum sem leyfi hafa með sóknardögum er heimilt innan sóknardaganna að veiða allar tegundir án magntakmarkana. Þessi skipan veiða krókabáta var ákveðin með lögum nr. 105/1996, um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, og tóku eins og fram hefur komið gildi við upphaf yfirstandandi fiskveiðiárs.

Það má að vísu segja að þorskaflahámarksbátar hafi við þessa breytingu fengið nokkru meiri möguleika til veiða á öðrum tegundum en þorski en aðrir krókabátar því þeir eru undanþegnir dagatakmörkunum. Hins vegar er jafnframt ljóst að fylgst verður með þróun mála að því er varðar veiðar báta í þorskaflahámarkinu. Komi í ljós að veiði einhverra kvótabundinna tegunda, sem ekki lúta hámarki í veiðum þessara báta, fari úr hófi fram þá þarf það að koma til sérstakrar skoðunar.