Skyndiskoðanir Landhelgisgæslunnar

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 13:46:49 (5269)

1997-04-16 13:46:49# 121. lþ. 103.9 fundur 511. mál: #A skyndiskoðanir Landhelgisgæslunnar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[13:46]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Sem svar við 1. lið fyrirspurnarinnar er það að segja að á tímabilinu 1. janúar 1994 og til og með 4. apríl 1997 hafa varðskip Landhelgisgæslunnar framkvæmt skyndiskoðanir á 1.722 skipum. Athugasemdir voru gerðar í 74% tilfella en skoðanirnar skiptust þannig að aflaskoðanir voru 1.137, þar af 303 með athugasemdum. Veiðarfæraskoðanir voru 999, þar af 64 með athugasemdum. Búnaðarskoðanir voru 1.425, þar af 830 með athugasemdum og athuganir á réttindum og skráningu voru 1.488 og þar af 792 með athugasemdum.

Varðandi 2. lið fyrirspurnarinnar, um björgunarbúnað, er það að segja að 210 athugasemdir voru gerðar þar sem björgunaræfingar höfðu ekki verið haldnar. 327 athugasemdir þar sem björgunarhringjum var áfátt. Í tvö skipti vantaði björgunarbát. 85 athugasemdir voru gerðar þar sem ljósabúnaði var áfátt. 193 sinnum var hlustvarsla ekki í lagi, slökkt á talstöðvum, bilaðar talstöðvar eða engin talstöð um borð. 41 sinni voru merkingar í ólagi, skipaskrárnúmer vantaði, umdæmisnúmer röng eða ólæsileg. 19 sinnum hafði búnaðarskoðun ekki farið fram. 24 sinnum hafði nýliðafræðsla ekki verið haldin. 360 sinnum voru gerðar athugasemdir þar sem atvinnuskírteini vantaði eða var áfátt. 168 athugasemdir voru gerðar vegna atvinnuréttinda. 189 athugasemdir þar sem vantaði tiltekna menn, oftast vélaverði, en fimm sinnum var enginn skráður skipstjóri um borð. Ég endurtek, herra forseti: fimm sinnum var enginn skráður skipstjóri um borð. 87 athugasemdir voru með útrunnin haffæriskírteini. 16 sinnum vantaði undanþágupappíra. 119 sinnum var lögskráning í ólagi og í 124 skipti voru skipsskjöl ekki í lagi eða ekki um borð. Í 21 skipti voru möskvar veiðarfæra of smáir. Í 103 skipti var afli undir máli og í 42 skipti vantaði veiðileyfi um borð. Í 10 skipti voru skip með rangar merkingar á veiðarfærum. Átta skipum var vísað í land vegna þessara skoðana þar sem talið var að um svo alvarlega ágalla væri að ræða að óhjákvæmilegt væri að vísa þeim beint í land en engu skipi var vísað oftar en einu sinni. Í öllum tilvikum var kæra send til viðkomandi sýslumanns. Dómsmrn. hefur gengið eftir því við sýslumannsembættin að fá upplýsingar um afdrif þeirra mála en þær liggja ekki fyrir enn sem komið er en munu að sjálfsögðu verða birtar þegar þær hafa borist.