Störf jaðarskattanefndar

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 14:02:34 (5275)

1997-04-16 14:02:34# 121. lþ. 103.2 fundur 443. mál: #A störf jaðarskattanefndar# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi SighB
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[14:02]

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að vita að jaðarskattanefnd mun væntanlega ljúka störfum og skila niðurstöðum áður en þingi lýkur en ég skildi hæstv. ráðherra svo að það yrði, með öðrum orðum að hægt yrði að skoða tillögur jaðarskattanefndar ef hún nær sameiginlegum tillögum áður en lokið er við afgreiðslu Alþingis á þeim skattalagafrv. sem ríkisstjórnin hefur fært fram.

Ég harma það hins vegar að nefndinni hafi ekki verið skapað svigrúm til þess að skoða ekki bara tekjutengingu þeirra bóta sem ákvarðast í skattalögum eða í skattkerfinu sjálfu heldur ekki síður áhrif tekjutengingar á bætur í tryggingakerfinu. Hæstv. ráðherra veit mætavel að ég gerði ítrekaðar tilraunir til þess í fyrri ríkisstjórn að fá slíka athugun gerða en um það varð ekki samkomulag fyrr en á allra síðustu mánuðum þegar sú athugun gat hafist. Það er ekki vansalaust að tekjuskerðingarákvæðin skuli vera slík fyrir lágtekjufólk, aldrað fólk og fatlað sem er með kannski örfáar þúsundir króna í tekjur, innan við 5 þús. kr. í tekjur á mánuði, að hver viðbótareyrir sem það kann að afla sér verði til þess að það missi meira heldur en því svarar úr tryggingakerfinu. Ég hef alltaf haft áhuga á því að gera þær umbætur að skoða þetta kerfi í heild sinni og ég vona að þessi síðustu orð hæstv. ráðherra þýði að ríkisstjórnin hafi sett slíka vinnu í gang og að einhverrar niðurstöðu sé að vænta af henni, vonandi nógu tímanlega til þess að Alþingi geti tekist á við þetta vandamál og leyst það ef lausn þess þarf að koma til kasta Alþingis. En ég vildi gjarnan spyrja hæstv. ráðherra um það hvort sú athugun, sem yfir stendur á vegum ríkisstjórnarinnar, eins og hann tók til orða, sé einmitt um það að koma í veg fyrir að jaðarskattsáhrif tekjutengingar í bótakerfi almannatrygginga geti verið jafnskelfileg og þau eru í dag.