Aðgerðir gegn skattsvikum

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 14:22:14 (5281)

1997-04-16 14:22:14# 121. lþ. 103.4 fundur 566. mál: #A aðgerðir gegn skattsvikum# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[14:22]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Sem svar við fyrirspurnum hv. fyrirspyrjanda vil ég segja eftirfarandi:

Eins og fram kemur í skriflegu svari fjmrh. á þskj. 834 við fyrirspurn hv. þm. fer ekki milli mála að mikill árangur hefur náðst af skipulegu eftirliti með skattframkvæmdinni. Í því svari mínu er málið rakið í fjárhæðum og einnig með tilliti til skipulags framkvæmdar. Í ljósi þessa og vaxandi skilnings á nauðsyn öflugs eftirlits er áformað að leita eftir auknum fjármunum á fjárlagaárinu 1998 til þessara starfa. Fyrst og fremst verður leitast við að fjölga starfsmönnum skattrannsóknarstjóra og starfsmönnum við skatteftirlit hjá ríkisskattstjóra og á skattstofunum. Lögð verður áhersla á að skipulega verði unnið að því að draga úr óskráðri atvinnustarfsemi og undandrætti virðisaukaskattsins.

Varðandi 2. lið fyrirspurnarinnar vil ég segja að eins og fram hefur komið í skriflegu svari mínu um skatteftirlit er unnið að því að einfalda framtalsskil einstaklinga og atvinnurekstrar. Á næsta ári verður tekið upp samræmt form atvinnurekstrarframtals fyrir stærstu sem smæstu rekstraraðila. Þá er unnið að því að forskrá upplýsingar einstaklinga á framtalseyðublöð eftir því sem heimildir leyfa og upplýsingakerfi bjóða upp á. Þetta er hvort tveggja til þess fallið að draga úr villum og undanskotum og upplýsingum til skattyfirvalda.

Þá vil ég geta þess að nefnd á vegum ráðuneytisins hefur verið að skoða skipulag skattstofanna og verkefni þeirra. Liður í því er að draga úr verkefnum sem hægt er að vinna á vélrænan hátt en efla aftur á móti starf skattstofanna, skatteftirlitið.

Varðandi 3. liðinn er það ekki á færi fjmrh. eins að ákveða aðgerðir til þess að draga úr kennitölunotkun, þ.e. hvort hægt sé að halda áfram sama atvinnurekstri undir nýrri kennitölu. Ég fellst fúslega á það viðhorf sem lýsir sér í fyrirspurninni að möguleiki einstaklinga til þess að stofna til nýrra kennitalna í fyrirtækjaskrám og skattskrám sé of auðveldur. Af hálfu fjmrn. í samvinnu við Hagstofu Íslands, dómsmrn. og viðskrn. er nú unnið að því að koma upp samræmdri og bættri skráningu allra fyrirtækja í landinu. Ég hef óskað sérstaklega eftir því að þeir sem að þessu starfa, þ.e. ráðuneytisstjórar þessara ráðuneyta skoði sérstaklega og skili mér tillögu um hvað sé mögulegt að gera til þess að bæta úr núverandi stöðu þessa máls. Takmörkun sýnist að einhverju leyti nauðsynleg en ég er aftur á móti ekki talsmaður þess að möguleikar verði heftir til þess að stofna ný fyrirtæki því í því felst að sjálfsögðu vaxtarbroddur atvinnulífsins.

Varðandi 4. liðinn vil ég eingöngu segja það eins og reyndar kom fram í svari mínu sem ég hef áður vitnað til, að ég tel að viðbótarmannafla sé best ráðstafað til virðisaukaskattseftirlits. Ég vil ítreka það sem oft hefur komið fram áður að með breyttum lögum og breyttri framkvæmd hefur náðst mikill árangur og því verður að sjálfsögðu fylgt eftir.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, segja það að þegar menn vitna til niðurstöðu skattsvikanefnda sem hafa skilað áliti, reyndar tvær frekar en ein, önnur þeirra fyrir rúmum tíu árum, hin fyrir um það bil þremur árum, ef ég man rétt, þá hafa þær báðar eftir tveimur leiðum komist að þeirri niðurstöðu að skattsvik hér séu umtalsverð. En menn verða þá að greina það sem er rétt í málinu og það er að í samanburði við önnur lönd í kringum okkur, þ.e. önnur ríki á Norðurlöndum og hér í norðanverðri Evrópu, er talið að skattsvik hér á landi séu ekki meiri en á þessum slóðum. Og það er jafnframt ljóst að skattsvik eru mun meiri eftir því sem sunnar dregur í álfunni og reyndar eftir því sem dregur nær miðbaugi. Alþjóðlegar niðurstöður sýna þetta og eiga sér rætur í þeirra einfalda sannleik að atvinnurekstur á norðurslóðum er yfirleitt bundinn við húsnæði og þess vegna er miklu betra og auðveldara að fylgjast með honum heldur en þegar sunnar dregur.

Það breytir hins vegar ekki því að skattsvik eru umtalsverð og yfirvöld hljóta að reyna að bæta úr í þessum efnum sem ég held að óhætt sé að segja að hafi verið gengið svo rösklega til verks á undanförnum árum að aldrei hafi verið gert annað eins og ég þakka reyndar það sem kom fram í ræðu hv. fyrirspyrjanda að hún mæti það að verðleikum.