Reglugerð um ferðakostnað sjúklinga

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 14:45:30 (5288)

1997-04-16 14:45:30# 121. lþ. 103.6 fundur 454. mál: #A reglugerð um ferðakostnað sjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[14:45]

Fyrirspyrjandi (Arnbjörg Sveinsdóttir):

Hæstv. forseti. Á grundvelli laga um almannatryggingar er í gildi reglugerð um greiðslu á ferðakostnaði sjúklinga innan lands. Í þessu sambandi hlýtur maður að velta fyrir sér varðandi framkvæmd reglugerðarinnar annars vegar jafnræði borgaranna um aðgengi að sérfræðilæknisaðstoð og hátæknisjúkrahúsum og hins vegar hvers fólk eigi að gjalda sem fengið hefur þá sjúkdóma sem ekki hafa hlotið náð fyrir augum reglugerðasmiða.

Í okkar fámenna landi höfum við tekið ákvörðun um að byggja upp sérfræðilæknisþjónustu og hátæknisjúkrahús aðallega á einum stað. Það má færa rök fyrir því að þetta sé eðlileg ráðstöfun sem ræðst af fjöldanum af fólkinu sem á þjónustunni þarf að halda en það breytir ekki því að fólk annars staðar að af landinu þarf að leggja í umtalsverðan kostnað við að nálgast þjónustu á meðan aðrir njóta hagræðis af því að vera í nálægð við hana. Og ekki skulum við gleyma því að það eru sameiginlegir skattpeningar okkar sem borga þessa þjónustu.

Í reglugerðinni eru tíundaðir nokkrir sjúkdómar sem sjúkratryggingar taka þátt í að greiða ferðakostnað við og er upptalningin þessi: Ferðir vegna bráðatilvika, sem farnar eru vegna ákvörðunar læknis og ekki er hægt að sinna í heimabyggð, illkynja sjúkdómar, nýrnabilun, alvarlegir augnsjúkdómar, brýnar lýtalækningar, bæklunarlækningar barna og tannréttingar vegna meiri háttar galla. Enn fremur --- og takið nú eftir --- vegna annarra sambærilegra sjúkdóma og einnig alvarlegra vandamála á meðgöngu.

Mér hefur verið tjáð af þeim sem hafa staðið í baráttu við kerfið að þessir ,,aðrir sambærilegir sjúkdómar`` hafi ekki fundist í afgreiðslum Tryggingastofnunar. Hvers eiga þeir að gjalda sem hafa verið svo óheppnir að þjást af t.d. meltingarsjúkdómum, astma og lungnasjúkdómum, háls-, nef- eða eyrnasjúkdómum, geðsjúkdómum, húðsjúkdómum eða ofnæmi og svo má lengi telja.

Baráttan við kerfið hefur reynst mörgum mjög erfið og margir hafa reyndar gefist upp á því að leita réttar síns. Dæmigerð barátta er t.d. þessi:

Ellefu ára drengur á Austurlandi var eftir úrskurð barnalæknis sem átti leið um Austurland lagður inn á barnadeild Landspítalans vegna uppkasta og verulegs þyngdartaps á stuttum tíma. Drengurinn var í rannsóknum á barnadeild í hálfan mánuð og reyndist greiningin vera vélindabakflæði og var í byrjun reynd lyfjameðferð. Það gekk ekki upp þannig að hann var sendur aftur suður og lagður inn til rannsókna. Í kjölfar þess var ákveðið að gera skurðaðgerð. Voru þá komnar þrjár ferðir móður og barns vegna þessa sjúkdóms.

Tryggingayfirlæknir hafnaði greiðslu vegna þessara ferða í tvígang, síðast nú í febrúar. Í dag liggur hins vegar fyrir eftir kæru til tryggingaráðs að samþykkt hefur verið greiðsla á tveimur síðari ferðunum en hafnað þeirri fyrstu (Forseti hringir.) þegar sá úrskurður var kærður. Salomon var sem sagt mættur með dóminn. Hvers vegna var t.d. ekki greitt fyrir fyrstu ferðina?