Reglugerð um ferðakostnað sjúklinga

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 14:49:00 (5289)

1997-04-16 14:49:00# 121. lþ. 103.6 fundur 454. mál: #A reglugerð um ferðakostnað sjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[14:49]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir leggur fram þrjár spurningar á þskj. 768. Fyrsta spurningin er: Hver hefur verið reynslan af framkvæmd reglugerðar nr. 185/1996, um ferðakostnað sjúklinga og aðstandenda þeirra innan lands?

Reglugerð nr. 185/1996 var sett af tryggingaráði og staðfest af heilbr.- og trmrn. þann 28. mars 1996. Fram að þeim tíma höfðu verið í gildi reglur um ferðakostnað sjúklinga og aðstandenda þeirra innan lands sem settar voru árið 1991. Þær breytingar sem gerðar voru frá fyrri reglugerð vörðuðu:

1. Aukna þátttöku sjúkratrygginga í ferðum sjúklinga vegna alvarlegra vandamála á meðgöngu.

2. Þátttöku sjúkratrygginga í ferðum vegna bráðatilvika sem farnar eru samkvæmt ákvörðun læknis og ekki er hægt að sinna í heimabyggð.

3. Endurgreiðslu heimferða að loknu sjúkraflugi.

4. Endurgreiðslu kostnaðar við ferðir heim aðra hverja helgi í samræmi við gildandi reglur ef nauðsynleg læknismeðferð vegna tilvika sem reglurnar taka til tekur a.m.k. fjórar vikur eða meira.

Þá er það gert að skilyrði fyrir endurgreiðslu ferðakostnaðar að sjúklingur leggi fram skýrslu frá þeim lækni sem sendi hann og ef ekki er um bráðatilvik að ræða þarf tryggingayfirlæknir að samþykkja ferðina áður en hún er farin.

Ljóst er að sú tilhögun að fólk í langvinnri meðferð hjá sérfræðingi hér á Reykjavíkursvæðinu skuli geta fengið heimferðir endurgreiddar aðra hverja helgi til að geta dvalið hjá fjölskyldum sínum er til mikilla bóta fyrir líðan þess fólks og hjálpar því að gera meðferðina og fjarvist frá ættingjum bærilegri. Nokkuð hefur borið á því að læknar hafi verið óánægðir með þá nýju reglu að sjúklingur leggi fram skýrslu frá þeim lækni sem upphaflega sendi hann í ferðina svo unnt sé fyrir sjúkratryggingar að úrskurða um endurgreiðslurétt en auðvitað er eðlilegt að læknar skrifi einungis ferðaskýrslur vegna þeirra tilvika sem þeir sjálfir geta ekki sinnt. Mögulegt ætti að vera þegar um framhaldsmeðferð er að ræða og eftirlit og meðferð er áfram á hendi sama sérfræðings að sá skrifi ferðaskýrslu.

Að öðru leyti er ekki um breytingar að ræða miðað við fyrri reglur og reynslan af þessum reglum sker sig ekki úr þeim fyrri. Það er ljóst að beiðni um endurgreiðslur ferðakostnaðar innan lands eru miklar og alltaf nokkur klögumál fyrir tryggingaráði vegna þess eins og hv. þm. benti hér á og ég kann ekki að dæma nákvæmlega það mál sem hún lagði hér fram.

Vitað er að sjúkrasjóðir verkalýðsfélaganna koma í mörgum tilvikum einnig verulega að gagni við að létta kostnað af fólki sem þarf að leita meðferðar um langan veg.

Í öðru lagi er spurt: Hver er ástæða þess að tilgreindir eru ákveðnir sjúkdómar í reglugerðinni, þar sem ferðakostnaður er endurgreiddur, en öðrum sleppt?

Samkvæmt j-lið 36. gr. almannatryggingalaga skulu sjúkratryggingar greiða óhjákvæmilegan ferðakostnað með takmörkunum og eftir reglum sem tryggingaráð setur og ráðherra staðfestir fyrir sjúkratryggða sem þarfnast ítrekaðrar meðferðar hjá lækni eða í sjúkrahúsi með eða án innlagnar. Það hefur verið einhuga túlkun tryggingaráðs og ráðuneytis í gegnum tíðina að ætlun löggjafans sé með þessu að koma til móts við þá sem hafa alvarlega og langvinna sjúkdóma við að stríða. Samkvæmt þeirri túlkun eru taldir upp í reglum nokkrir alvarlegir sjúkdómar sem án alls vafa falla undir þessa túlkun.

Þar sem upptalningin er hins vegar ekki og getur ekki verið tæmandi er sérstaklega tekið fram í reglum að hið sama gildi um aðra sambærilega sjúkdóma eða alvarleg vandamál á meðgöngu. Sjúkdómarnir sem taldir eru upp eru því fyrst og fremst dæmi um sjúkdóma sem teljast annaðhvort illkynja eða á annan hátt alvarlegir fyrir heilsu sjúklings. Það gefur að skilja að listi yfir slíka sjúkdóma getur aldrei verið tæmandi. Það er síðan háð faglegu mati læknadeildar Tryggingastofnunar hvaða sjúkdómar koma til greina sem falla undir þessa skilgreiningu. Samkvæmt skilgreiningunni snýst málið ekki um sjúkdóma sem eru ekki nefndir sem dæmi í reglunum og þess vegna sleppt í upptalningu, heldur um þá grundvallarhugsun sem lýtur alvarlegum tilvikum.

Nú er tíma mínum lokið og ég á eftir að svara 3. fyrirspurn hv. þm. sem hljóðar svo: Mun ráðherra endurskoða reglugerðina með tilliti til reynslunnar af framkvæmd hennar?

Virðulegi forseti. Slíkar reglur hljóta sífellt að vera til endurskoðunar með tilliti til ýmiss konar breytinga sem verða í þjóðfélaginu en við höfum lagt aðaláherslu á það í heilbr.- og trmrn. að auka sérfræðiþjónustu úti á landi. En hv. þm. hefur lagt fram skriflegar fyrirspurnir um sama efni sem verður svarað innan tíðar.