Reglugerð um ferðakostnað sjúklinga

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 14:56:33 (5291)

1997-04-16 14:56:33# 121. lþ. 103.6 fundur 454. mál: #A reglugerð um ferðakostnað sjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[14:56]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Hér er verið að hreyfa mjög þörfu máli sem brennur á mjög mörgum og þess vegna er ástæða til þess að þakka hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur fyrir að vekja athygli á því.

Það er alveg ljóst að þetta getur verið íþyngjandi fyrir margt fólk sem þarf að leita sér læknisþjónustu fyrir sig eða aðstandendur sína til Reykjavíkur. Það er einfaldlega þannig að sú þróun hefur orðið á undanförnum árum að þessi þjónusta hefur þjappast æ meira saman á stærri sjúkrahúsunum, sumpart vegna þess að tæknilegar aðstæður hafa krafist þess en einnig af öðrum ástæðum. Og þrátt fyrir að það sé vissulega lofsvert að við fáum nokkrar heimsóknir sérfræðinga út á land, þá er alveg ljóst mál að stopular heimsóknir stöku sérfræðinga munu ekki leysa þann vanda sem við er að glíma hjá fólki sem býr við vanheilsu af einhverju tagi. Þess vegna gefur það auga leið að þessi þáttur getur orðið mjög íþyngjandi fyrir fólk sem oft og tíðum er líka í þeirri stöðu að hafa orðið að fella niður vinnu. Þess vegna er það mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að reynt sé að koma til móts við þarfir þess fólks sem þarf að sækja læknisþjónustu um langan veg. Ég tek þess vegna undir með þeim sem hér hafa talað um að það er nauðsynlegt að þessar reglur séu í stöðugri endurskoðun og að sú endurskoðun miðist við það að koma til móts við fólk sem þarf að greiða stórfé í ferðakostnað vegna sjúkdóma sem það er haldið.