Reglugerð um ferðakostnað sjúklinga

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 14:59:41 (5293)

1997-04-16 14:59:41# 121. lþ. 103.6 fundur 454. mál: #A reglugerð um ferðakostnað sjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KHG
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[14:59]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það er þarft að vekja athygli á þessu máli og fá fram umræðu um það auk þess að fá fram svör ráðherra um hvað hann hyggst gera umfram það sem þegar hefur verið gert.

Ég vil aðeins segja um þetta mál að mér finnst að menn nálgist það stundum ekki alveg rétt. Hér hafa ýmsir þingmenn sagt að það væri skylda ríkisins að koma til móts við það fólk sem býr utan þeirra svæða sem sjúkrahúsin eru á eða sérfræðingarnir eru með sínar stofur. Ég horfi á málið má segja alveg þveröfugt. Ríkið hefur kosið að hafa sína þjónustu með tilteknum hætti, bæði með faglegum og fjárhagslegum rökum. Það er því fólkið úti á landi sem er að koma til móts við ríkið, að una því að hafa þjónustuna svona strjála eins og raun ber vitni. Það er því eðlilegt að líta svo á að það sé hlutverk ríkisins að sjá til þess að fólk beri ekki skaða af þeirri sparnaðar- og hagræðingaraðgerð sem ríkið telur sér nauðsynlegt að grípa til.