Aðgengi hreyfihamlaðra á fæðingardeild Landspítalans

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 15:09:43 (5298)

1997-04-16 15:09:43# 121. lþ. 103.7 fundur 571. mál: #A aðgengi hreyfihamlaðra á fæðingardeild Landspítalans# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[15:09]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Vegna þessarar fyrirspurnar um aðgengi og aðstöðu fyrir hreyfihamlaða á fæðingardeild Landspítalans langar mig til að vekja athygli á öðrum hópi fatlaðra sem ekki hefur fengið úrlausn sinna mála í heilbrigðisþjónustunni og það eru heyrnarlausir. Við höfum vakið athygli á því nokkrum sinnum í vetur að ekki hefur fengist fjárveiting til túlkaþjónustu fyrir heyrnarlausa og sú upphæð sem kom til greiðslu á túlkaþjónustu er uppurin og sá hópur hefur ekki fengið úrlausn. Reyndar hefur í heilsugæslunni verið ákveðið að borga túlkaþjónustuna þangað til leyst verður úr þessum vanda en á sjúkrahúsunum, vegna þjónustu fyrir fæðandi konur sem eru heyrnarlausar, er ekki um neina úrlausn að ræða. Það er náttúrlega ljóst og reyndar ólíðandi að þær geta ekki nýtt sér heilbrigðisþjónustuna sem skyldi á meðan ekki er veitt þessi túlkaþjónusta. Ég vil þess vegna vekja athygli á því að ekki er enn búið að leysa þeirra vanda. Þó svo að þær séu ekki hreyfihamlaðar, þá er þarna um ákveðna fötlun að ræða sem þarf sérstaka þjónustu sem verður að vera fyrir hendi.