Aðgengi hreyfihamlaðra á fæðingardeild Landspítalans

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 15:11:04 (5299)

1997-04-16 15:11:04# 121. lþ. 103.7 fundur 571. mál: #A aðgengi hreyfihamlaðra á fæðingardeild Landspítalans# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi KH
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[15:11]

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin og hv. síðasta ræðumanni fyrir innlegg hennar sem minnir okkur á að það er margur vandinn í þessum efnum og margt sem þarf að lagfæra í okkar samfélagi til þess að allir sitji við sama borð því að það er aldeilis langt í frá að svo sé núna.

Samkvæmt mínum upplýsingum mun t.d. ferlinefnd ekki vita til þess að neinar úrbætur séu á döfinni en ég treysti svo sannarlega orðum hæstv. ráðherra sem fullyrti að það væri verið að huga að þessum málum og að varanlegar úrbætur yrðu gerðar.

Niðurstaða mín eftir þessar athuganir og samtöl við fólk sem þekkir til þessara mála er að ástandið er óviðunandi og það verður að bæta úr því. Ég hvet því hæstv. ráðherra til þess að skoða þetta gaumgæfilega og fylgja því fast eftir að tillögur til úrbóta verði framkvæmdar og það í samráði við ferlinefnd. Það er brýnast að koma upp skoli og baðaðstöðu við hæfi en það er ýmislegt fleira sem þarf að athuga og það er ekki viðunandi að það þurfi að vísa fötluðum í hjólastólum á einhverjar sérdyr.

Ég vil aðeins segja að fatlaðar konur verða sem betur fer margar þeirrar gæfu aðnjótandi að geta gengið með og fætt af sér barn og þær eiga rétt á góðri þjónustu eins og allar aðrar konur. Það þarf að huga sérstaklega að þeirra málum og gera ákveðnar ráðstafanir til að tryggja þeim sambærilega umönnun og aðstæður eins og öðrum er búið og ég vona bara að skelegg grein Kolbrúnar og þessi umræða í framhaldi af henni hafi hreyft nógu rækilega við málinu til þess að úr því verði bætt.