Gjaldtaka lögmanna og fjármálastofnana

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 15:14:54 (5301)

1997-04-16 15:14:54# 121. lþ. 103.10 fundur 567. mál: #A gjaldtaka lögmanna og fjármálastofnana# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[15:14]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Fyrir Alþingi liggur till. til þál. um aðgerðir til að bæta stöðu skuldara. Þar eru m.a. lagðar til tvær tillögur sem snerta þessa fyrirspurn.

Í fyrsta lagi að sett verði opinber gjaldskrá fyrir innheimtu lögmanna, þar sem m.a. verði sett þak á innheimtuþóknun þeirra og aðra gjaldtöku af skuldurum og í öðru lagi að settar verði reglur fyrir fjármálastofnanir um hámark gjaldtöku vegna vanskila skuldara.

Í tillögunni eru tekin dæmi um háan lögfræðikostnað og gjaldtöku hjá bönkum en það er einkum lögfræðikostnaðurinn og gjaldtaka banka sem hafa í þessum dæmum sem þar eru tilgreind á tiltölulega stuttum tíma tvöfaldað og stundum þrefaldað höfuðstól skuldarinnar. Nú spyr ég hæstv. viðskrh. hvort hann sé tilbúinn að beita sér fyrir því að settar verði reglur um gjaldtöku lögmanna og þak á innheimtuþóknun þeirra sem og hvort hann telji rétt að setja fjármálastofnunum reglur um hámarksgjaldtöku vegna vanskila skuldara og hver sé þá skoðun ráðherra á þessari háu gjaldtöku. Mál þetta sem ég vitnaði til hefur tvisvar sinnum verið fyrir þinginu en það virðist lítil hreyfing á því og því spyr ég um hvað framkvæmdarvaldið er að hugsa í þessu efni.

Ég vil vitna til þess að Samkeppnisstofnun hefur hafnað því að lögmenn geti sett leiðbeinandi reglur um gjaldtöku lögmanna, taldi þá ekki til þess bæra en vitnaði til þess að ef setja ætti slíkar reglur, þá telur Samkeppnisstofnun eðlilegt að það sé löggjafarvaldið eða til þess bær stjórnvöld sem það geri.

Í þriðja lagi spyr ég hvort ráðherra sé tilbúinn til þess að beita sér fyrir aðgerðum sem auðveldi skuldurum að greiða skuldir sínar sem af ófyrirsjáanlegum orsökum lenda í miklum vanskilum við innlánastofnanir. Þá er ég sérstaklega vekja athygli á því að þar sé átt við tilvik þegar við blasir að innlánsstofnunin muni ella tapa kröfum við gjaldþrot einstaklings sem þá yrði gefinn kostur á viðráðanlegri greiðsluaðlögun, t.d. með samningi um frestun á greiðslu skuldar, eftirgjöf á hluta skulda eða vaxta og kostnaðar, annaðhvort strax eða að loknu greiðsluaðlögunartímabilinu þegar skuldari hefur staðið við sinn hluta samnings um greiðsluaðlögun. Þetta er ekki óþekkt fyrirbæri vegna þess að slík leið hefur verið farin þar sem greiðsluaðlögun hefur verið tekin upp eins og í Noregi. Þar hefur greiðsluaðlögun verið tekin upp með lögum og snýr þá að opinberum aðilum en fjármálastofnanir --- og það er lykilatriði --- hafa án lagaþvingunar þar aðlagað starfsemi sína að þessari löggjöf um greiðsluaðlögun.

Ég vil minna á það í lokin, herra forseti, að hæstv. viðskrh. er, eða var það a.m.k. fyrir kosningar, mikill talsmaður þess að tekin yrði upp greiðsluaðlögun. Nú er hæstv. ráðherra í þeirri stöðu að hann getur fyrir sitt leyti stuðlað að því að fjármálastofnanir taki upp greiðsluaðlögun þegar um er að ræða að ekkert annað blasir við lánastofnunum en að þær tapi kröfum sínum. Með þeirri leið sem hér er lögð til gætu fjármálastofnanir innheimt eitthvað af skuldum sínum og eitthvað af kröfunum í stað þess að þær töpuðust og væri til hagsbóta fyrir skuldarana og fjármálstofnanirnar sjálfar ef slík leið væri farin. Hæstv. ráðherra hefur nú í höndum sér að koma þessu í kring.