Gjaldtaka lögmanna og fjármálastofnana

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 15:26:19 (5304)

1997-04-16 15:26:19# 121. lþ. 103.10 fundur 567. mál: #A gjaldtaka lögmanna og fjármálastofnana# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[15:26]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á milli mín og hæstv. dósmrh. er enginn ágreiningur um þá leið sem fara skuli. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir lýsti ágætlega í sinni ræðu áðan hver væri munurinn á því annars vegar sem kemur fram í frv. um lögmenn og því hins vegar sem kemur fram í þessu frv. sem núna er í smíðum í viðskrn. sem snýr að innheimtustarfseminni.

Í frv. um lögmenn er gert ráð fyrir leiðbeinandi gjaldskrám. Það hefur ekkert með það að segja að ekki sé hægt að setja gjaldskrá á grundvelli væntanlegra innheimtulaga og kröfur og reglugerð um þóknanir. Þetta er að mínu viti alveg samrýmanlegt.

Í nýlegri skýrslu um skuldir og vanskil einstaklinga sem félmrh. kynnti fyrir skemmstu kom fram að langflestar fjölskyldur á Íslandi ráða við skuldir sínar. Um 90% fjölskyldna eru ekki í neinum vanskilum eða um 1% fjölskyldna með yfir 1 millj. í vanskilum. Engu að síður má ekki gera lítið úr þeim vanda sem fólk hefur lent í út af þessum vítahring.

Hæstv. félmrh. hefur beitt sér fyrir mjög víðtækum aðgerðum til þess að koma til móts við það fólk sem er í greiðsluerfiðleikum. Því miður gefst mér ekki tími til þess nú í þessu stutta svari mínu að fara nákvæmlega yfir allar þær aðgerðir sem hæstv. félmrh. hefur gripið til til þess að koma til móts við það fólk sem er í mestu greiðsluerfiðleikunum. Hins vegar er enginn vafi á því að langstærsta aðgerðin á því sviði er stofnun Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna sem var, og það veit hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir af því að hún þekkir stefnuskrá Framsfl. út og inn, eitt aðalloforð Framsfl. En þau loforð eru öll núna að verða komin í höfn í þessu stjórnarsamstarfi, störfin, greiðsluerfiðleikar heimilanna, allt er þetta að ganga eftir en af því að ég veit að hv. þm. þekkir stefnuskrána vel, þá var einmitt ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna einn af hornsteinunum í þeim aðgerðum sem Framsfl. vildi grípa til til þess að koma til móts við það fólk sem var í verulegum greiðsluerfiðleikum.