Reglugerðir um matvæli

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 15:32:24 (5306)

1997-04-16 15:32:24# 121. lþ. 103.1 fundur 373. mál: #A reglugerðir um matvæli# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[15:32]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi hefur gert grein fyrir þeirri fyrirspurn sem liggur fyrir til umræðu og er í tveimur liðum. Svar við fyrri töluliðnum er á þessa leið:

Með þessum reglugerðum voru íslenskar reglur um merkingar matvæla samræmdar tilskipun Evrópusambandsins um þetta efni og gilda um öll matvæli sem dreift er til neytenda hér á landi. Áðurnefndar reglugerðir öðluðust gildi 1. janúar 1995 í samræmi við ákvæði til bráðabirgða. En fljótlega eftir að umhvrn. tók við málaflokknum frá heilbrrn., sem gerðist á miðju ári 1994, en reglugerðirnar voru settar af hálfu heilbrrn. á árinu 1993, komu upp efasemdir hjá Félagi ísl. stórkaupmanna og Verslunarráði Íslands um að tilskipanir Evrópusambandsins, sem reglugerðirnar byggðust á um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla og merkingu næringargildis matvæla, gætu verið skuldbindandi gagnvart vörum framleiddum utan Evrópska efnahagssvæðisins ef tryggt væri að þær færu eingöngu á markað hér á landi.

Á vegum umhvrn. og utanrrn. fór því fram ítarleg könnun á því hvort íslensk stjórnvöld væru skuldbundin til þess að setja sömu reglur um öll matvæli, sama hvort um væri að ræða vörur framleiddar á Evrópska efnahagssvæðinu eða í löndum utan svæðisins. Niðurstaðan varð sú að íslensk stjórnvöld væru skuldbundin til þess að byggja á reglum Evrópusambandsins og skipti ekki máli hvaðan matvörurnar kæmu.

Umhvrn. kannaði þá vegna óska frá innflytjendum matvæla hvort það uppfyllti settar reglur annars vegar að setja upplýsingarnar um vöruna á hillur í verslunum í stað þess að merkja sjálfar vörurnar eða hins vegar að gefa út bækling sem dreift yrði til neytenda þar sem fram kæmi greinargóð lýsing á umræddum vörutegundum, þ.e. allar þær upplýsingar sem krafist er samkvæmt þessum íslensku reglum.

Eftir ítarlega skoðun og viðræður við Eftirlitsstofnun EFTA varð niðurstaðan sú að hvorugt fyrirkomulagið stæðist tilskipun EBE nr. 79/112 þar sem krafa væri um það að merkingarnar kæmu fram á umbúðum matvæla eða viðfestum merkimiða. Auk þess væru á því verulegir annmarkar í framkvæmd og nánast útilokað að hafa eftirlit með hillumerkingum eða dreifingu bæklings til neytenda, ekki síst hvað varðaði ákvæði um dagstimplanir eða síðasta söludag vegna geymsluþols matvæla. Við það gerðu Neytendasamtökin einnig sérstaka athugasemd og sögðust ekki undir neinum kringumstæðum geta fallist á að upplýsingar um geymsluþol matvæla kæmu einungis fram á hillum verslana. Þær upplýsingar yrðu að koma fram á umbúðunum sjálfum svo sem reglurnar kveða á um.

Þessar athuganir á vegum ráðuneytisins hafa leitt til þess að dregist hefur að ganga frá málinu en ráðuneytið hefur nú tilkynnt hlutaðeigandi aðilum fyrrgreinda niðurstöðu og reglugerðirnar taka gildi um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla sem og merkingu næringargildis matvæla hér á landi óháð framleiðslu- eða upprunalandi og að lokafrestur til að fullnægja þessum ákvæðum sé til 1. okt. nk. Þetta er sem sagt nýleg endanleg ákvörðun tekin af ráðuneytinu og ráðherra og talið var nauðsynlegt eða eðlilegt að gefa um það bil sex mánaða fyrirvara eða frest á því að fylgja þeim eftir með öflugu eftirliti í verslunum af hálfu ráðuneytis og þeirra stofnana, eða Hollustuverndarinnar eða heilbrigðiseftirlitsins, sem munu annast það verkefni en ráðuneytið mun fylgja því eftir að ákvæðum reglugerðanna verði þá framfylgt.

Seinni liður fyrirspurnarinnar var um hvort reglugerðirnar hefðu haft áhrif á innflutning frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins og sannleikurinn er sá að auðvitað hafa þær nú þegar gert það, m.a. á þann hátt að innflytjendur matvæla frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins hafa flestir hverjir þegar lagað sig að þessum breytingum sem áttu að vera komnar í gildi. Því er þó ekki að neita að nokkrir innflytjendur matvæla frá Bandaríkjunum, og kannski reyndar frá fleiri löndum, eiga eftir að breyta merkingum samanber það sem hér hefur komið fram á undan.

Varðandi þá spurningu sem reyndar kom fram í fyrirspurnum sem áður hafa verið bornar hér fram um áhrif á vöruverð er auðvitað erfitt, kannski útilokað, að segja til um, a.m.k. á þessu stigi. Hætt er við að þetta geti haft einhver áhrif á vöruverð. Ég hygg að þegar til lengri tíma er litið hafi þetta ekki áhrif á vöruval því að það sé hægt að útvega þessar vörur eftir öðrum leiðum, þ.e. í gegnum Evrópu þar sem þær eru fluttar inn og þá með þeim skilyrðum um merkingar sem þar eru ákvæði um og eru þá hin sömu og hér, en það gæti auðvitað haft einhver áhrif á verðið.