Reglugerðir um matvæli

Miðvikudaginn 16. apríl 1997, kl. 15:37:37 (5307)

1997-04-16 15:37:37# 121. lþ. 103.1 fundur 373. mál: #A reglugerðir um matvæli# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., SvG
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[15:37]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er mikilvægt að reglum sé fylgt í þessu efni og það getur vafalaust verið til hagræðis fyrir neytendur að um sé að ræða samræmdar reglur varðandi merkingar á vörum, t.d. um næringarinnihald vöru og fleira þess háttar. En auðvitað verða menn að gæta þess í leiðinni að hér sé ekki um að ræða vísvitandi tæknilegar viðskiptahindranir sem verið er að búa til andspænis öðrum svæðum. Gallinn við hið mikla frelsisbandalag, Evrópubandalagið, er að nokkru leyti sá að þar er verið að búa til múr utan um frelsið innan þess en aðrir fá hins vegar síður að taka þátt í samkeppninni um verslun og viðskipti á svæði hins evrópska frelsisbandalags. Niðurstaðan er sú að sá hluti heimsins sem kannski þarf helst á því að halda að komast inn á þetta evrópska svæði með sínar vörur frá hinum fátækari löndum heimsins kemst ekki þangað af því að þessi heimur er útilokaður, m.a. með alls konar kröfum sem vafalaust eru vel meintar en að sumu leyti verka eins og það sem kallað er tæknilegar viðskiptahindranir.

Það sem ég er með öðrum orðum að tala fyrir er verslunarfrelsi á heimsvísu en ekki inni í lokuðum klúbbi auðkýfinga á þessum litla hluta hnattarins sem við eigum heima á. Ég tel að það sé hætta á því að hér sé verið að mismuna í þessum efnum og það sé alvarlegt umhugsunarefni.

Ég hef í sjálfu sér ekkert að athuga við vinnubrögð ráðuneytisins í þessu efni miðað við þau lög sem það á að fara eftir. Því er skylt að sinna þessum málum held ég eins og það gerir og ég hef ekkert við þennan sex mánaða frest að athuga. Ég tel að það sé bara eins og eðlilegt er. En ég er ekkert hissa á því að fjölmargir heildsalar í landinu hafi gert athugasemdir við þessa hluti.