Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 11:07:43 (5314)

1997-04-17 11:07:43# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[11:07]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það má alltaf deila um það hvað er alvarlegt fyrir Ísland og Noreg. Ég býst við því að hv. þm. telji þetta allt vera mjög alvarlegt vegna þess að hann hefur lýst andstöðu sinni við það að við tökum þátt í þessu samstarfi. En það sem hann var að lesa hér upp er úr tillögum Hollendinga sem fara með forustu í Evrópusambandinu. Það er ekki þar með sagt að þær tillögur hafi verið samþykktar af öllum hinum aðildarríkjunum sem er nauðsynlegt. Þess vegna tel ég að sá texti sem hér stendur standist gjörsamlega enda höfum við fylgst mjög náið með þessari þróun og þessari stöðu og það er alveg ljóst að sú tillaga sem hefur komið frá Hollendingum í þessu máli gengur ekki upp. Það er viðurkennt af framkvæmdastjórninni. Það er hins vegar alveg rétt að Hollendingar hafa lagt fram þessa tillögu, en það er ekki þar með sagt að hún sé orðin niðurstaðan. Þetta er því mat okkar á stöðunni í dag. Við höfum enga ástæðu til annars en ætla að fullt tillit verði tekið til þess samnings sem Norðmenn og Íslendingar hafa undirritað við hin Schengen-ríkin. Það er hins vegar ljóst að ef þessi samningur hefði ekki verið undirritaður á sl. ári þá eru miklar líkur á því að margar þjóðir hefðu ekki viljað undirrita hann nú vegna þess að mörgum finnst að sá samningur flækist fyrir í því ferli sem sumir vilja sjá fram á innan Evrópusambandsins, m.a. Hollendingar. Þess vegna hefði verið þægilegra að sá samningur væri ekki til staðar til að greiða fyrir því. En þetta getur orðið umfangsmikið mál og þar er uppi allflókin staða. En ég vil fullvissa þingheim um að við höfum reynt að draga upp rétta mynd af þessari stöðu í þeirri ræðu sem hér hefur verið flutt.