Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 11:09:58 (5315)

1997-04-17 11:09:58# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[11:09]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Athugasemdir mínar lúta að því að ég tel að það hefði verið meira upplýsandi fyrir málið ef hæstv. utanrrh. hefði gert ítarlegar grein fyrir því hvaða tillögur liggja þarna fyrir. Þær eru studdar af fleirum en Hollendingum. Það er vissulega ljóst að það skapar erfiðleika innan Evrópusambandsins að fara að öllu leyti að þessum tillögum Hollendinga, bæði vegna andstöðu einstakra ríkja sem eru innan Evrópusambandsins og aðilar að Schengen, en líka vegna Breta og þeirra Evrópusambandsríkja sem ekki eru það. En ég legg fyrst og fremst áherslu á það, herra forseti, að enn er tími fyrir Ísland til að endurmeta sína stöðu í þessum málum vegna þess að Schengen-samkomulagið er þrátt fyrir allt ekki komið til framkvæmda og farið að hafa áhrif hér. Staðan er líka alvarleg vegna þess að það liggur alveg ljóst fyrir að það mun skapa mikla pólitíska erfiðleika í Noregi ef Schengen-sáttmálinn rennur í ríkari mæli en nú er inn í Evrópusambandið. Þá mun væntanlega ekki vera neinn vafi á því að það varðar þau ákvæði norska stjórnskipunarréttarins sem kalla á stjórnarskrárbreytingar eða valdaframsal eða aukinn meiri hluta á norska þjóðþinginu og menn hafa miklar efasemdir um að þá muni Noregur geta haldið áfram í þessu ferli. Þess þá heldur held ég að ekki sé ástæða fyrir Ísland til að halda áfram á þessari braut sem hefur engin landfræðileg landamæri að öðrum Schengen-ríkjum.

Herra forseti. Ég held reyndar að öll þessi saga, hvernig Norðurlöndunum var olnbogað inn í þetta Schengen-ferli, eigi þótt síðar verði eftir að þykja athyglisverð og það eigi eftir að orka mjög tvímælis hvernig ýmislegt bar að sem þar var gert. Undir því yfirskini að verið væri að verja og vernda norræna vegabréfasamninginn var Norðurlöndunum í raun og veru skáskotið inn í þetta ferli sem við eigum að sjálfsögðu ekkert erindi inn í ef það rennur saman við Evrópuréttinn á meðan við erum þá ekki aðilar að Evrópusambandinu. Það er jafnfráleitt að við séum aðilar að þessu þegar það er orðinn hluti af Evrópuréttinum og að vera aðilar að Evrópusambandinu sjálfu.