Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 11:32:09 (5319)

1997-04-17 11:32:09# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[11:32]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. hefur svarað tveimur talsmönnum stjórnarandstöðunnar hér í dag. Afgreiðsla hans á hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni var að málflutningur hans væri útúrsnúningar. Málflutningur minn er að sjálfsögðu rangfærslur. Það eina sem kom út úr þessa litla svari hæstv. utanrrh. er þó alltént sú ágæta vitneskja að hann les Alþýðublaðið og ég óska honum til hamingju með það og megi hann halda því áfram.

Það liggur fyrir að við jafnaðarmenn erum ekki ánægðir með afstöðu og það sem ég kalla linku ríkisstjórnarinnar að því er varðar aðildarumsóknir Eystrasaltsríkjanna. Ég tel að sá texti sem ég hef, ég segi nú ekki mér til ama, en ekki til mikils fróðleiks og engrar gleði, lesið nokkrum sinnum, taki alls ekki nógu fast á málstað Eystrasaltsríkjanna. Við höfum aftur og aftur farið í gegnum þessa umræðu og það er alveg ljóst að Framsfl. dregur lappirnar í þessu máli. Ég verð að segja það enn og aftur að mér hugnast miklu betur hreinskiptin afstaða Sjálfstfl. sem hefur komið fram hérna og á vettvangi Norðurlandaráðs. Ég vildi því óska að í þessu máli eins og svo mörgum öðrum tækist Sjálfstfl. að beygja Framsfl.