Setning reglugerðar um tekjutryggingu almannatrygginga

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 13:31:43 (5329)

1997-04-17 13:31:43# 121. lþ. 105.95 fundur 290#B setning reglugerðar um tekjutryggingu almannatrygginga# (umræður utan dagskrár), Flm. MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[13:31]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hafa lífeyrisþegar mátt þola verulega skerðingu á tekjum sínum. Ár hvert, jafnvel oft á ári, eru settar reglugerðir sem leitt hafa af sér minni tekjur aldraðra og öryrkja um leið og kostnaður þeirra t.d. vegna lyfja og læknisþjónustu og annarrar þjónustu hefur verið aukinn. Þessar stéttir hafa ekki samningsrétt og því er oftar en ekki vélað um kjör lífeyrisþega án nokkurs samráðs við þá. Samtök aldraðra og samtök öryrkja hafa ítrekað farið fram á að formlegt samráð verði haft við samtökin þegar kjör þeirra eru rædd eða ákveðin. Slíkt formlegt samráð er til staðar t.d. í Noregi. Þessum óskum lífeyrisþega hefur ekki verið svarað.

Flestar þær skerðingar á kjörum lífeyrisþega sem orðið hafa eru framkvæmdar með setningu reglugerða með stoð í lögum um almannatryggingar eða önnur lög er varða kjör þessara hópa. Þessar reglugerðarbreytingar hafa verið mjög tíðar á undanförnum árum. Nokkrar þeirra byggja á 17. og 18. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt þeim greinum hefur ráðherra þrjár heimildir til að setja reglugerðir um nánari framkvæmd laganna. Þær eru eftirfarandi:

Skv. 3. mgr. 17. gr. laganna hefur ráðherra heimild til þess að setja reglugerð um áætlaðar tekjur þeirra sem bar að greiða í lífeyrissjóði skv. lögum nr. 55/1980 en gerðu það ekki og skulu þær koma til frádráttar tekjutryggingu.

Skv. 2. mgr. 18. gr. laganna skal ráðherra með reglugerð og breyta árlega viðmiðunarfjárhæð 17. gr. í samræmi við almennar hækkanir bóta og annarra tekna.

Skv. 3. mgr. 18. gr. er ráðherra að endingu heimilt að setja reglugerð um að miða megi við aðrar fjárhæðir en í 17. gr. laganna ef um er að ræða greiðslur úr lífeyrissjóði og húsaleigubætur.

Þá hefur ráðherra samkvæmt 66. gr. laganna, almenna heimild til að setja reglugerð um framkvæmd laganna.

Það er án alls vafa að öll ákvæði reglugerða verða að eiga sér stoð í lögum. Reglugerð sem ekki byggir á skýrum lagaheimildum er lögleysa og með öllu óheimilt að framfylgja ákvæðum slíkrar reglugerðar.

Reglugerðir koma ekki til umfjöllunar á Alþingi eða í þeirri fagnefnd sem fjallað hefur um þau lög er reglugerðin byggir á. Því verða þingmenn að treysta á vönduð vinnubrögð við setningu reglugerða og að undir engum kringumstæðum séu settar reglugerðir sem draga má í efa að eigi sér stoð í lögum.

5. september 1995 var sett reglugerð nr. 485 um tekjutryggingu, sem á að eiga sér stoð í áðurnefndum 17. og 18. gr. laga um almannatryggingar. Í þessari reglugerð er að mestu farið að ákvæðum laganna en í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar er þó skerðingarákvæði sem ég tel að eigi sér ekki stoð í lögum en þar segir:

,,Nú nýtur aðeins annað hjóna elli- eða örorkulífeyris, en hitt ekki, og skal þá helmingur samanlagðra tekna þeirra teljast tekjur lífeyrisþegans og að öðru leyti farið með uppbót hans sem tekjutryggingu einhleypings.``

Svo raunverulegt dæmi sé tekið um áhrif þessa ákvæðis þá get ég nefnt einstakling sem er öryrki, bundinn í hjólastól, hefur tekjutryggingu, tekjulaus að öðru leyti, á eiginkonu sem stundar vinnu í frystihúsi og hefur þar af leiðandi ekki háar tekjur. Tekjutrygging eiginmannsins er þó skert sem nemur helmingi tekna eiginkonunnar vegna þessara ákvæða í reglugerðinni. Það sama gildir um þúsundir annarra lífeyrisþega sem eru í svipaðri eða sömu stöðu og þessi.

Ef farið er ítarlega yfir 17. og 18. gr. laga um almannatryggingar verður ekki með nokkru móti séð að þetta ákvæði reglugerðarinnar eigi sér stoð í lögunum.

Ég hef leitað álits Arnmundar Backmans hæstaréttarlögmanns og niðurstaða hans er sú að ekki sé að finna heimild í lögum um almannatryggingar til að skerða bætur með þessum hætti. Jafnvel sé það spurning hvort ekki er um að ræða brot á 65. gr. stjórnarskrár þar sem lífeyrisþegum er gert að sæta sérstakri skerðingu bóta vegna tekna annarra. En í þeirri grein segir að allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernis, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti. Er þar m.a. átt við hjúskaparstöðu einstaklings.

Það er ljóst að mikill fjöldi einstaklinga hefur fengið skertar bætur vegna þessa ákvæðis í 4. gr. reglugerðar nr. 485/1995. Því er nauðsynlegt að ráðherra skýri afgerandi hvar í lögum um almannatryggingar er að finna heimild til að skerða bótagreiðslur. Ég tel að slíkt lagaákvæði sé ekki fyrir hendi og þýðir það þá að þeir fjölmörgu einstaklingar sem hafa fengið skerðingu hljóta að sækja rétt sinn fyrir dómi.

Því spyr ég hæstv. heilbrrh.:

Hvar í 17. eða 18. gr. eða öðrum greinum laga um almannatryggingar telur ráðherrann að heimild sé fyrir því að telja helming af tekjum maka til tekna lífeyrisþega þegar um tekjutryggingu er að ræða?

Telur ráðherrann að ákvæði 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 485/1995 standist 65. gr. stjórnarskrár?