Setning reglugerðar um tekjutryggingu almannatrygginga

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 13:36:57 (5330)

1997-04-17 13:36:57# 121. lþ. 105.95 fundur 290#B setning reglugerðar um tekjutryggingu almannatrygginga# (umræður utan dagskrár), heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[13:36]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir kveður sér hljóðs utan dagskrár vegna reglugerðar nr. 485/1995 sem er óbreytt frá setningu laga nr. 62/1974 í ráðherratíð Magnúsar Kjartanssonar. Umrætt ákvæði reglugerðarinnar og almannatryggingalaga er þannig orðrétt óbreytt allt frá árinu 1974.

Fyrsta spurning hv. þm. lýtur að því hvar lagaheimild sé til þess að telja helming af tekjum maka til tekna lífeyrisþega þegar um tekjutryggingu er að ræða. Í 1. og 2. mgr. 17. gr. almannatryggingalaganna er ákvæði um útreikning tekjutryggingar elli- og örorkulífeyrisþega og skerðingu hennar vegna tekna bótaþega. Í niðurlagi málsgreinarinnar er kveðið á um að sama gildi um hjónalífeyri eftir því sem við á. Ákvæði þetta hefur staðið orðrétt efnislega óbreytt frá gildistöku almannatryggingalaganna 1. jan. 1972 og hefur allt frá þeim tíma verið túlkað þannig að heimilt sé að telja helming tekna maka til tekna lífeyrisþega. Umboðsmaður Alþingis gaf á árinu 1988 út álit varðandi hvort það sé andstætt 19. gr. almannatryggingalaganna, nr. 67/1971, að ákveða í reglugerð að við ákvörðun tekjutryggingar elli- og örorkulífeysisþega skuli tekið tillit til tekna maka sem ekki nýtur lífeyris. Niðurstaða umboðsmanns Alþingis er sú að reglugerðarheimild almannatryggingalaganna nái til umræddra tekjutrygginga og þar með að reglugerð sama efnis og hér er til umræðu ætti sér nægilega lagastoð. Á árinu 1993 var almannatryggingalögum skipt í tvennt vegna EES-samningsins. Þá var ekki um að ræða efnisbreytingu heldur tæknilega breytingu vegna skuldbindinga okkar gagnvart EES. Reglugerðin margumrædda nr. 485/1995 var síðan sett á grundvelli laganna, orðrétt og óbreytt að þessu leyti.

Síðari spurning hv. þm. er hvort ráðherra telji að ákvæði 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 485/1995 standist ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar. 65. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um þau grundvallarmannréttindi að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum og njóti mannréttinda. Ákvæði þetta hefur verið skýrt þannig að allir þeir sem búa við sambærilegar aðstæður skuli meðhöndlaðir með sama hætti og jafnræði þegnanna er takmarkað við það að aðstæður þeirra séu sambærilegar. Þessa sést mjög víða stað í löggjöf þar sem aðstæður ráða réttindum. Svo er einnig í almannatryggingalöggjöfinni og tel ég því ótvírætt að ákvæðið samrýmist ákvæðum stjórnarskrárinnar. Í því sambandi vil ég benda á að umboðsmaður Alþingis hefur vísað frá embættinu kvörtun sem lýtur nákvæmlega að því sem ég rakti stuttlega hér að framan samkvæmt upplýsingum frá þeim einstaklingi sem lagði kvörtunina fram. Vissulega er umboðsmaður Alþingis ekki dómstóll. Að sjálfsögðu er opinn sá möguleiki að höfða dómsmál vegna þessa máls en það kæmi trúlega fleirum á óvart en mér ef óslitin lagaframkvæmd sl. 25 ár á grundvelli ákvæða sem er orðrétt óbreytt allan þann tíma verði dæmd ólögleg.

Virðulegi forseti. Ég tel óhjákvæmilegt að eitthvert tillit sé tekið til heimilistekna þegar bætur eru greiddar út úr almannatryggingakerfinu. Enda er það í fullu samræmi við tilgang laganna og aðrar reglur í þjóðfélaginu sem miða við heimilistekjur.

Ég get hins vegar tekið undir það með umboðsmanni Alþingis að alltaf er umdeilanlegt hvort skerðingarákvæði séu réttlát eða heppileg. Því er þetta eitt af því sem verið er að skoða nú þegar og þau jarðarskattaáhrif sem þetta leiðir af sér. Ég á von á að ríkisstjórnin muni innan tíðar leggja fram breytingar sem bæði eru varðandi hækkun bóta í samræmi við niðurstöður kjarasamninga og einnig sem bætir upp þau jaðarskattaáhrif sem svo víða eiga sér stað.

En ég vil í lokin geta þess af því að frummælandi nefndi áðan að ekki væri nógu mikið samráð haft við Félag eldri borgara og öryrkja þá hef ég haft mikið samráð við þessa hópa allt frá því að ég hóf störf.