Setning reglugerðar um tekjutryggingu almannatrygginga

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 13:47:06 (5333)

1997-04-17 13:47:06# 121. lþ. 105.95 fundur 290#B setning reglugerðar um tekjutryggingu almannatrygginga# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[13:47]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þakkir til flm. fyrir að hefja þessa umræðu vegna þess að hér er vakin athygli á mjög alvarlegu máli. Ég vil um leið gagnrýna hæstv. heilbrrh. fyrir að bera fyrir sig álit umboðsmanns Alþingis með þeim hætti sem hún gerði vegna þess að umboðsmaður Alþingis hefur ekki lokið umfjöllun um það mál sem hæstv. ráðherra nefndi áðan. Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk núna rétt í þessu hefur umboðsmaður Alþingis tekið ákvörðun um að fjalla frekar um þetta mál þar sem forsendur þess séu ekki eins ljósar og menn höfðu talið. Það hefði þess vegna verið skynsamlegra af heilbr.- og trmrn. að afla sér betri upplýsinga frá umboðsmanni Alþingis áður en rök þaðan voru notuð til þess að reyna að berja á málshefjanda og öðrum í þessu máli.

Það er auk þess rangt, hæstv. forseti, að ákvæði það sem hæstv. ráðherra vitnaði til hafi verið óbreytt frá setningu laganna 1974. Lögin voru sett 1971. Það ákvæði sem er vitnað til var fyrst notað á árinu 1971 þegar ákvörðun um tekjutryggingu var tekin, sem var tvímælalaust ívilnandi ráðstöfun gagnvart tryggingaþegum. Sú ákvörðun sem þá var tekin byggðist ekki aðeins á almannatryggingalögum heldur líka á skattalögum, eins og þau voru þá, og því frádráttarkerfi sem þá var byggt á, m.a. gagnvart hjónum og sambýlisfólki. Þessu ákvæði var breytt 1984. Það var fellt út úr lögum 1984 og það er ótrúlegt að bera það fyrir sig að reglugerð standi tímans tönn þó að lögunum sem voru undir þeirri reglugerð í upphafi hafi verið breytt fyrir 13 árum. Þess vegna tel ég að svör hæstv. heilbrrh., því miður, dugi ekki í þessu efni, vekja hins vegar athygli okkar á að almannatryggingalögin eru afskaplega gölluð. Það er búið að breyta þeim sennilega á milli 150--200 hundruð sinnum frá því þau voru sett. Það er því bersýnilega nauðsynlegt að endurskoða þau í heild. Niðurstaða mín af málinu er sú að það er óhjákvæmilegt (Forseti hringir.) að höfðað verði prófmál í þessu máli til að tryggja það að öryrkjar og aldraðir fái sinn rétt.