Setning reglugerðar um tekjutryggingu almannatrygginga

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 13:49:30 (5334)

1997-04-17 13:49:30# 121. lþ. 105.95 fundur 290#B setning reglugerðar um tekjutryggingu almannatrygginga# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[13:49]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að taka þetta mál upp en jafnframt lýsa yfir vonbrigðum mínum með svör hæstv. heilbrrh. sem vitnar til dagsetninga sem eru löngu fyrir þá tíð sem þessi lög eru sett. Því þau lög sem vitnað er til eru frá árinu 1995 og hún er jafnvel að vitna til úrskurða eða ákvarðana umboðsmanns Alþingis frá 1988 sem einhvers konar fyrirmæla vegna laga sem voru sett 1995 og reglugerðar sem líka var sett árið 1995. Eins og allir vita verða reglugerðir að eiga sér stoð í lögum ef þær eiga að hafa eitthvert lagagildi. Menn hafa deilt um það hvort sú reglugerð sem hér um ræðir hafi lagagildi eður ei og ég vil taka undir með hv. þm. Svavari Gestssyni sem hvatti til þess að á þetta yrði látið reyna. Á hinn bóginn vil ég segja að ef löggjöfin er þannig úr garði gerð að hún kveður skýrt á um það hver réttur þessa fólks er, þá getur framkvæmdarvaldið ekki komið upp og breytt þessum réttindum einhliða. Það er alveg kristaltært.

Ef það reynist svo að þessi reglugerð á sér ekki lagastoð þá hljóta menn að velta því fyrir sér hvort framkvæmdarvaldið geti verið bótaskylt, þ.e. að ef lögin kveða skýrt á um þessi réttindi og framkvæmdarvaldið hefur einhliða breytt þeim, þá hlýtur ríkið að vera bótaskylt gagnvart þeim sem það hefur brotið á, hafi reglugerðin ekki átt sér neina lagastoð. Ég held að prófmál mundi sjálfsagt leiða það í ljós.

En enn og aftur verð ég að lýsa yfir vonbrigðum með svör hæstv. heilbrrh. sem voru að mínu viti fyrir neðan allar hellur.