Setning reglugerðar um tekjutryggingu almannatrygginga

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 13:58:44 (5338)

1997-04-17 13:58:44# 121. lþ. 105.95 fundur 290#B setning reglugerðar um tekjutryggingu almannatrygginga# (umræður utan dagskrár), Flm. MF
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[13:58]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég varð fyrir vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra. Ég get ekki tekið undir það með hæstv. ráðherra að hér sé um óbreytt orðrétt ákvæði að ræða frá því 1974 eða 1971 því það er byggt á allt öðrum grunni. Reglugerðin sem féll úr gildi þegar hæstv. ráðherra undirritaði reglugerðina 1995 er síðan 1977, undirrituð af Matthíasi Bjarnasyni, þáv. heilbrrh. Þar er um að ræða almenna heimild til að setja reglugerð. En í reglugerðinni, sem sett er í september 1995, eru lokaorð reglugerðarinnar þau að þar sé einungis um að ræða reglugerð sem sett er með stoð í 17. og 18. gr. laganna, ekkert annað. Engin önnur grein almannatryggingalaga er nefnd, ekki einu sinni grein nr. 66 þar sem fjallað er um almenna reglugerðarheimild um útfærslu laganna. Þannig að heimildina og stoðina undir þessari reglugerð er að finna í 17. og 18. gr. laga um almannatryggingar. Þar eru aðeins þrjár heimildir. Ég taldi þær allar upp í fyrri ræðu minni og engin ástæða er til að telja þær upp aftur. Það er full ástæða til að láta á þetta reyna. Það þarf reyndar ekki að breyta lögunum, eins og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði áðan, vegna þess að það er reglugerðin sem um ræðir. Það er engin heimild í lögunum um þessa skerðingu. Það er einungis um reglugerð að ræða, reglugerð sem hefur ekki stoð í lögum. Þar af leiðandi er með öllu óeðlilegt að framkvæma þá reglugerð með þeim hætti sem gert er í dag. Og fráleitt að vísa til álits umboðsmanns sem hefur verið tekið upp vegna breyttra forsendna og þá sjálfsagt vegna þess að reglugerðum og lögum hefur verið breytt síðan umboðsmaður fjallaði um málið.