Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 14:03:45 (5340)

1997-04-17 14:03:45# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[14:03]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vona að það sé enginn vafi á því að það var ég sem átti að fá orðið. En það er spurning hvort við eigum ekki að gera ráðstafanir til þess að hæstv. utanrrh. komi á svæðið. Honum er kannski ekki ljóst að umræða er að hefjast, herra forseti.

(Forseti (GÁ): Forseti getur upplýst að hæstv. utanrrh. er á næstu grösum og skal gera ráðstafanir til þess að hann komi hér og hlýði á mál hv. þm.)

Ég veit ekki á hvaða grösum hæstv. utanrrh. stendur en alla vega er hann ekki hér í þingsalnum. Tímans vegna er nú ekki unnt að ...

(Forseti (GÁ): Forseti mun hreinsa út þann tíma sem þingmaðurinn hefur þegar notað og bíða ráðherrans.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir því að tíminn leyfir í sjálfu sér ekki mikið meira en að fara yfir einstök atriði í ræðu hæstv. ráðherra þó margt væri ástæða til að ræða við þessa umræðu. --- Þá kemur hæstv. utanrrh. og er að sjálfsögðu vel fagnað.

Ég byrja á því, herra forseti, að koma inn á það sem hæstv. ráðherra hóf mál sitt á að fjalla um. En það varðar þá athugun sem hafin er á því hvernig staðið skuli að því að efla utanríkisþjónustuna og hv. þm. Geir Hilmar Haarde, formaður utanrmn., vék einnig að. Ég tek undir það sem í máli þeirra fólst, að ég fagna því. Það er fullkomlega ástæða til að fara rækilega yfir það hvernig við getum best gætt utanríkishagsmuna okkar almennt. Og ég tel einnig mjög nauðsynlegt að aðrar stofnanir verði fullgildir aðilar að þessu starfi. Það kom að vísu fram í máli formanns utanrmn. að haft hafi verið samband við utanrmn. og óskað eftir fulltingi hennar.

Ég er þeirrar skoðunar að mikil þörf sé orðin á því fyrir allt íslenska stjórnkerfið að fram fari einhvers konar samræmingarstarf varðandi þátttöku okkar í alþjóðlegu samstarfi þó ekki væri nema til þess að reyna að gera það sæmilega kleift, miðað við þann mannafla og þá fjármuni sem við höfum úr að spila á fjölmörgum sviðum í stjórnkerfinu, að dekka, ef svo má að orði komast, þátttöku Íslands. Ég held að það væri hægt að leysa betur úr þeim hlutum en gert er í dag og ná meiri árangri fyrir svipaða fjármuni eða ekki endilega miklu meiri fjármuni með því að stórauka samstarf einstakra þátttakenda að þessu leyti. Ég nefni sem dæmi það fjölþætta samstarf sem Alþingi sjálft er í í gegnum þátttöku þingmanna á ýmsum vettvangi í alþjóðlegu samstarfi. Ég fagna sem sagt þessu starfi. Það er fyllilega tímabært og í sjálfu sér eðlilegt að utanrrn. hafi forustu í þeim efnum. En ég held að stjórnmálaflokkarnir og Alþingi og slíkir aðilar ættu að eiga þarna fullgilda aðild að og beini því til hæstv. ráðherra að það verði haft í huga.

Í öðru lagi vil ég koma inn á það sem hæstv. ráðherra fjallaði um og snýr að Evrópusambandinu og stöðu mála þar. Og þá fyrst lítillega hvert stefni í því ágæta batteríi, Evrópusambandinu. Það vakti nokkra athygli mína að þegar hæstv. ráðherra er að fara yfir hlutina í að vísu knöppum texta, á bls. 4 í ræðu hæstv. ráðherra, þá er sú umfjöllun í raun og veru afar hlutlaus. Ég leyfi mér að segja 100% hlutlaus. Það er nefnt að hlutirnir kunni að þróast með tilteknum hætti varðandi það að Evrópuþingið styrkist eitthvað en að öðru leyti verði samstarf aukið í lögreglumálum, umhverfismálum og félagsmálum. Einhverjar breytingar á hlutfallslegu vægi atkvæða aðildarríkja og betur skilgreint með hvaða hætti megi standa að samstarfi sem ekki tekur til ríkjanna allra. Nú er mér að vísu ljóst að hæstv. ráðherra var nokkur vandi á höndum að reyna að komast yfir allt sem hann vildi fjalla um í ræðu sinni. En þarna hefði ég gjarnan viljað sjá að afstaða Íslands kæmi með einhverjum hætti fram. Nú kunna menn að spyrja hvað Íslandi kemur við hvernig málin þróast innan Evrópusambandsins. En staðreyndin er bara sú, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að það hefur heilmikil áhrif á okkar stöðu hvernig Evrópusambandið, stjórnkerfi þess og ákvarðanatökuferli, þróast. Ég tel eðlilegt að Ísland hefði þá almennu afstöðu, án þess að í því fælist nein sérstök tilraun til að fara að hafa áhrif á innri mál Evrópusambandsins enda ekki við miklu að búast í þeim efnum, að við værum í hópi þeirra ríkja sem væru andsnúin frekari yfirþjóðlegri þróun Evrópusambandsins. Það liggur nokkuð ljóst fyrir að ríkin skiptast nokkuð upp í þeim efnum. Ég vildi sjá Íslendinga í hópi með þjóðum eins og Dönum og nær Svíum en Finnum hvað það varðar að vera á bremsunum gagnvart þessari þróun Evrópusambandsins yfir í yfirþjóðlega stofnun. Sem sagt til þess að gæta stöðu minni ríkja sem þarna eru á ferðinni og á grundvelli almennra sjónarmiða um lýðræði, valddreifingu og réttindi smærri aðila sem taka þátt í samstarfi af þessum toga sem öðrum.

Í þriðja lagi áttum við hæstv. ráðherra nokkur orðaskipti um Schengen-samkomulagið í morgun. Ég vísa aðallega til þess sem þar var sagt og ætla ekki að hafa um það fleiri orð. Ég hef áhyggjur af því að þau mál séu að þróast þannig að það geti orðið mjög óhagstætt okkur Íslendingum. Ég tel að við ættum að velta því fyrir okkur að endurskoða stöðu okkar í ljósi þeirra aðstæðna sem þar eru uppi. Það vill svo til að samkomulagið er ekki komið til framkvæmda hvað okkur varðar. Það orkar að ýmsu leyti tvímælis, að ég tel, fyrir Ísland að vera aðili að því ferli með þeim hætti sem ákveðið hefur verið og í ljósi þess hvert horfir með Schengen-samninginn í Evrópuréttinum. Norðurlöndin hefðu getað valið aðra leið, og ég ætla ekki að eyða miklum tíma í fyrri deilur mínar og hæstv. utanrrh. um það mál, en það er ljóst að Norðurlöndin hefðu getað valið aðra leið. Þegar lagt var af stað voru hlutirnir settir þannig upp að það yrði einn fyrir alla og allir fyrir einn. Eina ríkið sem þá þegar bjó við það að standa frammi fyrir sameiginlegum landamærum við Schengen-svæðið var Danmörk. Hin Norðurlöndin gerðu það ekki. Og í reynd liggja hlutirnir þannig að það var miklu meira hagsmunamál fyrir Finna og Svía að hafa skynsamlegan frágang á landamærareglum við landfræðilega nágranna sína, þ.e. Svía við Norðmenn og Finna við Svía og aðrar þjóðir sem að þeim liggja. Spurningin um það hvort Danir hefðu með einhverjum hætti getað leyst sín mál, verandi áfram aðilar að Norræna vegabréfasambandinu án þess að Norðurlöndin gengju í Schengen, var að sjálfsögðu uppi og hún var opin þegar ferlið fór af stað en síðan gerist það að á leiðinni breytist tónninn í aðildarríkjunum þremur, Finnlandi, Svíþjóð og Danmörku, yfir í það að þau muni verða aðilar og spurningin snúist um að ganga einhvern veginn frá þessu gagnvart Íslandi og Noregi. Ég hef líka áhyggjur af því, hvernig okkur takist, bara af hreinum praktískum ástæðum að standa að framkvæmd Schengen-samningsins t.d. í Keflavík. Það er því miður langt frá því að vera leyst mál. Hvernig gengur til að mynda upp tengiflug Flugleiða vestur og austur um haf, sem allt mætist í einum tímapunkti og hefur innan við klukkustund til þess að láta mörg hundruð farþega skipta um vélar, ef við verðum orðnir aðilar að ytri landamælum Evrópusambandsins að þessu leyti --- fyrir nú utan þann kostnað sem ljóst er að leggja verður í?

Ég fagna ummælum hæstv. ráðherra um ÖSE, Stofnunina um öryggi og samvinnu í Evrópu, og ég styð það heils hugar að Íslendingar komi á fót fastanefnd við Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Ég held að það sé fullkomlega tímabært og ég vona að þannig beri að skilja það sem hæstv. ráðherra segir um þessi mál að það sé á dagskrá af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að komið verði á fót fastanefnd af Íslands hálfu við stofnunina.

Um fremur mærðarlegan kafla um hernaðarbandalagið NATO ætla ég ekki að fara mörgum orðum en hann er gamalkunnugur í textum hæstv. ráðherra og reyndar margra forvera hans. Ég hygg að fáa texta úr þingsögunni mætti í rauninni kópíera með jafnlitlum breytingum gegnum tíðina og mærðarkaflana um NATO þegar viðeigandi öfl hafa verið að fjalla um það. Um stækkun NATO sem hér hefur verið rædd, að mínu mati nokkuð gálgalega, vil ég fyrst og fremst segja að þar er mikið alvörumál á ferð sem því miður virðist erfitt að fá menn til að fjalla um sem slíkt. Það er gífurlega afdrifaríkt fyrir öryggi í Evrópu í framtíðinni hvernig til tekst í þeim efnum ef menn fara af stað. Það er svo augljóst mál eins og að tvisvar tveir eru fjórir og að sólin kemur upp á morgnana og sest á kvöldin eða hefur a.m.k. gert það hingað til, þ.e. jörðin sem snýst í kringum sólina. Ef fer á hinn verri veg og stækkun NATO leiðir til þess að ný spennulína myndast austar í álfunni þá eru menn engu betur settir en áður og í raun og veru verr. Þá hefði verið betra að hreyfa ekki við núverandi landamærum NATO og reyna að leita að heildarlausnum í öryggismálum Evrópu sem tækju líka mið af Rússlandi og pólitískum aðstæðum þar. Það er alveg sama hvernig menn snúa þessu og það er sama á bak við hvað menn skjóta sér og þó menn segi þúsund sinnum að Rússar eigi ekki að hafa neitunarvald í einhverjum öryggismálum þá er staðan í öryggismálum Evrópu þessi: Varanlegur stöðugleiki, friður og öryggi verður ekki tryggt nema allar þjóðir í austanverðri Evrópu séu þátttakendur í því. Það þýðir ekki að þröngva þar fram lausn á grundvelli hernaðarlegra, stjórnmálalegra eða efnahagslegra yfirburða sumra í andstöðu við aðra. Það er heimskulegt. Þá verður verr af stað farið en heima setið í sambandi við þessi mál.

[14:15]

Um æfinguna Samvörður 97 hefði ég getað hugsað mér að segja ýmislegt. Hæstv. utanrrh. hefur gert það að miklu gæluverkefni sínu og fjallar um það í fallegum orðum. Á yfirborðinu er það sjálfsagt þannig að þetta lítur óskaplega fallega út. Þetta er almannavarnaæfing, eins og sagt er, og þar fram eftir götunum. En ég hef aðeins velt því fyrir mér, herra forseti, og ég er ekki einn um það, hversu eðlileg sú sambúð er sem þarna er verið að setja upp annars vegar milli almannavarna og hins vegar hernaðarumsvifa. Ég hef miklar efasemdir og mikla fyrirvara um það að við séum á réttri braut með því að vera að blanda þessum hlutum svona saman. Það stríðir að mínu mati gegn bæði alþjóðlegum sáttmálum, eins og Genfarsáttmálanum og ýmsum viðaukum hans sem gera ráð fyrir að reynt sé að greina á milli borgaralegra hagsmuna, borgaralegrar stjórnsýslu og borgaralegra réttinda annars vegar og þess sem lýtur að hernaði hins vegar. Það er að mínu mati líka í andstöðu við markmið, tilgang og eðli almannavarnastarfs að blanda því saman við hernaðarhagsmuni. Hvert er meginmarkmiðið með almannavarnastarfi? Það er að vernda borgarana gegn hernaðarógn. Það er því svolítið nöturlegt, satt best að segja, ef á svo að fara að gifta þessar andstæður í slíkum æfingum.

Í 1. gr. laga um almannavarnir segir, með leyfi forseta:

,,Hlutverk almannavarna er að skipuleggja og framkvæma ráðstafanir, sem miða að því að koma í veg fyrir, eftir því sem unnt er, að almenningur verði fyrir líkamstjóni eða eigna af völdum hernaðaraðgerða, náttúruhamfara eða af annarri vá, og veita líkn og aðstoð vegna tjóns, sem orðið hefur, enda falli þau störf ekki undir aðra aðila samkvæmt lögum.``

Það er meginhlutverk almannavarna og fyrst er talið upp að verja borgarana fyrir hernaðarógn. Það er eðlilegt vegna þess að engar hremmingar í heiminum hafa reynst almenningi hvar sem er á byggðu bóli jafnháskalegar í gegnum tíðina og hernaðarbröltið. En þessu vill hæstv. ráðherra koma í hjónaband.

Í öðru lagi er það svo að yfirvöld almannavarnamála bæði hér á landi og annars hafa mjög rík réttindi til að kveðja borgarana til þátttöku í starfinu. Það segir t.d. í 10. gr. okkar laga um almannavarnir, með leyfi forseta:

,,Það er borgaraleg skylda þeirra, sem eru á aldrinum 18--65 ára, að gegna, án endurgjalds, starfi í þágu almannavarna í umdæmi, þar sem þeir dveljast, samkvæmt fyrirmælum, er lögreglustjóri gefur, að fengnum tillögum almannavarnanefndar.``

Ég, sem borgari í þessu landi, kæri mig óskaplega lítið um að almannavarnir í landinu hafi til þess rétt að kveðja mig til þátttöku í einhverju starfi sem komið er í samkrull við hernaðarhagsmuni og stríði þannig gegn minni lífsskoðun að ég gæti af samviskuástæðum ekki tekið þátt í því. Hver er þá réttur minn í því sambandi? Hugsar hæstv. ráðherra sér að hafa þetta þannig ef til alvörunnar kæmi? Ef við værum nú ekki að tala um æfingu heldur þegar til alvörunnar væri komið þá gætu þessir hlutir verið með þeim hætti sem þessi æfing á að vera.

Herra forseti. Ég gæti sagt margt fleira um þetta. Ég vísa t.d. til ákvæða 9. gr. almannavarnalaga um hlutverk almannavarna sem er fyrst og fremst að skipuleggja og annast björgunar- og hjálparstörf. Það er einu sinni þannig, og þá vísa ég í marga alþjóðlega samninga, að reynt er eins og kostur er úti um allan heim að greina á milli hernaðarumsvifa annars vegar og björgunar- og hjálparstarfs hins vegar. Það er grundvöllur starfa Rauða krossins og það er grundvöllur Genfarsáttmálanna að þegar um björgunar- og hjálparstarf er að ræða sé því haldið skýrt aðgreindu, að hjálpartækin séu aðgreind og sérstaklega merkt hjálparstarfinu en hernaðartól séu merkt á annan hátt. Þetta er grundvöllur verkaskiptingar af þessu leyti. Mér finnst þessi trúlofun almannavarna annars vegar og hernaðarbröltsins hins vegar og hernaðaræfinganna afar ógeðfelld hvernig sem á það er litið, líka í lagalegu tilliti.

Um afvopnunarmálin vil ég segja að ég tek nánast að öllu leyti undir textann í ræðu hæstv. ráðherra hvað það snertir. Ég vil þó nefna sérstaklega að þar er ekki nefndur einn mjög viðamikill samningur eða viðræður sem ég bind miklar vonir við að komist á einhvern rekspöl og ég er þeirrar skoðunar að það sé það eina stóra svið sem algjörlega liggi enn þá hjá garði varðandi alþjóðlega samninga um friðar- og afvopnunarmál og það eru vopnaviðskiptin sjálf. Ég er alveg sannfærður um að langárangursríkasta aðferðin til að sporna við vígbúnaðaruppbyggingu hvar sem er í heiminum og sérstaklega þó í þriðja heiminum væri að ná alþjóðlegum sáttmála um vopnaviðskipti. Um upplýsingaskyldu og um reglur að vopn séu aldrei seld inn á átakasvæði o.s.frv. En þetta hefur strandað á andstöðu helstu vopnaútflytjendanna eins og kunnugt er og hverjir það eru vita víst flestir.

Um þróunarmálin vísa ég til tillögu okkar þingmanna Alþb. um að auka framlög Íslendinga til þróunarsamvinnu og vona að hún fái afgreiðslu á þessu þingi.

Að lokum segi ég í sambandi við sjávarútvegsmál, sem hæstv. ráðherra vék lítillega að undir lok síns máls, að ég get tekið að mestu leyti undir það sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sagði um stöðu mála í Barentshafinu án þess að ég ætli að taka mér í munn nákvæmlega sömu orð og hann hafði um Norðmenn. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra að lokum: Til hvers er verið að vísa þegar talað er um mikilvægi þess að koma stjórn á fiskveiðar okkar í Smugunni í Barentshafi? Er hæstv. ráðherra þeirrar skoðunar að við Íslendingar eigum að setja einhliða kvóta á veiðar okkar og ef svo er hvar er það mál á vegi statt í samskiptum utanrrn. og sjútvrn.?