Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 14:21:01 (5341)

1997-04-17 14:21:01# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[14:21]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekki komið inn á öll þau atriði sem hv. þm. kom inn á en ég vildi gjarnan nefna æfinguna Samvörður 97. Það er rétt hjá hv. þm. að ég tel hana afar mikilvæga. Ég tel að raunverulega byggist misskilningur hans í málinu á því að hann lítur á Atlantshafsbandalagið sem hernaðarbandalag og ekkert annað. Hann viðurkennir ekki hlutverk bandalagsins á sviði lýðræðis, mannréttinda, friðar og almannavarna. Innan bandalagsins starfa almannavarnaeiningar. Það kemur í ljós þegar við förum að skipuleggja þessa æfingu hér á landi sem ýmsum kemur kannski á óvart að bandalagið starfar jafnframt á þessu sviði.

Hv. þm. sagði að það væri hlutverk almannavarna að vernda borgarana gegn hernaðarógn, (SJS: Meðal annars.) meðal annars. Ég býst við að almannavarnir á Íslandi eins og þær starfa ættu erfitt með að verja landið gegn hernaðarógn, sem við vonum að aldrei komi til. Það liggur ljóst fyrir að almannavarnir á Íslandi eru ekki þannig uppbyggðar. Við höfum byggt okkar varnar- og öryggismál upp með öðrum hætti. Hér er um stórmerka æfingu að ræða með þátttöku tuttugu þjóða. Mér koma satt best að segja á óvart ummæli hv. þm. Ég hélt að hann mundi fagna því að Atlantshafsbandalagið tæki þátt í þessu. Hér verða Eystrasaltsþjóðirnar, hér verða Austur-Evrópuríki, hér verða Rússar og margir fleiri. Það er alveg ljóst að ef til slíkra atburða kemur á Íslandi, sem við skulum vona að verði aldrei, þá verðum við að biðja um alþjóðlega hjálp og alþjóðlega aðstoð. Þá verður fyrst og fremst spurt um hverjir eru hæfir til að veita þá aðstoð. Það verður ekki spurt hvort sjúkrabíllinn eða slökkviliðsbíllinn sem kemur hafi verið í eigu tiltekins hers eða ekki, heldur hvaða gagn hann getur gert.