Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 14:28:12 (5344)

1997-04-17 14:28:12# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[14:28]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég vék ekki einu orði að samstarfi í þágu friðar, Partnership for Peace, sem slíku nema í einni jákvæðri setningu. Ég sagði að það væri að sjálfsögðu góðra gjalda vert og mjög jákvætt að andrúmsloftið í samskiptum fyrrum fjenda hefði þróast jákvætt hvað það snertir. Það er bara ekki það sem skiptir máli hér að mínu mati og það var ekki það sem ég var að leggja út af. Ég var að leggja út af þessari samtvinnun almannavarna og borgaralegra þátta og hernaðarumsvifa hins vegar. Auðvitað vitum við báðir, ég og hæstv. ráðherra, að þetta er hluti af ákveðnum áróðursleik sem er í gangi og er alltaf í gangi og nánast engin öfl í heiminum hafa öflugri áróðursmaskínu nema ef vera skyldu bandarísku stjórnmálaflokkarnir heldur en einmitt hernaðaryfirvöldin og hernaðarbattaríið og vopnaframleiðendurnir á bak við þá. Það liggur fyrir. Ætli þeir sýni sig ekki eitthvað frá CNN og fleiri stofum? Ætli það verði ekki sendar út huggulegar myndir og gert mikið úr göfugmennsku Bandaríkjamanna og annarra slíkra sem hér verða með í þessu?

Það rifjast upp fyrir manni t.d. þegar fáránleikinn var slíkur t.d. í heræfingum fyrir nokkrum árum að meira að segja aumingja litla Náttúruverndarráð uppi á Íslandi lét misnota sig til þess að taka þátt í þessari ímyndasköpun hjá Bandaríkjaher. Það gerðist með þeim hætti að risastórar bandarískar herþyrlur, Chinook-herþyrlur, sem eru einhver umhverfisfjandsamlegustu fyrirbæri í heiminum, nota mörg þúsund lítra af eldsneyti á klukkutíma, voru notaðar til þess að hífa pínulitla heybagga á milli staða. Svo var mönnum selt þetta sem framlag í þágu umhverfisverndar og þetta var sent út á CNN um allan heim. Hversu langt í slíkum fáránleika, yfirborðsmennsku og skrumi eru menn tilbúnir til að ganga? Ég tel að þessar æfingar hefði þá átt að bera að með allt öðrum hætti. Ef þær áttu að vera eiginlegar íslenskar almannavarnaæfingar vegna hugsanlegs Suðurlandsskjálfta þá átti að skipuleggja þær með öðrum hætti frá grunni en ekki hnýta þær saman við þessa heræfingu, Norðurvíking. Það er mergurinn málsins að í beinu framhaldi af þessum sjónarleik sem þarna verður verða svo heræfingarnar sjálfar.