Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 17. apríl 1997, kl. 15:08:59 (5351)

1997-04-17 15:08:59# 121. lþ. 105.1 fundur 288#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[15:08]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ánægð með viðbrögð hæstv. utanrrh. við því sem ég er að bera hér fram í umræðunni um utanríkismál og mér þykir til þess koma að hann væntir þess að slíkur alþjóðadómstóll komist í höfn. Ég er sannfærð um það að Ísland á möguleika á því að skapa sér stöðu á erlendri grund sem málsvari mannréttinda. Okkar land er þess eðlis, okkar stjórnarskrá er þess eðlis, okkar réttarfarsríki er þess eðlis og ég trúi því að ef utanríkisráðherra, eða hver sá sem á eftir að skipa það sæti í framtíðinni, velur að leggja mikla áherslu á að verða slík rödd á alþjóðavettvangi, þá muni honum takast það og við munum ná eyrum þjóða. Það er sannfæring mín.

Hvað varðar það mál að tryggja stöðu flóttamanna og að allshn. fari yfir það mál, þá er það svo að árið 1993 barst þetta erindi frá Amnesty til alþjóðanefndar og þá var farið yfir þessar nýju grundvallarreglur. Þáv. nefndarritari, Elín Blöndal, fór yfir það hverju var ábótavant í lögum, hvar löggjöf er nægjanleg varðandi viðkomandi meginreglu og þess vegna liggur það fyrir á pappír hverju þyrfti að breyta og ég mun ljósrita þetta og gefa ráðherranum, ekki af því að ég telji að hann beri ábyrgð á málinu eins og kom fram í máli hans, heldur vegna þess að nú þarf að hreyfa við því. Það var sett á laggir flóttamannaráð 1995. Það er eins og það hafi einhvern veginn drepist í dróma. Ég hef borið fram þær fyrirspurnir sem ég hef lýst og ef ráðherrann mundi taka upp í ríkisstjórn að það þurfi að gera skurk í því að breyta lögum til að þau verði í samræmi við þessar alþjóðareglur, þá er ég sannfærð um að það getur gerst með nokkrum hraða þó að það verði kannski ekki með sama hraða og mörg þau mál sem hafa komið hingað inn að undanförnu.